Töfin á Sundabraut hefur kostað hundruð milljarða. Töfin endalausa við Blönduós.

Hugmyndin um Sundabraut hefur verið að velkjast og tefjast hjá ráðamönnum þjóðarinnar í meira en tuttugu ár. Loksins nú er búið að reikna út arðsemi hennar í "félagshagfræðilegri greiningu" og út frá henni má giska á það gríðarlega tap, sem hin langa töf á þessari þjóðþrifaframkvæmd hefur valdið. 

Nú er biðin vonandi á enda, en hliðstæður má finna annars staðar í vegakerfinu. 

Þegar síðuhafi var fimm sumur í dvöl að Hvammi í Langadal á árunum 1950 til 1954 var það starfi hans sem kúarektors að reka kýrnar á bænum á beit upp í um 240 metra hæð í fjallinu fyrir ofan bæinn á grösugan hjalla sem heitir Nautahjalli. 

Þaðan blasti daglega við sjónlínan beina frá Fagranesi í miðjum Langadal yfir til Stóru-Giljár, og á korti hins unga landafræðinörds blasti líka við stytting norðurleiðarinnar upp á 14 kílómetra. 

Á þessum tíma voru menn uppteknir við að brúa Blöndu yst í Blöndudal hjá Löngumýri og búa til svonefnda Svínvetningabraut, sem að vísu var, ef hún var notuð á norðurleiðinni, aðeins styttri leið en þjóðvegur númer eitt, en tók á sig nokkra slæma króka og lá upp í ansi mikla hæð á Bakásum. 

Viðfangsefnin í vegabótum um allt land voru æpandi og því eðlilegt að í bili yrði að sætta sig við það að reisa stærri Blöndubrú niðri á Blönduósi, gera breiðan og malbikaðan veg eftir Langadal og góðan veg um Þverárfjall milli Blönduóss og Sauðárkróks. 

Með síðastnefndu leiðinni var tryggt að ekið yrði í gegnum Blönduós á leiðinni til Sauðárkróks, hvað sem öðrum vegaframkvæmdum liði. 

Lokaskrefið í bættu vegakerfi í Austur-Húnavatnssýslu hefði átt að vera 14 kílómetra styttingin, sem nefnd hefur verið Húnavallaleið. 

En þá gerðist svipað og hafði gerst á Hellu á Rangárvöllum, þegar þjóðvegurinn var styttur þar með nýrri brú; að mikil andstaða kom fram meðal heimamanna, sem vildu áfram þvinga fram akstur allra í gegnum miðju þorpsins á gamla brúarstæðinu. 

Sem betur fór gátu lagnir stjórnmálamenn leyst málið á þeim stað með sanngjörnum uppbótum, og í dag lítur hugmyndin um brú á gamla brúarstæðinu út eins og brandari. 

Svipaða leið er hægt að fara varðandi Húnavallaleiðina nyrðra. Nýtt brúarstæði við Fagranes í Langadal yrði áfram innan sveitarfélagsins og íbúar hreppsins mynu áfram njóta allrar umferðar í gegnum Blönduóshrepp. 

Þessi stytting er talin einhver hagkvæmasta stytting, sem hægt er að framkvæma í vegakerfi okkar, og kominn tími til þess að huga að henni eftir 70 ára töf.  


mbl.is Ein stærsta vegaframkvæmd Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Ég  tel að afturhvarf fra mislægum gatnamótum á stofngötum Reykjavíkurborgar sé enn meiri kostnaður fyrir þjóðarbuið. Mislæg gatnamót sem gera Sæbraut,Miklubrut og Kringlumýrarbraut umferðaljosa frí kostar svipað og þrenn siðustu jarðgöngin á landinu. Ekki gleyma 14 km styttingu við Hornafjörð yfir Hornafjarðarfljót og siðan um 30 km styttingu með göngum undir Berufjörð.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 27.1.2022 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband