7.2.2022 | 07:58
Nýtt "détente"; "þíða" í Evrópu?
Kalda stríðið, 1946-1991, var ekki alltaf jafn kalt í Evrópu, og var hafið áður en Winston Churchill hélt hina frægu Fulton-ræðu sína með lýsingunni á Járntjaldinu, sem næði frá Eystrasalti suður til Miðjarðarhafs.
Togstreitan milli vestrænna lýðræðisþjóða og austurblokkarinnar klauf þjóðir í herðar niður og olli stjórnarslitum á Íslandi strax 1946 vegna Keflavíkursamningsins um afnot Bandaríkjamanna af Keflavíkurflugvelli.
Eftir dauða Stalíns kom þriggja ára þíða, en innrás Rússa í Ungverjaland 1956 skellti öllu aftur í lás.
Skammvinn þíða varð 1960 en njósnaflug Gary Powers, sem skotinn var niður yfir Sovétríkjunum, færði með sér nýtt kuldakast, sem færði heiminn á brún kjarnorkustyrjaldar 1962.
Júgóslavía undir stjórn Títós og síðar Rúmenía undir stjórn Chauceskus nutu takmarkaðs frelsis, og staða Finna var afar sérstök, en innrás herja Varsjárbandalagsins inn í Tékkóslóvakíu 1968 opnaði augu margra vestrænna kommúnista fyrir eðli leppstjórna Sovétmanna í Austur-Evrópu.
Á valdatíma Willy Brandts í Vestur-Þýskalandi varð til stefna, sem kölluð var Détente - Friðsamleg sambúð, slökun stirðra samskipta, sem hlaut kulnun á árunum 1980 til 1985.
Tilraunir til svipaðrar stefnu sambúðar Þýskalands og Frakklands 1912 enduðu í Fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918.
Fyrsta áratuginn eftir fall Sovétríkjanna 1991 var gullið tækifæri til að skapa slíka sambúð í Austur-Evrópu, en á þessari öld hefur sigið á ógæfuhlið.
Frumkvæði Macrons Frakklandsforseta varðandi nýtt tímabil friðsamrar sambúðar ríkja Evrópu og sköpun nýs öryggis er ekki aðeins virðingarvert, heldur nauðsynlegt.
Háskaleikur með hernaðaruppbyggingu á ystu nöf er ógn, sem lægja þarf.
Telur möguleika á samkomulagi við Rússa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.