2.3.2022 | 19:31
Hvar verður nýja Járntjaldið?
Úr ræðum Vladimiers Pútíns má lesa það, hugsunarháttur hans er skilgetið afkvæmi tíma Sovétríkjanna og þar á undan keisaraveldisins Rússlands.
Hann leggur sífellt út af því, sem gerðist í aðdraganda innrásar Hitlers í Sovétríkin 1941, eins og gert var allan tíma Kalda stríðsins, og fóstraði þá þráhyggju leiðtoga Sovétríkjanna að allt ætti að snúast um það að koma í veg fyrir að slíkt gerðist aftur.
Hugsunin byggðist á djúpri tortryggni á Vesturveldin og þar af leiðandi á því að viðhalda svonefndu Járntjaldi, sem klauf Evrópu í tvö ríkjasvæði.
Berlínarmúrinn, sem reistur var 1961, var hluti af þessari sviðsmynd, og fall hans varð því ekki aðeins táknrænt, heldur í raun upphaf hruns kommúnistaríkjanna í Austur-Evrópu.
Hitler hefði getað bjargað lífum um þriggja milljóna manna með því að gefast um í kringum áramótin 1944-45, en þá verður að líta á þá kennisetningu hans frá upphafi ferils hans, sem fólst í slagorðinu "Aldrei aftur 1918."
Hann byggði allan málflutning sinn á þeirri firru, að innlendir svikarar hefðu gefist upp með vopnahléi án þess að óvinurinn væri neins staðar kominn inn á þýskt land.
Leiðtogar ríkja Evrópu reyndu að byggja upp tíð öryggis og friðar eftir lok Kalda stríðsins 1991 með loforðum um hamla gegn útfærslu NATO til austurs svo að tortryggni Rússa linnti.
Tvennt kom í veg fyrir þetta, sem stafaði af gagnkvæmnri tortryggni:
Nýfrjálsu ríkin í Austur-Evrópu þrýstu á að komast undir öryggishjálm NATO.
Og
Vladimir Pútín komst til valda í Rússlandi, en hann hafði svarið þess dýran eið að reisa Rússland við úr þeirri niðurlægingu, sem fall Sovétríkjanna var í hans augum.
Kjörorðið hans gat verið svipað og Hitlers: Aldrei aftur 1941! Aldrei aftur 1991!
Gallinn við slík heit er sá, að þau byggjast oft á atburðum og ástandi í fortíðinni og gera ekki ráð fyrir að neitt hafi í raun birst í tímans rás.
Þess vegna er stríð Rússa á hendur Úkraínumönnum nú ávísun á nýtt Kalt stríð, þar sem einhvers konar járntjald verður endurreist, en um staðsetningu þess verður hins vegar enginn friður.
Segir nýtt kalt stríð hafið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.