Sums staðar eru lyftur með "dauðan farsímablett".

Við flestar lyftur er aðvarað á spjaldi við því að nota þær ef eldur er laus. Miðað við nútíma tækni væri kannski líka ástæða til þess að mæla hvort farsímasamband sé alla þá leið, sem lyftan fer og setja upplýsingar um það líka á spjald. 

Lyftur geta nefnilega stöðvast hvar sem er á leiðinni, til dæmis ef stigið er óvart á öryggisþröskuldinn þegar lyftan er á ferð. 

Góð og sönn dæmisaga er um þetta. Íbúi í háhýsinu að Austurbrún 2 var með konu utan af landi í heimsókn, og sagðist hún vera dauðhrædd við að nota lyftur. 

Þess vegna hefði hún lagt það á sig að ganga alla leiðina upp, þótt það hefði tekið drjúga tíma og verið erfitt í lokin. 

Þegar hún var að kveðja sagðist hún vilja ganga niður stigana, en gestgjafinn hvatti hana til þess að taka heldur minni og hraðari lyftuna og kynnast þessari flottu tækni. 

Öryggið væri frábært, hann myndi koma með og gæti sýnt þetta á niðurleið. 

Svo fór að konan féllst á þetta. 

Á miðri niðurleið var henni sýndur öryggisþröskuldurinn, sem kæmi veg fyrir að slys yrði, þótt eitthvað lauslegt kæmist þar inn á milli, því að þröskuldurinn væri í sambandi við aflkerfi lyftunnar og sæi um að stöðva hana ef eitthvað óvænt steðjaði að. 

Konan var vantrúuð og steig gestgjafinn þá á þröskuldinn til að sýna þessa dásamlegu virkni. 

Fullyrðing hans reyndist rétt, - lyftan stöðvaðist samstundis.

"Sjáðu, svona virkar nú tæknin" sagði hann hróðugur og ýtti á hnapp til að halda ferðinni áfram. 

En ekkert gerðist, sama á hvað var ýtt. 

Og - það sem verra var, lyftan var föst á versta stað á milli hæða. 

Það hefði verið í lagi út af fyrir sig, en nú tók við skelfingarástand hjá vesalings konunni, því að engin leið var að koma lyftunni af stað á ný og öryggisbjallan reyndist gagnslaus. 

Það var gjörsamlega örmagna gestur sem staulaðist út úr lyftunni að lokum eftir ólýsanlega skelfingarstund tæpum hálftíma síðar. 

Atvik á borð við þetta minnir á atburð sem varð í lyftu í húsi, þar sem æðstu menn þjóðarinnar voru á ferð, en lyftan bilaði. Ef rétt er munað voru þetta Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Oddsson og biskupinn. 

Um þetta orti Jóhannes Sigfússon, bróðir Steingrims J., og brá fyrir sig tilvitnun í ljóð Gríms Thomsens, Arnljót Gellini, sem Stefán Jónsson fréttamaður hafði fyrrum tekið traustataki í stöku sinni um séra Emil Björnsson. 

Vísa Jóhannesar er svona: 

 

"Illt í för það ávallt hefur 

ef menn storka giftunni. 

Eru á ferli úlfur og refur 

í einni og sömu lyftunni." 

 

"Illt


mbl.is Föst í lyftu yfir nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Þetta er firna góður pistill hjá þér og þarfur
og ekki spillir kveðskapurinn fyrir.

Hvort mönnum líkar betur eða verr
þá er þeim bræðrum margt til lista lagt
og áreiðanlega hugstormun þeim Langnesingum
sem gefið er að njóta ávxtanna af því pundi!

Ætli ég kannist ekki við Austurbrún 2 en fremur illa þokkaður
en það kom hins vegar engum á óvart(!)

(dvöl reyndar talið í dögum frekar en vikum og enn skiljanlegra hinu fyrra)

Flestir hafa ótta af einhverju og kannast við það
en þeir eru færri sem kynnst hafa þeirri röskun sem fylgir ofsahræðslu.

Því er brýnt að huga að þeim grundvallaratriðum sem þú nefnir í pistli þínum
og reyna með öllum ráðum að tryggja að samband náist ævinlega og lyftur
fái ekki vottorð um að vera í lagi nema að uppfylltum þessum skilyrðum.

Með kveðju úr þeirri hraðskreiðari,

Húsari. (IP-tala skráð) 6.4.2022 kl. 03:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband