Hitler, Stalín og Pútin, allir haldnir játaðri þráhyggju um "miðsvæðis" risaveldi.

Jónas Elíasson hefur skrifað góðar greinar um Úkraínudeiluna um Úkraínustríðið, sem viðra ýmsilegt svipað og hefur birst hér á þessari síðu varðandi hina forneskjulegu og hættulegu stefnu, sem Rússlandsforseti fylgir um að koma á stóru risaveldi, sem væri að minnsta kosti á pari við Rússland og Sovétríkin þegar veldi þeirra var hvað mest. 

Pútín er ekki sá fyrsti sem er haldinn svona þráhyggju um "miðsvæðis" stórveldi. 

Adolf Hitler skrifaði bókina "Mein Kampf" fyrir tæpri öld þar sem hann lýsti því skýrt og skorinort hvaða stefnu hann vildi að Þjóðverjar tækju til þess að ná sér upp úr þeirri niðurlægingu, sem þeir hefðu orðið að sæta í Fyrri heimsstyrjöldinni. 

Það fælist í því að gera Þýskaland að mesta stórveldi heims, sem næði frá Atlantshafi til Úralfjalla, þar sem slavnesku þjóðirnar yrðu undirokaðar og auðæfi Úkraínu, "kornforðabúrs Evrópu" gnægð málma og kola, sköpuðu "lifsrými" (lebensraum) fyrir "arísku yfirþjóðirnar." 

Í bókinni var rækilega stimplað inn, að stefna Þjóðverja skyldi beinast í austur; "drang nach osten", og að fella skyldi hinn gyðinglega bolsévisma "glæpamanna í Kreml."

Samt kom það öllum á óvart, meira að segja Stalín sjálfum, þegar Hitler réðist á Sovétríkin 1941. 

Þegar Frakkland var fallið í júní 1940 gerði Hitler Bretum tilboð, "Síðustu tilraun til skynsemi", sem þeir gætu ekki hafnað: Friðar-og griðasamningur sem fól í sér að Bretar héldu heimsveldi sínu með Þjóðverja sem bandamenn, sem myndu styðja Breta gegn árásum að öllu leyti. 

Bretar voru illa brenndir af samningum við Hitler og höfnuðu þessu "göfugmannlega" tilboði, en alveg er hugsanlegt að Þjóðverjar hefðu efnt þetta loforð, þótt flest hin fyrri hefðu verið svikin, því að Hitler dáðist mjög að breska heimsveldinu og sá þar ódýra leið til að láta Breta um að viðhalda því og nýlendustefnuni, Þjóðverjum til hagræðis. 

Það er athyglisvert, að á Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills hafnaði Bandaríkjaforseti því að Bandaríkjamenn styddu Breta í því að viðhalda nýlendustefnunni, þannig að Hitler bauð betur, svona út af fyrir sig. 

Núverandi stefna Pútíns er ekki ný og engum hefði átt að koma á óvart þegar hann hóf stóru herförina sína í Úkraínu 24. febrúar sl.

Í sambandi við það lýsti hann skorinort og skilmerkilega að stefna Rússa væri að hefna falls Sovétríkjanna og aumingjaskaps Gorbatjofs og Yeltsíns með því að kom á fót svipuðu stórveldi að víðáttu og völdum og Rússland var fyrr á tíð hjá Pétri mikla og Katrínu miklu, og endurreisa veldi Sovétríkjanna undir rússneskum fána. 

Pútín hefur margsinnis áður lýst þessari skoðun sinni, bæði á tíunda áratugnum, við valdatökuna 1994, og með harkalegum hernaðaraðgerðum sínum í Tsjetsjeníu og Georgíu. 

Frá sjónarhóli hans í Moskvu, nær Úkraína næstum hálfa leiðina frá Svartahafi til Moskvu og að við blasi herfileg mistök og skortur á framsýni, sem réði því að Nikita Krústjoff skyldi "gefa" Úkraínumönnum Krímskagann á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Pútín sagði 2014 þegar honum þótti vestrænn tundurspillir koma of nálægt Krim, að ef hann hypjaði sig ekki burt, myndi hann íhuga notkun kjarnorkuvopna ef nauðsyn krefði. 

Þarna nefndi hann stóra, stóra trompið, kjarnorkuvopnaeign Rússa, skelfileg vopn, sem ógna tilvist mannkynsins með því einu að vera til.  

 


mbl.is Maríupol fallin að sögn Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Stefna Pútíns kemur líklega vel fram í þeirri óhugnanlegu grein sem ég skrifaði um hér um daginn: https://dailysceptic.org/2022/04/06/russian-state-news-agency-paints-alarming-picture-of-the-denazification-of-ukraine/

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2022 kl. 20:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir þetta, Þorsteinn. Hitler trúði því að án hans yrði Þýskaland glatað og þýsku þjóðini refsað með því að hinir glæpsammlegu gyðinglegu bolsévikar myndu tortíma henni. 

Svo fór sem betur fer ekki, heldur varð umsnúningurinn í Vestur-Þýskalandi slíkur að talað var um þýska efnahagsundrið.  

Það er hrollvekjandi ef Pútín er á svipuðu róli varðandi kjarnorkuvopnin, því að öll eyðileggingin í Þýskalandi á stríðsárunum var barnaleikur miðað við þau ragnarök, sem kjarnorkustyrjöld myndi framkalla. 

Ómar Ragnarsson, 14.4.2022 kl. 23:55

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Syldi Pútin halda að hann slyppi sjálfur?

Halldór Jónsson, 15.4.2022 kl. 03:25

4 identicon

Sæll Ómar,

"glæpamanna í Kreml."

Hvað með glæpamennina í Kænugarði, er það eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld í Úkraínu haldi úti svona stöðugu stríð gegn sínu eigin rússnesku ættaða fólki þarna í Donbas (Donetsk og Luhansk) undanfarin átta ár (eða frá 2014), og er hefur kostað yfir 14.000 manns lífið, þú?

Áttu Rússar sem sagt að horfa uppá þetta á þess að gera eitt eða neitt???

Hver var að segja að stjórnvöld í Úkraínu væru algjörlega saklaus, allt af því fullkomin og/eða færu algjörlega eftir alþjóðalögum o.s.frv.?

Hvað með þessa stóru árás er stjórnvöld í Úkraínu voru búin að skipulegja svona vel og er stóð til að framkvæma gegn Donbas nú í síðast mars mánuði? 




En það er rétt þetta er allt saman eitthvað sem að má alls ekki minnast á í þessum líka ritstýrðu- og ríkisstyrktu fjölmiðlum hér á landi, svona rétt eins og með annað varðandi þessa hættulegu lífefnavopn framleiðslu Bandaríkjamanna í Úkraínu, þar sem stóð til að nota þessi lífefnavopn í árás Úkrínumanna gegn Donbas í síðasta mánuði.





Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 15.4.2022 kl. 15:09

5 identicon

Sæll Ómar.

Hnaut um þetta orðalag "...játaðri þráhyggju."

Hef aldrei séð þetta orðalag fyrr og er nokkur forvitni 
að vita hver munur er á þráhyggju og játaðri þráhyggju
í sálarfræði?

Það er munur á því að hafa takmark eða setja sér markmið
og því hugsanaferli sem fellt er undir þráhyggju.

Húsari. (IP-tala skráð) 15.4.2022 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband