19.4.2022 | 19:25
Svipaðar fréttir núna og frá Kína 1949 ?
Þeir, sem hlustuðu á útvarpið árið 1949, muna sumir eftir því að hafa heyrt hvernig her kommúnista hélt áfram sókn sinni í borgarastyrjöldinni í Kína dag frá degi fram á það ár í framhaldi af sókn kommanna eftir lok styrjaldar, sem hafði staðið í landinu allar götur 1937 og var líklega grimmilegasti hluti heimsstyrjaldarinnar.
Fyrir bragðið urðu nöfn kínversku borganna, sem féllu í hendur kommanna, minnisstæð, enda voru þær bæði margar, stórar og merkilegar.
Í stríðinu höfðu Bandaríkjamenn stutt stjórn þjóðernissinna Chang Kai Chek í baráttu Kínverja við innrásarher Japana, en eftir stríðið var komin stríðsþreyta í Bandaríkjamenn og þeir fluttu her sinn heim bæði frá Evrópu og Asíu.
Við þetta efldust sveitir kommúnista, sem höfðu orðið að hörfa undan í stríðinu, og hófu nú sókn á hendur Þjóðernissinnum; sókn, sem óx ásmegin jafnt og þétt, og þáttur af því var taka einnar borgarinnar eftir aðra árið 1949, Shanghai síðasta stóra borgin, uns stríðið var unnið í október.
Menn þjóðernissinna flúðu út í eyjuna Tævan, þar sem þeir og arftakar þeirra hafa ríkt síðan.
Nú, rúmum 70 árum síðar er hafin sókn í stríði Rússa við Úkraínumenn, þar sem hugsanlega má búast við upptalningu á nöfnum borga, sem barist verður um eina af annarri.
Það er dapurlegt og einhvern veginn svo fjarlægt, að þegar komið er vel fram á 21. öldina virðist draugar síðustu aldar, hvað varðar stríðsfréttir, komnir á kreik að nýju.
Í þessu nýja stríði 21. aldarinnar á annar aðilinn undir högg að sækja, og í þetta sinn, eins og fyrir þremur aldarfjórðungum, telja Bandríkjamenn sig ekki getað blandað sér í stríðið nema að mjög takmörkuðu leyti.
Annar kafli stríðsins hafinn og erfitt að flýja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.