Skiptir miklu hvar kvika gæti komið upp og orðið að ösku eða hrauni.

Það eru margir staðir á svæðinu milli Eldeyjar, Svartsengis og Grindavíkur, þar sem eldgos gæti gert usla. 

Á loftmynd sem tekin er nyrst yfir hinni rúmlega tíu kílómetra löngu gígaröð Eldvörpum nokkrum kílómetrum fyrir sunnan Svartsengi og Bláa lóninu, er horft út til Reykjaness, og eru Reykjanestá og Eldey fjærst, og gufumekkirnir í Reykjanesvirkjun sjást vel. Eldvörp. Reykjanes fjærst.

Gos í sjó gæti valdið miklu tjóni, því að undir vatni eða jökli koma oft skæð öskugos. 

En það eru fleiri verðmæti þarna sem eru bæði dýr og viðkvæm. Reykjanesvirkjun er verðmætt mannvirki aðeins örfáa kílómetra inni á landi, og af Eldvörpum og Stapafelli má sjá, að það er óþægilega stutt í Svartsengisvirkjun með sínu Bláa lóni, að ekki sé nú talað um byggðina í Grindavík.   

Hraunið í Geldingadalagosinu kom upp á alveg einstaklega heppilegum stað og ekki hægt að treysta á að gosin, sem nú sýnist vera hætta á að komi upp á nýju eldvirknistímabili valdi jafn litlu tjóni og verði jafnframt að jákvæðri auglýsingu fyrir landið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru margir staðir á svæðinu milli Eldeyjar, Svartsengis og Grindavíkur, þar sem eldgos gæti gert usla. Og ekki eru þeir smærri ef upptalningunni er haldið áfram alla leið til Þingvalla.

Hraunið í Geldingadalagosinu kom upp á alveg einstaklega heppilegum stað og töluverðan spöl frá þeim stöðum sem taldir voru líklegastir mánuðina á undan. Verður næsta gos nær Hafnarfirði? Eða fyrir ofan Reykjavík í Heiðmörk eða við Rauðavatn? Er ekki Viðey gömul megineldstöð, kulnuð og dauð eins og Vestmannaeyjar áttu að vera? Það er víst ómögulegt að segja hvar, rétt eins og við vitum ekki hvort það verði gos á suðvesturhorninu á næstu 1000 árum eða ekki.

Það rignir áfram, hvar ætli gjósi næst, skandall þetta með bankana? Klassísk umræðuefni. Og það mun fátt stoppa menn í því að spá eldgosum á hinum ýmsu stöðum nokkrum sinnum á ári. Yfir okkur öllum væri yfir þúsund metra ösku- og hraunlag ef prósentubrot spádóma síðustu aldar hefðu ræst.

Vagn (IP-tala skráð) 19.4.2022 kl. 02:06

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gosið í Geldingadölum var á kvikugangi, sprungu, sem vitað var um margar vikur á undanförnum mánuðum. Vísindamenn vöruðu þá við því að líkur á gosi á þessari sprungu væru miklar. 

Öll Kröflugosin níu voru á afmörkuðu svæði við kvikuhólfið sem vitað var að væri þar undir. Vísindamenn fylgdust vel með og vöruðu við hættunni í samræmi við það. 70 prósent gosanna komu upp á þessu svæði á hættutímanum. 

Það er út í hött að gera lítið úr því, þegar vísindamenn lesa úr gögnum til að upplýsa þá, sem eiga í hlut, um líkur á eldsubmrotum.  

Enginn hefur spáð um líkur á gosi í Viðey eða stöðum, sem eru eða hafa verið utan eldvirka svæðisins eins og það er nú. 

Ómar Ragnarsson, 19.4.2022 kl. 15:42

3 identicon

„Já ég myndi segja það, ég á ekkert von á gosi á næstunni miðað við hvernig þróunin er núna,“ sagði Benedikt. Næsta frétt fyrir ofan þá frétt á vef Ríkisútvarpsins er svo: Farið að gjósa!"  https://www.visir.is/g/20212087165d/-ja-thetta-kom-mer-adeins-a-ovart-

"Það kom í sjálfu sér ekki á óvart að þetta endaði með gosi en staðsetningin kom vissulega á óvart því Fagradalsfjallskerfið hafði ekki gosið í um 6.000 ár."  https://eldgos.is/reykjanesskagi/

https://ferlir.is/eldgos-i-geldingadolum-fagradalsfjalls/

https://www.ruv.is/frett/2021/09/12/skjalftar-og-hugsanlegur-undanfari-goss-a-snaefellsnesi

Að vera vitur eftirá er hvorki flókið né erfitt. Þá er jafnvel hægt að segja menn hafa búist við því sem kom þeim á óvart.

Vagn (IP-tala skráð) 19.4.2022 kl. 19:36

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eiga menn þá bara að hafa þetta eins og þegar gaus í Heimaey, að vegna þess að einn af þremur jarðskjálftamælum, sem sýndi upphaf gossins, var bilaður var ekki sagt múkk frá því sem þó var að gerast?

Eða þá að hafa það eins og í fyrsta Kröflugosinu 1975, að engum var sagt frá því sem æælarnir sýndu að væri að gerast?

Í pistlinum mínum er hvergi bein spá um gos heldur því hvað "gæti gerst" "ef" kvika kæmist upp á yfirborðið. 

Ómar Ragnarsson, 20.4.2022 kl. 01:12

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mikið virðist liggja við hér að ofan til þess að reyna að tala niður einaar blaðsíðu pistil með því að spandera á hann fimm blaðsíðum! 

Ómar Ragnarsson, 20.4.2022 kl. 01:15

6 identicon

Í pistli þínum er hvergi nein bein spá um gos heldur hvað gæti gerst ef kvika kæmist upp á yfirborðið. Enda segi ég hvergi að þú sért að spá gosi og taldi mig vera að skjóta á vísindamennina sem geta varla komið nálægt hljóðnema nema spá gosi einhverstaðar. Og þó þú kjósir að miða við svæði utan mikillar byggðar þá er ekki síður forvitnilegt að skoða hvað gæti gerst ef kvika kæmi upp í eða við höfuðborgina.

5 blaðsíður, minn hluti nær varla hálfri, restin er frá jarðvísindamönnum og viðtöl við jarðvísindamenn. Varla getur þú verið mótfallinn því að sjá hvað jarðvísindamenn hafa að segja, þegar þeir eru ekki uppteknir við að spá.

Vagn (IP-tala skráð) 20.4.2022 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband