7.5.2022 | 13:23
Skrýtið að finnast "toppurinn" vera lægð.
Þótt jafnan sé talað um að Grænlandsjökull sé rúmlega 3000 metra hár, verður þess ekki vart á leiðinni þegar jökulinn er þveraður, vegna þess að allan tímann eftir að komið er það langt upp á jökulinn að hvergi sést út fyrir hann, veldur hið gríðarlega hvíta birta, sem kastast af jöklinum í heiðskíru veðri því, að hún gerir himininn hvítbláan og bjagar sjóndeildarhringinn þannig í augum jöklafarans, að honum finnst hann ferðast lítillega upp í móti, jafnvel þótt hæðarmælir sýni annað.
Sýnist hann vera lægst í víðri lægð og horfa upp í mót í allar áttir í stað þess að vera "á toppnum."
Þeir, sem fara yfir jökulinn úr austri til vesturs, eiga eftir að koma niður á autt svæði inn af Kangerlussuaq, sem Danir og lengst af Íslendingar kölluðu Syðri-Straumfjörð, og er einstaklega fallegt yfirferðar, niður yfir úfinn skriðjökul sem er stærri en allir jöklar Íslands samanlagt og þar á eftir um hið auða svæði, sem einstaklega lítil úrkoma og hiti í ágúst upp á 16 stig yfir daginn tryggja tilvist.
Við fjarðarbotn er alþjóðlegur millilandaflugvöllur, sem Bandaríkjamenn gerðu i heimsstyrjöldinni, og loftlínan þaðan til meginstrandarinnar er 180 kílómetrar.
Grænlandsjökull er 20 sinnum stærri en allt Ísland, landið nær sunnar, vestar, norðar og austar en Ísland, og gríðarlegur munur á loftslagi, 16 stigin í ágúst í Kangarlussuaq, en aðeins 3,5 stig á veðurstöðinni í Tingmiarmiut á austurströndinni.
Íslenskt koníak-teiti á toppi Grænlandsjökuls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Ómar. Vissulega er munur á hita á vestur- og austurströnd Grænlands en það er nokkuð vel í lagt að munurinn sé 12,5 gráður yfir daginn í ágústmánuði eins og skilja mætti af orðum þínum.
Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 7.5.2022 kl. 14:59
Ég hef farið fjórum sinnum yfir til austurstrandar Grænlands að sumarlagi og séð með eigin augum hvernig ís og þoka marka veðurfarið þar. Tingmiarmiutt var í ungdómi mínum með lesið veðurskeyti í íslenska RÚV, og þegar ég fletti löngu síðar upp á gögnum um veðrið á þessari stöð, var þetta meðalhiti sólarhringsins í júlí. Þess vegna er austurströndin óbyggileg nema nokkur hús við Scoresbysund, og Kulusuk og Isortoq sunnarlega á ströndinni.
Ég hef gist við flugvöllinn í Kangerlussuaq og farið í jöklajeppa þangað alla leið yfir jökulinn, og í þeirri ferð aflaði ég mér upplýsinga á staðnum.
16 stiga hitinn í júlí er að vísu meðalhitinn á hádegi í Kangerlussuaq, en fjörðurinn er mjög mjór og langur og girtur háum fjöllum, sem verja fjarðarbotninn fyrir köldu lofti eða röku við vesturströndina 180 kílómetrum utar.
Ómar Ragnarsson, 7.5.2022 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.