27.5.2022 | 16:05
Eitt sinn lyftist tíu hjóla trukkur og flaug hundruð metra hjá Steinum.
Fyrir þá, sem eru nógu gamlir til að muna eftir þeim tíma í stríðinu þegar veðurfregnir voru ekki sagðar í útvarpinu, er það ekki aðeins minnisstætt þegar byrjað var að lesa þær á nýjan leik, heldur ekki síður setningin "rok undir Eyjafjöllum", þegar þeirri setningu var bætt við spána fyrir Suðurland.
Nú kemur í viðtengdri frétt á mbl.is enn fram staðfesting á því að undir Eyjafjöllum sé ennþá varasamasti hviðustaður landsins.
Ein frétt frá því fyrir rúmum aldarfjórðungi kemur í hugann. Það var þegar tíu hjóla hertrukkur, sem stóð úti á túni við bæinn Steina, tókst eitt sinn á loft í fárviðri og flaug nokkur hundruð metra í einu flugi án þess að snerta jörð og lenti á hjólunum eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Hrikalegt fjallið fyrir ofan Hvamm með sínu lóðbeina og íhvolfa hamrastáli að baki bænum er augljóslega rétt valinn staður hjá veðurfræðingunum, sem vindhviðustaður landsins við þjóðvegi, en nefna má stað við Tíðaskarð syðst við gamla Hvalfjarðarveginn þar sem myndast getur mikið sog ásamt hvirflum.
Dæmi um það var þegar níu manna International ferðabíll stöðvaðist á veginum vegna þess að hann hoppaði lóðrétt upp á hjólunum í firnasterkum hvirfilvindi og snerist þannig hoppandi á veginum, þar til allt í einu heyrðist hvellur, og húddlokið á honum rifnaði lóðrétt upp þegar það sleit festingarnar og skrúfaðist tugi metra í loft upp en skall síðan lóðrétt niður skammt frá bílnum.
Við þetta fór hluti af sogkraftinum undir bílnum upp í gegnum opið vélarrýmið og bíllinn hélst því á veginum.
Í utanverðum Langadal hefur lengi verið leiðinda rokkafli í hvassri norðaustanátt með tilheyrandi skafrenningi og blindhríð og fleiri svona staði má nefna.
Hvammur varasamasti hviðustaður landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.