17.7.2022 | 22:44
Löngu kominn tími til að sækja að "ofurmeti" Vilhjálms.
Á fyrstu árum gullaldar íslensku frjálsíþróttamannanna var fátt sem benti til þess að þrístökk yrði meðal þeirra greina, sem Íslendingar næðu í fremstu röð á alþjóðavísu.
Allt fram til 1956 voru tvö bestu afrekin 14,77 m hjá Kára Sólmundarsyni og 14,71 hjá Stefáni Sörenssyni. En heimsmetið var enn meira en hálfum metra lengra og stefndi upp.
Vilhjálmur Einarsson var að hefja íþróttaferil sinn og fékk þá umsögn eins þjálfara, að hann gæti kannski helst orðið liðtækur kúluvarpari!
En síðan fóru að gerast óvænt atvik. Vilhjálmur vakti í fyrstu enga athygli fyrir fikt sitt við þrístökk, fyrr en það gerðist eitt sinn að hann klúðraði atrennunnni svo rækilega, að hann varð að stökkva fyrsta stökkið upp af "vitlausum" fæti og þar með tvö seinni stökkin líka af "röngum" fótum, og útkoman varð algerlega óvænt svo góð, að hann hélt sig við þetta eftir það.
Ólympíuleikarnir voru í Melbourne í Ástralíu i desember og síðan gerðist það alveg jafn óvænt og "vitlausa stökkið" hjá Vilhjálmi, að hann náði öllum að óvörum Ólympíulágmarkinu með því að stökkva 15,83 metra á móti í Karlstad í Svíþjóð; gott ef það var ekki Norðurlandamet.
Einn helsti þjálfari Svía kom að máli við Vilhjálm og sagði honum, að hann gæti lengt stökk sitt um hálfan metra, ef hann breytti rytmanum milli stökkvanna þriggja með því að lengja miðstökkið og fá meira "hang" í það stökk, án þess að það gerðist á kostnað fyrsta og þriðja stökks.
Þetta var gerólíkt því sem heimsmethafinn Ferreira Da Silva gerði; hann stökk feiknarlega hátt og langt fyrsta stökk á kostnað stökkvanna á eftir.
Söguna af framhaldinu þekkja flestir: Vilhjálmur setti Ólympíumet, 16,26 metra, sem stóð þar til Da Silva tókst að bæta það í lok keppninnar.
Risastökkið mikla, sem enn stendur sem Íslandsmet, var 16,70 metrar og svo hefur virst þrátt fyrir miklar tæknilegar framfarir í stökkbrautum, skóm og þjálfunaraðferðum, að það verði eilíft og ósnertanlegt fyrir Íslendinga.
En saga mets Vilhjálms er einfaldlega þannig, að um það gæti gilt hið fornkveðna, að "ævintýrin enn gerast."
Það er löngu kominn tími til.
,
Besta stökk Íslendings í 60 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.