26.7.2022 | 15:26
Gosið mikla í Grímsvötnum var árið 2011, þar áður gaus þar 2004 og 1998.
Nauðsynlegt er að hafa yfirsýn, byggða á réttum staðreyndum í annars ágætri viðtengdri frétt á mbl.is um Bárðarbungu.
Þar er birt mynd, sem sögð er af eldgosi í Grímsvötnum árið 2013, en það ár gaus hvergi, heldur voru tvo stór gos sitt hvorum megin við 2013 í tíma.
Gríðarmikið gos varð þar árið 2011, sem olli svo miklu öskufalli, að flug truflaðist yfir Atlantshafið og féll til jarðar í Vestur-Skaftafellssýslu og gerði þar myrkur um hábjartan dag.
2014 til 15 varð svo gos í Holuhrauni, sem hafði í för með sér mesta hraunrennsli síðan 1783 og olli eitruðu lofti á stórum hluta landsins.
Gosið í Holuhrauni 2014 sýndi að áhrifasvæði Bárðarbungu teygði sig norður fyrir Dyngjujökul í átt til Öskju.
Nú hefur land risið undir Öskju síðan í fyrra og fróðlegt verður að vita hvort eða hvernig það gæti tengst Bárðarbungu eða hvort ekki sé liklegt að umbrot í Öskju séu sjálfstætt fyrirbæri.
Vitað er að Bárðarbunga hefur stjórnað gosum allt suður undir Torfajökul fyrr á öldum, svo að enginn skyldi vanmeta getu þessarar öflugu megineldstöðvar.
Þrýstingur eykst enn í öflugustu eldstöð landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sama hvað gosspámenn segja, alltaf koma náttúruöflin á óvart. Hver spáði fyrir Heimeyjargosi í janúar 1973? Jarðvísindamenn geta gengið að því vísu að ekki gýs nákvæmlega á sama stað. Gos byrjuð að nýju á Reykjanesskaga eftir margra alda hlé. Hekla er duttlungafull og aldrei að vita hvar næsta gos verður eða hversu öflugt það verður.
Sigurður Antonsson, 26.7.2022 kl. 21:37
Svo mikill munur er á mælingatækni og fjölda mæla núna eða var fyrir bara nokkrum áratugum, að samanburður er ómögulegur.
Líklega hefði verið hægt að mæla landris undir Öskju rétt fyrir gosið 1961, en ekkert slíkt var fyrir hendi þá.
Hallamælingar í stöðvarhúsinu í Kröflu í Kröflueldum mörkuðu upphaf nýrra tíma og stóraukinnnar þekkingar á jarðfræði.
Ómar Ragnarsson, 27.7.2022 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.