"Að hika er sama og að tapa"? Ömurlegt upphaf Seinni heimsstyrjaldarinnar.

Var að skoða upphaf Seinni heimsstyrjaldarinnar og undrast hve létt Þjóðverjar komust upp með það að nota mestallan her sinn og allar skriðdrekasveitir til þess að bruna yfir Pólland án þess að Frakkar og Bretar virtust þora að gera neitt. 

Frakkar voru með langstærsta her heims, alls ríflega fimm milljónir manna, og Bretar með tæpa milljón í vioðbót. 1. september voru hundrað franskar herdeildir tilbúnar til að bruna tafarlaust inn í Þýskaland þar sem aðeins 23 herdeildir voru til varnar. Þetta var hvorki meira né minna en fimmfaldur liðsmunur!

Frakkar, Bretar og Pólverjar voru með samtald 8,5 milljónir hermanna en Þjóðverjar aðeins 3,7 milljónir. Flugvélar Þjóðverja voru um 4000 en Frakka, Breta og Pólverja 5000. 

Allar fyrstu vikur stríðsins fóru í japl, jaml og fuður hjá hinni þunglamalegu og gamaldags forystu franska heraflans, og hikandi aðgerðir fóru í vaskinn fyrir þá á meðan Þjóðverjar brunuðu áfram í sínu leifturstríði og gersigruðu pólska herinn á rúmri viku. 

Herfræðingar þess tíma göptu af undrun yfir þessum ofurhraða, margföldun miðað við fyrri styrjaldir, og í hernaði gildir lögmálið "hraðinn drepur."   

Það tók þrjá fyrstu septemberdagana fyrir Frakka að segja Þjóðverjum stríð á hendur eins og þeir voru búnir að hóta fyrirfram, og þetta gerðist á meðan hver mínúta var dýrmæt.

Innrásin var gerð á föstudegi og formfastar vinnureglur um helgar hjá Frökkum töfðu aðgerðir, þannig að þeirra stríðsyfirlýsing kom ekki fyrr en klukkan fimm síðdegis á sunnudegi, sex klukkustundum á eftir yfirlýsingu Breta! 

Hernaðarsérfræðingar og hershðfíngjar hafa lýst því síðar, að á fyrstu viku stríðsins hefði franski herinn getað lagt undir sig stór landsvæði í Þýskalandi og komist yfir Rín. 

Að vísu var með semingi gefin skipun seint og um síðir um að sækja fram, en slík var ákvarðanafælni herstjórnarinnar frönsku, að herflutningarnir fóru víða fram á daginn, en síðan var lið dregið til baka í skjóli myrkurs á næturna. 

Frakkar þorðu ekki að nýta sér yfirburði í þungavopnum og flugvélum til að ráðast á skotmörk við Rín af ótta við að Þjóðverjar myndu svara í sömu mynt yfir Signu!   

Orðtakið að hika er sama og að tapa kemur í hugann þegar litið er yfir tðlurnar, sem leiða Max Hastings sagnfræðing til þeirra ummæla í bestu bók, sem skrifuð hefur verið um Seinni heimsstyrjöldia, að svik Breta og Frakka við Pólverja hafi verið einhver verstu svik styrjaldarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er gaman að lesa pistlana þína um þetta, þú ert svo vel að þér um seinni heimsstyrjöldina. Það eina sem mér finnst vert að bæta við þennan áhugaverða pistil er að langfjölmennasti herinn getur stundum ekki verið sá sterkasti. Maður sér það í Úkraínustríðinu að Úkraínumenn eru mjög harðir í horn að taka og seigir, nokkuð sem í upphafi stríðisins fæstir töldu mögulegt, að þeir veittu þetta mikla mótspyrnu. Vopnasendingarnar hafa vissulega líka skipt miklu máli. Fjölmennið er meira hjá Rússum og auðmagnið, miðað við Úkraínu.

En Þjóðverjar voru auðvitað býsna sérstök þjóð á millistríðsárunum. Samstilling er það hugtak sem mér finnst lýsa þeim bezt og svo stríðsæsingur. Nýlegir þættir á RÚV voru mjög áhugaverðir, Babýlon Berlín hétu þeir, eða heita, ef þeir eru framleiddir enn, sem sýndu hvað vinstriöfgarnir voru sterkir í ýmsum hópum í Þýzkalandi fyrir 1933, hvernig kommúnisminn rússneski flæddi inní landið, og lá við upplausn.

Í þessu andrúmslofti boðaði Hitler bæði stöðugleika og endurreisn landsins og þjóðarinnar og stóð við það þangað til seinni heimsstyrjöldin hófst. Það var gífurleg uppsveifla áður en það stríð hófst.

Af þessu má læra að þar sem einar öfgar eru áberandi geta andstæðar öfgar fljótt náð yfirhöndinni, þegar ræðusnillingar birtast.

En þrátt fyrir gífurleg mistök þegar leið á stríðið gerðu Hitler og nazistarnir eitthvað rétt í upphafi stríðsins, hernaðarlega, á meðan aðrar þjóðir voru tvístígandi. 

En það sama á ekki við um Rússa og Pútín og Hitler og hans herdeildir. Á meðan kjarnorkuvopn og önnur gereyðingarvopn eru í Rússlandi þarf að huga að því að veiklaður andstæðingur getur verið hættulegastur, og sé Pútín að tapa getur hann notað sýklavopn, efnavopn eða kjarnorkuvopn, því miður. 

Mér finnst að Vesturlönd eigi að skilja að það kemur dagur eftir þennan dag, og nútímastyrjaldir eru ekki eins og þegar hægt var að sigra með aflbeitingu, meiri hernaði. 

Að lifa með Pútín, að lifa með Rússlandi og jafnvel einræðistilburðunum, hvað hefur mörgum dottið það í hug? Selenskí er fullur af vestrænni hugmyndafræði og þjóðerniskennd, en Pútín hefur sýnt að hann teflir mjög djarft í stríði. Þannig var þetta í Tsjetsjeníustríðinu.

En eitt er þó svipað. Að lokum voru of margar þjóðir á móti Þjóðverjum, þrátt fyrir frábæra hermenn og margt sem var rétt gert. Þannig er þetta með Rússa, enginn sigrar með gereyðingarvopnum, en þau hafa fælingarmátt, og varla er hægt að trúa að Rússum takist meira en að ná Úkraínu, ef það er þá mögulegt. 

Vonandi að Pútín hafi meiri áhuga á að semja við heimsbyggðina en ýmsum einræðisherrum sem fór ekki vel fyrir. Sem flestir ættu að biðja fyrir því.

Ingólfur Sigurðsson, 26.7.2022 kl. 02:16

2 identicon

Sæll Ómar.

Auðvitað vissu þessar heybrækur upp á sig sökina
og nutu þess hálfsofandi að eta eigin lýs og gæla
við þau dýr sem líktust þeim mest sjálfum, - rotturnar.

ÖLL fræ illskunnar frá því að Versalasamningarnir voru gerðir
höfðu þúsundfaldast og milljónfaldast og það
varð sem enginn þurfti að gera sér undrunarsvip yfir.

Húsari. (IP-tala skráð) 26.7.2022 kl. 03:44

3 identicon

Á youtube er stórkostlegt myndband, undir heitinu "world war ll every day with army size" fyrir þá sem áhuga hafa á wwll.

Hrikalegur þessi hildarlleikur á austurvígstöðvum.  Ég hafði haft hugmynd um hversu gríðarlegur fjöldi hermanna barðist þzr fyrr en ég sá þetta myndband.  Lætur allar aðrar orustur lít út ein og smáskærur.

Bjarni (IP-tala skráð) 26.7.2022 kl. 14:00

4 identicon

"Hafði ekki haft hugmynd" átti þetta að vera.

Bjarni (IP-tala skráð) 26.7.2022 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband