9.8.2022 | 13:53
Hvað um "rafbíl litla mannsins"?
Það vantar ekki dýrar glæsikerrur á listann yfir rafbíla, sem beðið er með eftirvæntingu.
Svipað var uppi á teningnum varðandi eldsneytisknúna lúxusbíla á tímum efnahagshrunsins 2008 og þar á eftir, og ef litið er yfir listann frá þeim tíma þegar ódýrra bíla var svo sannarlega þörf, vekur athygli, að bílar af Dacia gerð voru ekki þeirra á meðal.
Síðuhafi hafði þá séð að ódýrustu og rúmbestu bílarnir auk Dacia jepplingsins seldust vel í Þýskalandi og víðar í Evrópu, en við ábendingum til hugsanlegra umboðsaðila hér á landi fengust nokkuð samhljóða svör um það að svona "austur-evrópskt drasl" ætti ekkert erindi til Íslands.
Þetta úrelta viðhorf til bíla, sem þá voru í raun Renaultbílar þótt framleiddir væru í Rúmeníu, tafði innreið Dacia Duster og fleiri Dacia bíla til landsins í mörg ár.
Með hliðsjón af þessu vaknar spurningin um rafbíl frá Dacia, og viti menn: Dacia hefur hannað rafbíl, sem tekur fjóra í sæti og gæti orðið milljóninni ódýrari en þeir ódýrustu.
Heiti bílsins er Dacia Spring og galdurinn að baki hönnunarinnar er einfaldleikinn sjálfur:
Með því að setja rafhlöðurnar ekki undir gólfið eins og nú tíðkast, vinnast tæplega 15 auka sentimetrar fyrir vegalengdina frá gólfi upp í þak, sem líka auka stórlega rými undir aftursætinu, sem hægt er að nota fyrir rafhlöður.
Í flestum rafbílum eru hreyflarnir minnst 80 hestöfl, helst drjúgt yfir 100 hestöflin, en vegna þess að rafhreyfill veitir full tog-átak strax á fyrstu snúningunum, kemst Spring af með aðeins 45 hestöfl, sem eru alveg nóg til að halda 90 km hraða í helstu brekkum gatna- og vegakerfisins
Í þessu snjalla atriði felst sparnaður á orku og þar með orkueyðslu.
Spring er fyrir bragðið bæði mjósti bíllinn á markaðnum að utanmáli og 20 sentimetrum styttri en Yaris!
Hann er 1045 kíló, sem er hundrað til tvö hundruð kílóum minna en á næstu bílar fyrir ofan að stærð.
Bið er á afhendingu Spring til norðlægra landa meðan verið er að pæla í að hafa í honum varmadælu fyrir svalt loftslag.
En óneitanlega er þetta spennandi kostur og snjöll lausn.
Hingað til lands hafa verið fluttar tvær gerðir af bílum, sem kalla mætti "rafbíla litla mannsins" ef miðað er við stærð og verð.
Aftari bíllinn á meðfylgjandi mynd er af Tazzari Zero EM1, tveggja sæta og kostaði 2 millur 2017. Fremri bíllinn var fluttur inn í fyrra, Invicta Ds2, tveggja sæta og kostar 2,5 millur. Báðir bílarnir hafa í reynsluakstri náð fullum þjóðvegahraða og Tazzari verið með 90 km drægni við meðalaðstæður hér á landi, en Invicta með 110 km drægni.
Rafhreyflanir eru 20 hestöfl hjá Tazzari og 27 á Invicta og rafhlöðurnar 13 kwst á Tazzari og 17 á Invicta. Tómaþyngd 760 kíló á Tazzari og 860 á Invicta og þessi léttleiki er grunnurinn að sparneytni þeirra. Og ekki vantar farangursrýmið í Invicta.
Raunar er Spring um tvö hundruð kílóum léttari en næstu keppinautar hans.
Not tveggaj sæta rafbílanna miðast við borgaraðstæður og hleðslu frá venjulegu húsarafmagni. Invicta framleiðir dýrari gerð með stærri rafhlöðu og búnaði fyrir hraðhleðslu á hraðhleðslustöðum, en sú gerð er þá orðin um 800 þúsund krónum dýrari og farin að keppa við ódýrari gerðina af Fiat 500 e eða Smart Twofour.
Og síðan má ekki gleyma þeim möguleika að kaupa notaðan rafbíl og vanda valið.
Rafbílar sem beðið er með eftirvæntingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bifreið sem ekki hefur miðstöð er ekki valkostur á Íslandi.
Bjarni (IP-tala skráð) 9.8.2022 kl. 14:38
Þarf enga miðstöð, bara vettlinga og sköfu eins og maður notaði í gamla daga þegar maður var ungur og keyrði á Bjöllunni góðu sem var með engri miðstöð bara hita frá vélinni sem virkaði reyndar ekki vegna ryðs í loftstokkunum og svo var rúðupissið tengt við loftþrýstin frá varadekkinu. Það var ekkert verið að flækja hlutina í gamla daga.
Rafn Haraldur Sigurðsson, 9.8.2022 kl. 19:08
Enginn þeirra bíla, sem nefndir eru hér að ofan, er "miðstöðvarlaus." Sá ódýrasti, Tazzari, á að baki næstum fimm ára akstur, þar sem miðstöðin hefur ævinlega dugað til að framleiða nægan hita inni í bílnum.
á hinn bóginn er það galli við rafbíla, að vegna þess að þeir eru ekki "elds"neytisknúnir og þar með með beinan aðgang að hita, sem við eldsneytisbrunann verður afgangs, þarf að láta rafhreyfilinn búa til htialoft aukalega, og það minnkar þá orku, sem er til reiðu í rafhlöðunum til að knýja bílinn áfram.
Hægt er að auka nýtnina með því að setja sérstakan varmadælubúnað í rafbíla og auk þess viðbótar einangrun. Þetta mun vera á teikniborðinu hjá framleiðendum Dacia Spring eftir því sem næst verður komist.
Rafbílar með tvöfalt stærri rafhlöður en Spring búa yfir meira svigrúmi til að eyða orkunni í upphitun en ódýrari bílar með minni orkugeymi.
Ómar Ragnarsson, 9.8.2022 kl. 19:24
Aha... nei.
Rafbílar verða ekki fyrir neðri lög samfélagsins, ekki núna, ekki í framtíðinni. Ekki frekar en Rolex eða gullbryddaður klósettpappír.
Ekki svosem það standi neitt til að hleypa plebbunum í þetta, eða bíla almennt.
Svo er mjög lítill markaður fyrir svona micr bíla á Íslandi, vegna þess að fólk virðist mikið þurfa að flytja krakka, húsgögn og ég veit ekki hvað og hvað fólki dettur í hug að reyna að troða í bíla.
Þeir fáu sem eru ekki í svoleiðis pælingum, þetta er kannski fyrir þá.
Ásgrímur Hartmannsson, 9.8.2022 kl. 23:58
Dacian Spring er með drægni í blönduðum akstri 130 í köldu veðri upp í 180 km í hlirri veðráttu og kostar 2,6 milljón í Hollandi en tæpar 3 miljónir í Þýskalandi
Minsta drægni er 105 km í köldum þjóðvegarakstri upp í 245 km í hlýjum innanbæjarakstri.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 10.8.2022 kl. 10:14
Kannski er núverandi staða rafmagnsbílsins svipuð og staða bensínbílsins var um 1930. Enginn veit hvers konar rafhlöður verða í bílum eftir 20 til 30 ár. Svipað má reyndar segja um vetnisbíla. Það er þróunin og markaðurinn sem ráða ferðinni.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 10.8.2022 kl. 11:35
Sæll Ómar.
Hver er skoðun þín á áhrifum þess að raf- og segulbylgjur
leiki um bílstjóra og/eða farþega í "rafbíl litla mannsins" og
rafbíum yfirleitt og þá sérstaklega með tilliti til krabbameins?
Húsari. (IP-tala skráð) 12.8.2022 kl. 18:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.