Tryllingslegar tölur, svo menn grípa andann á lofti.

Ef hægt er að tala um hugtakið veldisvöxt eru tölurnar, sem nefndar eru hér á landi varðandi raforkuframleiðslu og stóriðju gott dæmi um það hvert virðist stefna gott dæmi og koma vel fram í þessum tölum, en nýjustu tölurnar fela í sér allt að 500 sinnum meiri framleiðslu sem keppikefli næstu áratugi en var í upphafi stóriðjunnar um 1970.  

33 þúsund tonna álframleiðala á ári þótti svo gríðarlega mikil aukning 1970, að ekkert minna en orðið stóriðja varð að nefna það, sem var að bresta á með veldisvaxtarhraða, sem engan óraði fyrir. 

Fyrsta stórvirkjunin við Búrfell var 200 megavött, en nú hefur sú tala fimmtánfaldast, því að nú eru 340 þúsund tonn lágmark til að álver borgi sig. 

En það er samt bara byrjunin, ef marka má það sem nú er í undirbúningi varðandi það að drífa strax í því að meira en tvöfalda núverandi orkuframleiðslu á næstu árum, svo að í stað þess að framleiða fyrir erlend fyrirtæki fimm sinnum meiri orku en þarf fyrir íslenska fyrirtæki og heimili, verði framleitt tólf sinnum meiri orku fyrir útlend fyrirtæki heldur en íslensk.

Og í ofanálag er talað um að þrefalda þessi ósköp með því að reisa 15 þúsund megavatta vindorkugarð við suðausturland, sem heilsi þeim sem koma þar til landsins áður en jöklarnir fái að taka við því hlutverki.

Og nærri má geta að aðrir landshlutar muni telja sig þurfa sín risavindörkuver. 

 


mbl.is Starfshópur kannar möguleika vindorkuvera á hafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og hvað? Við veiðum mörg hundruðfalt meiri fisk en við borðum og bjóðum upp á fleiri hótelnætur á ári en Íslendingar notuðu alla síðustu öld. Hvað ætti þá að vera rangt við það að framleiða meiri raforku en við notum? Það sem er umfram fer þá bara í að borga ellilífeyririnn þinn, laun lækna og menntun barna.

Vagn (IP-tala skráð) 4.9.2022 kl. 02:09

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Við erum í EES og í gegnum þann samning er reynt að fá íslenzk stjórnvöld til að þjóna stórþjóðunum. Hvað ef þjóðin færi í ESB? Þá yrði nú næstum ekkert sjálfstæði eftir. 

Evrópa er í orkukreppu, þrýst á svona þjóðir einsog okkar. Þegar betur er að gáð fylgja virkjunum alltaf umhverfisspjöll og skemmdir á landslagi. 

Um leið og við Íslendingar færum að tóna niður orkuþörf okkar værum við að senda slík skilaboð til umheimsins, sem þarf að gera, búa til fordæmi um minnkandi en ekki vaxandi orkuþörf. 

Við erum hluti af alþjóðlegri þróun sem tekur á sig ljótari mynd hjá þjóðum sem þurfa kjarnorkuver, olíubrennslu eða slíkt. 

Á tímum hækkandi hitastigs á jörðinni er undarlegt að alla þessa húskyndingu þurfi. Sú var venjan hjá okkur á heimili afa og ömmu að slökkva á ofnakerfinu í kjallaranum á sumrin til að spara orku oft, og undum við vel við það. Sumrin voru nógu heit.

Kárahnjúkavirkjunin var skelfileg, óafturkræf virkjun með miklum umhverfisspjöllum. Sú orka verður bara einusinni nýtt.

Þegar vitað er um að Ísland á orku er hér komið með orkufrekan iðnað, t.d. gagnaver, eða reynt að leggja sæstreng. Þar er líka mikil sóun á leiðinni.

Þetta hefur á sér einkenni einnota hugsunarháttar. Að spenna tæknina í botn og virkja í botn eins og enginn sé morgundagurinn.

Allar þjóðir þurfa að setja sér markmið um að minnka orkuþörfina og kjósa þá frekar einfaldari lifnaðarhætti. Vinstri grænir skilja þetta betur en frjálshyggjufólk eins og kapítalistar í Sjálfstæðisflokknum eða Framsókn.

Það sem kemur vel í ljós í þessum pistli er að mikil andstaða var við virkjun áður. Rifjum upp hið frábæra lag sem Mannakorn fluttu 1977, "Göngum yfir brúna milli lífs og dsuða, landið okkar sem var laust við skít verður leigt gegn gulli í hönd". (Eftir Magnús Eiríksson). (Um virkjanir og stóriðjustefnu). Nú er eins og jafnvel Vinstri grænir séu orðnir nokkuð samdauna virkjunarstefnunni.

Ingólfur Sigurðsson, 4.9.2022 kl. 05:26

3 identicon

Þetta verður allt í lagi ,Ómar. Náttúruverndaröfgasinnanir sjá til þess. Og við verðum áfram með bensínið og olíuna á bílana. Rafbílavæðingin mun hætta þegar ekki verður til meira rafmagn. Eigum við ekki bara að gleyma þessum draumi um innlenda orkugjafa? 

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 4.9.2022 kl. 11:04

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þarna snýrð þú hlutunum heldur betur á haus, Jósef Smári. Nú þegar er stóriðjan höfð i þeim algera forgangi, sem tölurnar sýna, og íslensk fyrirtæki og heimili svelt að óþörfu í stað þess að fá að njóta þess að það er margfalt meiri raforka til en þau þurfa.  

Ómar Ragnarsson, 4.9.2022 kl. 18:45

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Mannkynið þarf orku og hvar sem hún fæst á hagkvæman hátt eru mættir aðilar sem vilja kaupa. Gagnaver stara til dæmis á Norður-Noreg og Norður-Svíþjóð, þar sem orkuframleiðslan er mikil en geta dreifikerfisins til að koma henni suður lítil. Kínverjar eru að opna eins mikið af kolanámum og þeir geta, jafnvel að enduropna gamlar sem var búið að loka. Indverjar hringja í alla og biðja um orku. Afríka hefur alla tíð verið svelt um orku en spyrnir núna við að fá ekki lánsfé til að sækja olíu og gas. 

Þetta er vandamál sem hefur alltaf verið til staðar, og jafnvel verið sópað undir teppi með fjarstæðukenndu tali um að loka kjarnorkuverum og bremsa olíu- og gasvinnslu, en mögulega fleiri að gera sér grein fyrir núna.

Geir Ágústsson, 4.9.2022 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband