Loftbelgsflug er vandasamt en óviðjafnanlegt ef vel gengur.

Hokinn af reynslu af flugi í loftbelg sendir Íslendingunum sem brotlentu í slíku loftfari í Frakklandi samúðarkveðjur. Sjálfur á hinn hokni að baki tvö loftbelgsflug, annað 1976 og hið síðara 1986, og voru þau eins gerólík og hugsast gat. 

Loftbelgurinn í fyrra fluginu tók flugstjórann og farþega, og tók karfan einn farþega.

Átti sá að verða fyrsti Íslendingurinn í loftbelgsflugi á Íslandi en í flugtakinu var vindurinn svo mikill að karfan skoppaði fyrst á öskrandi ferð eftir túninu, sem notað var til flugtaksins á Álftanesi með farþegann hangandi utan á körfunni. 

Hún lenti í girðingu, sleit sig af henni, fór yfir Álftanesveginn og gegnum aðra girðingu en sleit sig lausa, og með því að kynda gasblásarann sem óður væri, tókst belgstjóranum að rífa belginn á flug, en heyrði ekkert neyðarköll mannsins, sem enn hékk á körfunni og upplifði mesta skelfingaraugnablik ævinnar, horfandi á jörðina fjarlægjast og vissi að aðeins sekúndur yrðu þar til handtakið myndi losna. 

En þá lenti belgurinn í niðustreymi, skall á jörðinni og "farþeginn" kútveltist í móanum. 

Belgurinn fór áfram og lenti að hluta til á kafi í Lambhúsatjörn, reif sig upp og stefndi á tímabili inn um gluggann hjá forsetanum en slapp þó naumlega yfir. 

Áfram hélt belgurinn og stefndi næst á Akrafjall, en slapp enn á ný naumlega við brotlendingu, en í framundan blasti við miklu hærra fjall, Skarðsheiðin og ákvað að lenta í Leirársveitinn. 

Þar tókst ekki betur til en svo, að belgurinn lenti í háspennulínu og kortslúttaði allri sveitinni með miklu eldblossa. 

Belgstjórinn marðist illa og neðsti hluti belgsins brann. en þarna lauk þessu dæmalausa flugi.

Tíu árum síðar var þegið boð um flug frá Reykjavíkurflugvelli í erlendum loftbelg, og var það slíkur draumur að erfitt er að lýsa því. 

Belgstjórinn komst inn í hitauppstreymi eftir flugtak á norðausturhluta vallarins og þegar belgurinn var kominn yfir austasta hluta Fossvogshverfisins, var hægt að slökkva á gasinu og líða hljóðlaust með heitri golunni eftir byggðinni, svo að sums staðar var hægt að heilsa fólkinu og skiptast á kveðjum við það, þar sem það var sólbaði á svölunum! 

Þessar tvær gerólíku flugferðir á sams konar loftbelgjum sýna, hve skammt getur verið á milli mikilla hrakfara og einstaklega vel heppnaðra draumaferða á þessum loftförum. 

 


mbl.is Ellefu Íslendingar í loftbelg sem brotlenti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér hefur þótt einkennilegt að margt af því sem er í öðrum löndum Evrópu sé ekki hér. Til dæmis sporvagnar og loftbelgir og svo kláfar milli fjalla. En hvers vegna ætli loftbelgis séu ekki notaðir hér á Íslandi svo neinu nemi , Hugsið ykkur hversu stórkostlegt væri að svífa yfir jökulsárlón í lágflugi .

Helgi Bjarnason (IP-tala skráð) 18.9.2022 kl. 11:53

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Loftbeljaflug er háð því að vindur sé hægur, helst aðeins örfáir metrar á sekúndu, því að um leið og belgurinn sleppir jörðu, ber vindurinn hann jafnhratt yfir jörðu og vindstyrknum nemur. 

Í lendingunni snertir karfan jörðina á sama hraða og vindurinn ber hann og það getur því orðið býsna hörð lending þar sem vindurinn veldur því að karfan veltur. 

Ísland er eitt af vindasömustu stöðum heims og þess vegna er loftbelgsflug takmarkað hér. 

Ómar Ragnarsson, 18.9.2022 kl. 12:46

3 identicon

Það útskýrir hvers vegna þeir eru sjaldséðir hér. En veistu til þess hvort einhver hér á landi eigi loftbelg ?

Helgi Bjarnason (IP-tala skráð) 18.9.2022 kl. 22:40

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekki kynnst neinum hér á landi, sem hefur átt loftbelg, nema þann sem ég flaug með 1976, og það var um skamman tíma. 

Ómar Ragnarsson, 19.9.2022 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband