24.11.2022 | 23:13
Hvað með pedalana í sumum rafbílum? "Botngjafargildra"?
Við það að frétta af innköllunum á 321 þúsund Tesla bílum í Bandaríkjunum komu pedalarnir á þeim bílum og fleiri rafbílum upp í hugann, og einnig fyrri fréttir af rafbílum, sem hefðu rykkt sjálfum sér á fulla inngjöf og ætt með því í harða árekstra.
En samkvæmt fréttinni núna er innköllunin vegna vandamála með afturljós.
Eftir stendur vandamál, sem verður til við það að of lítið bil er á milli aflgjafar og hemilspedala.
Þetta er lúmskt fyrirbrigði á þeim tveimur örbílum af gerðinni Tazzari Zero, sem hafa verið fluttir hingað til lands.
Bilið á milli pedalanna er aðeins 4 sentimetrar, en það skapar hættu á því að þegar færa þarf fótinn snöggt af aflgjöf yfir á hemilinn er hætta á að fóturinn þrýsti á báða pedalana í einu.
Við það rykkir bíllinn sér áfram, og ósjálfrátt viðbragð við því er að stiga fastar á hemilinn, en við það er einnig stigið fastar á aflgjöfina, svo að bíll æðir enn ákveðnara áfram!
Þetta fyrirbrigði er miklu hættulegra á rafbíl en eldsneytisbíl, því að rafhreyfillinn skilar fullu átaki strax á lægsta snúningi, en eldsneytishreyfill ekki fyrr en komið er yfir þúsund snúninga og upp í sex þúsund snúninga.
Á efri myndinni innan úr Tazzari rafbílnum sést afstöðumynd af hægri fæti, hemlapedala og aflgjög.
Á myndinni neðan við hana sést hve naumt þetta stendur ef stigið er á hemlapedalann.
Aðeins þrír menn utan eiganda Tazzari Zero bílsins hafa ekið honum, og þrátt fyrir fyrirfram aðvaranir féllu þeir allir í þá gryfju að stíga óvart á báða pedalana í einu.
Þegar eigandi bílsins ók honum í gær eftir nokkurra vikna hlé, datt hann sjálfur í þessa gryfju, og hafði getað farið illa ef bíllinn hefði verið stilltur á aflmesta stigið af fjórum, sem er merkt með rauðum lit í mælaborðinu og stöfunum "racing".
Sem sagt: það má aldrei slaka á klónni við að forðast þessa gildru.
Sami maður hefur ekið nokkrum rafbílum af öðrum gerðum þar sem lengra er á milli pedalanna og þessi hætta ekki fyrir hendi.
Meðal þeirra er örbíllinn Invict, en í þeim bíl er vandinn með rými fyrir báða pedalana leyst með því að láta gólfið liggja það hátt, að aflgjöfin getur verið nær miðju bílsins og fjær hemilspedalanum.
Þessi lausn er óhugsandi á Tazzari bílnum, því að þar tekur miðjustokkur rými, sem ekki er hægt að nýta til að auka pedalarýmið, eins og neðri myndin sýnir vel.
Hins vegar vakti það athygli varðandi skoðun á Tesla 3, hve stutt er þar á milli pedalanna.
Bæði þeir bílar og Tesla S hafa verið orðaðir við "botngjafargildruna" sem kalla mætti ofangreint fyrirbrigði því nafni; illskiljanleg atvik.
Útskýringin varðandi pedalana er einföld og skiljanleg, en að sama skapi skiljanlegt ef tregða er varðandi það að viðurkenna það, því að það gæti verið erfitt fyrir framleiðandanna að færa pedalana.
Tesla innkallar 321 þúsund bíla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.