16.1.2023 | 13:37
"Tæknifeilar" sem eru ekki orsök heldur afleiðingar þreytu?
Bæði landsliðsþjálfarinn, einstakir leikmenn og íþróttafréttamenn litu á lista yfir svonefnda "tæknifeila" íslenska liðsins í tapleiknum við Ungverja og komust í furðulega háa tölu þegar þeir lögðu þá saman.
Hin undraháa tala í síðari hálfleik skar í eyrun og sumir tæknfeilarnir voru ótrúlegir eins og til dæmis hjá "manni leiksins" undir leikslok og mistök "besta leikmanns Bundesligunnar" á ögurstundu á lokamínútu.
En það hefði þurft að kafa dýpra niður í hugsanlegar orsakir þessa.
Af hverju á lokakafla leiksins?
Liðið hafði spilað á ofurhraða í leiknum, en réði allt í einu ekki við hann.
Af hverju á lokakafla leiksins?
Ofangreint hefur sést áður á stórmótum liðsins þar sem einstakir leikmenn hafa jafnvel lent í því að spila í 60 mínútur leik eftir leik.
Þá var útskýringin sú að okkur skorti sömu breiddina og stórveldin hefðu.
Núna var sagt fyrirfram að lið okkar væri með alveg nýtt fyrirbæri sem helsta vopn: Breidd í leikmannahópnum.
Svar við spurningunni "af hverju á lokakafla leiksins?" gæti verið einfaldasta atriðið í getu íþróttafólks, minni orkugeta vegna þreytu.
Jafnvel besta íþróttafólk heims getur lent í því að vera stillt upp frammi fyrir verkefni, sem verður óframkvæmanlegt, af því að það liggur ofan mannlegri getu hvað snertir stanslausa orkunotkun í of langan tíma.
Ólafía Hrönn var íþróttamaður ársins á Íslandi hér um árið, en fór hallöka á seinni parti eins golfmótsins af því að hún gleymdi því að nærast nóg.
Vannæring eða uppþurrkun hefur svipaðar afleiðingar og of mikið stanslaust álag, sem fer fram úr mannlegri getu.
Muhammad Ali nýtti sér stundum fyrirbæri sem kallast "second wind" í hnefaleikum og felst í því að viðkomandi afreksmaður seilist djúpt í viljaþrek sitt og braggast við það.
Síðuhafi horfði eitt sinn á Þórarinn Ragnarsson í landskeppni þar sem hann var svo að þrofum kominn í síðustu beygjunni í millivegalengdarhlaupi, að menn hlupu í átt til hans til að grípa hann í fallinu þegar hann félli alveg til jarðar.
Þá gerðist það alveg óvænt að það var engu líkara en hann hefði fengið adrealinsprautu og náði að hressast svo mjög, að hann hljóp til sigurs.
En svona lagað getur verið undantekning hjá einstökum mönnum, en ekki samtímis hjá heilu liði.
Eftir á að hyggja hefði verið ráðlegt að taka leikhlé í Ungverjaleiknum áður en Ungverjarnir fóru að saxa á forskot Íslendinga og endurnýja mannskapinn inni á með því að nýta breiddina, sem beið á bekknum.
Í framhaldinu hefðu hinir þreyttu endurnærst og verið mun betur á sig komnir til að taka við í lokakaflanum.
Af hverju gerðum við ekki þetta þegar við vorum sex mörkum yfir? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.