28.1.2023 | 15:09
Koma þarf böndum á ökugleðina, sem ýtir undir kappakstur í umferðinni.
Helstu átrúnaðargoð rokkkynslóðarinnar upp úr 1955 voru James Dean, Elvis Presley og Marilyn Monroe. Öll urðu þau skammlíf og lutu í lægra haldi fyrir fíknum þessa tíma.
James Dean heillaðist af kappakstri og keppti í honum, en fórst síðan í hörmulegu bílslysi á Porsche sportbíl sínum.
Þessi upphafsár rokksins voru þau fyrstu, þar sem unglingar gátu eignast bíla í stórum stíl, og um þessa bíla gilti, að ef gæðingar koma til sögunnar, verður þeim hleypt.
Þetta var eitt af þeim atriðum sem lýst var í kvikmyndinni American Graffiti þar sem götukappakstur í umferðarumhverfi kom við sögu.
Hér á landi þekktist kappakstur á umferðargötum líka, en við blasti, að þörf var á viðbrögðum við þessu hættulega fyrirbrigði.
Það ðrlaði á viðbrögðum með tilkomu svonefnds góðaksturs á vegum Bindindisfélags ökumanna á sjöunda áratugnum, en keppni í ralli og rallýkross og kvartmílu ruddi sér ekki til rúms fyrr en um 1975.
Í gegnum árin hefur myndast hér aðstaða, sem þarf að bæta til þess að koma betri böndum á ökugleðina, sem ýtir undir kappakstur í umferðinni.
Þetta er í raun öryggismál, því að meðan gæðingar eru til, verður þeim hleypt.
Þetta skildi hinn þekkti lögreglumaður Siggi Palestína, sem stofnaði ásamt ungum eigendum skellinaðra vélhjólaklúbbinn Eldingu í kringum 1960 og var langt á undan sinni samtíð í þessu nytsama framtaki sínu.
Annar ökumaðurinn ekki allsgáður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afi minn var kallaður "Jón í brekkunni" í Kópavogi og var eins klár og Stjáni meik að mixa bíla og annað. Það verkstæði hóf rekstur 1950 og þar var gert við marga bíla fyrir svona töffara.
Það er gaman að þessum minningum. Eitt sinn söngstu lag inná plötu sem heitir "Kappakstur", og ég hlustaði mikið á þetta um tíma, fyrir 10 ára aldurinn. Á sama tíma vildi svo til að stjúppabbi minn átti Fiat bíla og hélt mikið uppá þá, og voru tveir Fiat 132 á heimilinu frá 1975 til 1981. Í laginu eftir þig er fjallað um kappakstur Fiat bíls og Cadilakks. Þegar ég var 14 ára (1984) samdi ég lag sem ég kallaði "Kappaxtur", (vildi endilega stafsetja það rangt), en í því lýsti ég atviki sem við lentum í þegar stjúppabbi fór í kappakstur upp kambana á fiatinum og við bíl sem ég held að hafi verið amerískur, þannig að þetta var eftirminnilegt. Fiat 132 voru kraftmiklir bílar, en þeir gömlu voru litlir og kraftlitlir um 1960 oft.
Enn vil ég hvetja þig til að gefa út söngtextana á bók eftir þig, þú ert einn frægasti dægurlagahöfundur þjóðarinnar ásamt Þorsteini Eggertssyni á löngu tímabili. Erfitt er að heyra rétta söngtexta stundum, og þú hefur oft reynt að fara eftir bragreglum, sem mér finnst til bóta.
Ingólfur Sigurðsson, 28.1.2023 kl. 17:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.