Hinn dæmalausi veldisvöxtur græðginnar. Hundraðföldun á 20 árum!

Við Íslendingar upplifum nú þvílíka sprengingu í veldisvexti á flestum sviðum, að komið er út fyrir öll mörk. 

Fyrir um tiu árum var sett fram það takmark að tífalda framleiðslu í sjókvíaeldi næstu tíu ár, og viti menn, þetta gekk eftir, úr 4000 tonnum í 45 þúsund. 

Nú má sjá í nýrri "kolsvartri" skýrslu og með þvi að fletta til baka, hve harkalega hefur verið sprengt af stað með aldeilis dæmalausu offorsi, og skal engan undra, sem man eftir því þegar ráðherra kastaði sprengju inn í málið á upphafsstigi þess og leysti eftir ítrasta mætti úr öllum hömlum, sem gátu tafið fyrir græðgisvæðingu sjókvíaeldisins og innrás Norðmanna í þennan þátt sjávarútvegsins. 

Þetta leiðir hugann að næsta tíu ára kafla, sem nú hefur verið kynntur í fjölmiðlum og felur í sér að tífalda vaxtarhraðann, sem verið hefur, þ. e. að næstu ár verði vaxtarhraðinn hundraðfaldur miðað við byrjunina á þessum 20 ára sprengikafla! 

En svo deyfð er þjóðin fyrir þessu öllu, að hún kippir sér ekki upp við það hvernig gróðapungarnir eru að ganga af göflunum.  

Undanfarna daga hafa verið kynntar svipaðar sprengiáætlanir varðandi vindorkuver, og þegar það er talið saman, sem þegar er komið á blað um vindorkuver um allt land og á miðunum í kringum landið, eru menn að tala um alls meira en 30 þúsund megavött, eða tíföldun núverandi nýtingu stóriðjunýtingu á orkulindum landsins! 

Þegar þessi draumsýn hefur raungerst mun þjóðin framleiða innan við 5% af þeirri raforku, sem þarf fyrir íslensk fyrirtæki og heimili, en yfir 95 prósent fara til erlendra fyrirtækja.  

Þeir sem dirfast að andmæla þessu brjálæði, eru sakaðir um að vera á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilja fara aftur inn í torfkofana!


mbl.is Veikburða og brotakennt eftirlit með sjókvíaeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki gleyma, þó þú sért sáttur við og ánægður með, öllum hótelunum, sem flest eru í eigu útlendinga. Eða þeim rúmlega 20 erlendu flugfélögum sem hingað fljúga. Erlent vinnuafl sem sendir gjaldeyririnn okkar heim til sín. Og svo borðum við innan við 1% af þeim fiski sem við veiðum. 

Vagn (IP-tala skráð) 6.2.2023 kl. 23:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér á síðunni gagnrýndi ég þann græðgisfulla vöxt ferðaþjónustunnar, sem hér var síðustu árin fyrir COVID og hafði á sér yfirbragð gullæðis. En hagfræðilegar rannsóknir sýna að bæði hún og sjávarútvegurinn skila mun meiri virðisauka inn í efnahagslíf þjóðarinnar en stóriðjan, sem gengur svo langt, að með sérstökum bókhaldsbrellum, sem tilteknar eru í orkusölusamningnum við Alcoa, er tryggt að hið gjöfula álver á Reyðarfirði, sem vegna lágss orkuverðs skilar Alcoa miklum hagnaði, sé tryggt að félagið þurfi aldrei að borga neitt í tekjuskatt hér á landi. 

Ómar Ragnarsson, 7.2.2023 kl. 01:02

3 identicon

Það hefur lengi tíðkast að lönd eins og Ísland með veikt löggjafar-og

framkvæmdavald verða fórnarlömb innlendra og erlendra gróðaafla.

Hélt að að við værum komin lengra í átt að vel virkandi stjórnkerfi sem

verndar land og þjóð gegn stórkarlalegum gróðaáformum.

magnús marísson (IP-tala skráð) 7.2.2023 kl. 07:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband