Nú hefur hitabylgja með tveggja stafa tölu staðið yfir á norðausturhálendinu í mánuð og stendur enn.
Eftir nítján ára samfellda reynslu af ástandi Sauðárflugvallar á Brúaröræfum, sem ber skrásetningar- og viðurkenningarstafina BISA, sýnir reynslan að við slíkar aðstæður bráðnar allur snjór af vellinum svo að hann verður skráþurr og harður 3-4 vikum á undan jeppaslóðunum, sem er þarna á hálendinu og eru oft ekki orðnar færar fyrr en í júlí.
Völlurinn stendur á fíngerðu aurseti sem er með nokkurs konar aftöppunarkerfi, sem líkist æðakerfi þegar horft er beint ofan á það, og flugvallarstæðið býður upp á fimm flugbrautir, alls 4,5 km langar og er sú lengsta 1300 metrar.
Aðeins þurfti lausar merkingar og uppsetningu vindpoka til þess að gera hann að náttúrugerðum öryggisflugvelli fyrir hálendið, sem varð notadrjúgur í Holuhraungosinu 2014-2015 og getur orðið það að nýju núna, þegar sett hefur verið á eins konar gult viðbúnaðarstig á vegna hraunkviku á aðeins 2ja km dýpi undir Öskjuvatni með tilheyrandi skjálftum.
Þangað er aðeins 30 km flug í loftlínu frá flugvellinum.
Í gær var Arngrímur Jóhannsson á flugi á þessum slóðum á flugvél sinni við annan mann, lenti á vellinum og var þá tekin meðfylgjandi mynd.
Athugun hans leiddi í ljós að brautirnar eru þurrar og svo harðar, að ekki liggur á að valta þær; völlurinn er þegar tilbúinn til fullrar notkunar.
Hitinn hefur komist í allt að 17 stig þarna iðulega í 660 metra hæð yfir sjó.
Allt að 18 stig fyrir austan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.