"Amerískur" bíll ársins í Evrópu; tímamót.

Jeep Avenger er ekki stór bíll, aðeins einum sentimetra lengri en upprunalega Bjallan var.  

Rýmið mætti vera ögn meira í aftursætinu, en þar með er næstum upp er talið, sem finna mætti að honum.  Það hefði líka verið skemmtilegt ef fjórhjóladrifið hefði verið með frá fyrstu byrjun. 

En án fjórhjóladrifsins eru nú reyndar flestir rafbílar af þessari stærð og bílnum er ætlað að höfða til breiðs markhóps.  

Og aldrei fyrr hefur bíll með þessum uppruna hampað hinum eftirsóttu verðlaunum "Bíll ársins í Evrópu." 

Avenger er hins vegar ekki alveg einn um það að ryðja braut fyrir ameríska bíla í Evrópu. Undanfararnir eru Tesla bílarnir sem raða sér þétt í efstu sætunum á sölulistunum.  

Hvern hefði órað fyrir þessu fyrir rúmum áratug?


mbl.is Jeep með neglu í fyrstu tilraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jeep Avenger er Ítölsk hönnun, smíðuð í Póllandi á Frönskum/Kínverskum undirvagni af fyrirtæki með höfuðstöðvar í Hollandi. Hvern hefði órað fyrir þessu fyrir hálfri öld?

Vagn (IP-tala skráð) 17.7.2023 kl. 14:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ítölsk hönnun á sér langa forsögu og hafa þeir ítölsku verið í því efni á svipuðum stalli og franskir tískuhönnuðir kvenfatnaðar.

Harley Earl, yfirmaður hönnunardeildar GM varð svo hrifinn af grillinu á sýningarbíl frá Ferrari, að hann líkti eftir henni á Chevrolet 1955.

Tilraunin með þetta einfalda og stílhreina grill mistókst; bandarískir kaupendur vildu frekar þunglamalegt og krómhlaðið grill sem náði þvert yfir framenda Chverrolet 1956. 

Í meira en áratug frá 1957 sá hinn ítalski Pinin Farina um útlit Austin og Morris bíla og franskra Peugeot bíla. 

Þegar sala Volkswagen hríðféll í byrjun áttunda áratugarins, var hinn ítalski Giogiaro fenginn til að bjarga málunum með hönnun Volkswagen Golf. 

Í öngum sínu leituðu Tékkar til hins ítalska Bertone þegar vörumerkið Skoda var orðið að "alþjóðlegu athlægi." Niðurstaðan var gerbreyttur bíll, Skoda Favorit, sem seinna var breytt í Skoda Felicia. 

Í eigu VW voru gerðar og auglýstar 538 breytingar á bílnum, en allt kom fyrir ekki.  

Þá var söðlað um og Skoda Octavia soðinn upp úr VW Passat og Skoda Fabia upp úr VW Polo. Á skömmum tíma urðu Skoda bílarnir með lægri bilanatíðni en Volkswagen og sá hló best sem síðast hló. 

Ómar Ragnarsson, 17.7.2023 kl. 19:28

3 identicon

Já, Ítalir eru góðir í hönnun en mættu leggja meiri metnað í smíði. Það eru oftast ekki margir kílómetrar eknir milli bilana í Ítölskum bíl.

Vagn (IP-tala skráð) 17.7.2023 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband