Upp úr 1950 fóru fyrstu stóru þoturnar að fljúga í áætlunarflugi og þessar þotur, af De Havilland Comet-gerð skópu Bretum nokkurra ára forskot í þotuflugi og þotusmíði.
En þegar Comet þotur fórust hver af annarri með því að tætast sundur þegar þær voru að komast í farflugshæ, var framleiðslu þeirra hætt, og í hönd fór tímamótarannsókn á leifum einnar þeirra, sem leysti gátuna: Gluggarnir voru ferkantaðir og nokkuð stórir.
Vegna þrýstingsbreytinga þegar vélarnar náðu farflughæð, komst svonefnd málmþreyta að í gluggarömmunum, sem að lokum gáfu sig og sprengdu skrokkinn út frá sér.
Lausnin fólst í að styrkja gluggana og gera þá minni og ávalari. En þessi slys urðu til þess að Bandaríkjamenn náðu forystunni í smíði farþegaþotna með fyrstu Boeingþotunni, sem enn í dag er með sama þversniði skrokksins og Boeing mjóþoturnar í dag.
Ef hið furðulega atvik á Boeing Max þotu núna hefur gerst í aðeiðns 16 þúsund feta hæð, má furðu gegna að þotunum sé ekki bannað að fljúga hærra meðan verið er að rannsaka þetta stórfurðulega mál.
Nauðlenti eftir að gat kom á farþegarými vélar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það kom ekkert gat á þotuna. Gatið var til staðar þegar hún kom út úr verksmiðjunni, en það gegnir hlutverki neyðarútgangs sem hafði verið lokað með þar til gerðri hurð. Það sem gerðist svo var að hurðin losnaði og datt af, þannig að gatið sem áður hafði verið lokað, opnaðist. Þetta bendir til þess að vandamálið tengist umbúnaði hurðarinnar, frekar en sjálfum skrokki þotunnar sem hélst í heilu lagi þrátt fyrir óhappið.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.1.2024 kl. 12:49
Vandamálið er samt óvenju alvarlegt. Það er lágmarkskrafa flugfarþega að hurðir detti ekki af þeim á flugi.
Ómar Ragnarsson, 7.1.2024 kl. 14:19
Þetta er svo sannarlega alvarlegt, en þó ekki eins alvarlegt og ef sjálfur skrokkur vélarinnar hefði gefið sig, sem hann gerði sem betur fer ekki. Fyrst að vandamálið tengist hurðinni er hægt að beina rannsókninni þangað og vonandi finna leið til að gera úrbætur á samskonar vélum svo að þetta gerist ekki aftur.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.1.2024 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.