"EF BÍLA SNÖGGA BER VIÐ LOFT..."

Í flugi er flughraðinn mikilvægasti öryggisþátturinn og þó einkum það að fljúga ekki of hægt. Ökurhraði bifreiða er um margt hliðstæður og Blönduóslöggann gerir það ekki endasleppt í þeim efnum hvað hraðakstur varðar. Fyrir mörgum árum fékk þessi fræga lögga þessa vísu frá mér og dugði auðvitað ekkert minna en hinghenda:  

Ef bíla snögga ber við loft

brátt má glögga sjá

því Blönduóslöggan æði oft

er að bögga þá.

Of mikill ökuhraði er mismunandi hættulegur og fer eftir aðstæðum. Bílstjóri sem ekur langt yfir leyfilegum ökuhraða á móti þéttri umferð skapar miklu meiri hættu en bílstjóri sem er t. d. einn á ferð á beinum vegi á sléttlendi þar sem er engin umferð, aðstæður hinar bestu og ekki von á neinum skepnum sem hlaupi inn á veginn.

Og ekki þarf að fjölyrða um þann fíflaskap að aka of hratt í Hvalfjarðargöngum, þennan stutta kafla þar sem ekki er hægt að græða meira en mínútu með því að aka of hratt.

Þar er tekið hart á hraðabrotum og svipað þarf að vera í gangi úti á vegunum að lögreglan haldi hraðanum niðri þar sem umferðin á móti er mikil og aðstæður erfiðar.

Eins og ég sagði í upphafi er hægt að skapa hættu í flug bæði með því að fara og hratt og of hægt og hið síðarnefnda jafnvel talið varasamara. 

Að mínum dómi mætti lögregla gera meira í því að stöðva og aðvara ökumenn sem aka svo hægt að það skapar hættu í umferðinni. 

Þá á ég ekki við ökumenn bifreiða sem sannanlega komast ekki hraðar, svo sem upp brekkur, heldur ökumenn sem með of hægum akstri sýna öðrum vegfarendum tillitsleysi og espa þá til framúraksturs.

Ég á sjálfur fornbíla sem ekki komast nógu hratt upp brekkur og reyni ávallt að fara eins vel út í kantinn eða á öxlina þar sem það er hægt til að aðrir ökumenn komist hættulaust fram úr.

Allt of oft sér maður hægfara ökumenn sem með smá hugsun gætu liðkað fyrir þeim sem á eftir koma með því að fylgjast vel með umferðinni á eftir þeim í baksýnisspeglinum og haga akstrinum eftir því.

Einstaka sinnum kemur það þó fyrir að ökumenn sýnast fá eitthvað mikið út úr því að taka sér alræðisvald á vegunum.

Gott dæmi um það var að eitt sinn þegar ég var á leiðinni frá Selfossi til Reykjavíkur og þurfti að halda 90 kilómetra hraða sem lengst til þess að ná á tilsettum tíma á áfangastað þar sem fólk beið eftir mér.

Þá lenti ég í bílalest á eftir ökumanni sem ók á 70 kílómetra hraða og virtist harðákveðinn í því að aðrir sem á eftir honum færu ækju ekki hraðar.

Þegar framundan kom kafli þar sem akreinarnar urðu tvær hugðist ökumaðurinn fyrir framan mig á milli mín og "lestarstjórans" aka fram úr honum.

Þá jók "lestarstjórinn" skyndilega hraðann, augsýnilega til að koma í veg fyrir að hægt væri að ljúka við  framúraksturinn áður en þessum tveggja samhliða akreina kafla lyki.

Þetta tókst honum og var þá greinilega kominn vel yfir 100 kílómetra hraða sjálfur.

Bílstjórinn fyrir framan mig gerði aðra atrennu þar sem mátti fara framúr með því að aka yfir punktalínu okkar megin þótt heil lína væri fyrir þá sem komu á móti.

Aftur jók "lestarstjórinn"  hraðann og kom í veg fyrir að nokkur kæmist framúr honum áður en við mættum næsta bíl.

Í þriðja skiptið virtist bílstjórinn fyrir framan mig orðinn forvitinn um það hve langt þessi "lestarstjóri" gæti hugsað sér að ganga í forsjárhyggju sinni.

Þá kom í ljós að hann virtist tilbúinn að fórna nánast hverju sem væri fyrir sinn málstað, - hann jók hraðann jafnt og þétt svo mjög að augljóst varð að hann og bíllinn sem reyndi að komast fram úr honum voru komnir vel yfir 120 kílómetra hraða og aftur hafði hann sitt fram og kom allri bílaröðinni á eftir sér niður á 70 kílómetra hraða.

Ég sætti mig við eins og aðrir sem á eftir okkur komu að hlíta forræði þessa 70 kílómetra hraða bílstjóra meðan hann kæmist upp með það, þótt það kostaði afsökunarbeiðni fyrir að koma of seint á staðinn þar sem mín var beðið.  

Allir hafa einhverjar sögur að segja um það vinsæla umræðuefni sem umferðin er og umferðin í Noregi hefur oft fengið mig til umhugsunar um hraðaákvæði umferðarlaganna.

Í fyrstu löngu ökuferðinni sem ég fór um Noreg þveran og endilangan gerði ég ráð fyrir að klára meira en 3000 kílómetra akstur á milli ótal tökustaða á 11 dögum og miðaði þá við samskonar vegalengd á Íslandi.

Niðurstaðan varð sú að þremur dögum skakkaði og þegar ég var kominn norður til Alta varð ég að breyta ferðaáætlunni og fljúga suður til Oslóar.

Í Alta sögðu þeir að það borgaði sig að fara þaðan krók austur til Svíþjóðar og aka suður þar í landi og fara síðan annan krók vestur til Oslóar, - það tæki samt styttri tíma en að halda sig í norska vegakerfinu og fara mun styttri leið í gegnum það.

Ég þekki Íslendinga sem fékk tíu hraðasektir á leiðinni frá Osló til Þrándheims, allt vegna hraðamyndavéla við þjóðveginn.

Noregur er dásamlegt ferðamannaland. Og eitt af því sem situr eftir er þetta: Þegar þú ekur um þetta undraland lærirðu eitt strax: Slappaðu af, - vertu ekki svona stressaður, - þú kemst þetta samt ef þú bætir bara nokkrum dögum við ferðalagið.

Manni er algerlega náð niður á bugðóttum og mjóum vegum Noregs og nýtur ferðarinnar mun betur fyrir bragðið.

Raunar eru hraðatakmörkin í nágrannalöndunum Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sígilt umræðuefni í þessum löndum.

Leyfilegur hraði á góðum vegum er hærri í Svíþjóð og Finnlandi en í Noregi en samt er slysatíðnin ekki hærri. Norðmennirnir eru of einstrengingslegir fyrir minn smekk en maður hefur samt gott af því að láta ná sér niður og róast þegar maður er þar á ferð.

 

 

   


mbl.is Vildi gefa lögreglunni radarvarann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Það er eitthvað undarlegt í íslensku þjóðarsálinni sem endurspeglast í því að eigna sér akreinina/veginn eins og þeir hafi einkarétt. Þetta kemur oft fram maður ætlar að skipta um akrein eða þegar tvær akreinar verða að einni. Þá er eins og sumir gefi hreinlega í til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að skipta um akrein. Þetta er e.k. stjórnsemi sem fer óskaplega í taugarnar á mér. Líklega hefur þessi undarlegi einstaklingur sem þú segir frá, verið haldinn þeirri firru að hann ætti veginn og stjórnaði því hverjir færu framúr og hverjir ekki. Svona menn á að tilkynna um og láta þá sæta ábyrgð.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 14.6.2007 kl. 21:52

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Ómar,

Það er eitt sem ekki gengur upp í þessu reiknisdæmi. En það er ef einhver ekur á undan þér á 120 í einhvern tíma þá hlýtur að draga í sundur með þér sem ekur á 70-90. mér segir svo hugur að þú hafir sem gamall rallíkappi orðið að taka þátt í leiknum :)

Það vill svo til að ég hef sjálfur lent í svipuðu atviki. En þegar ég loksins náði að aka fram úr, þá lendi ég í radargeisla lögreglunar og var að sjálfsögðu stoppaður fyrir of hraðan akstur.

Var því miður með hóp af krakkaormum í bílnum sem skemmtu sér konunglega þegar ég sat í lögreglubifreiðinni að reyna að útskýra mál mitt. En ég mátti horfa á andlitin á krakkaormunum í afturglugganum á bílnum mínum hlæjandi með tilheyrandi grettum.

Það var í raun meiri niðurlæging en allt hitt.

Kjartan :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 14.6.2007 kl. 23:11

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hraði yfir 120 er ágiskun hjá mér vegna þess að það dró heldur í sundur. "Lestarstjórinn" var á bíl sem hafði snarpara viðbragð en við sem vorum fyrir aftan hann. 

Hitt er rétt að viðurkenna að við sem vorum næst á eftir þeim sem reyndi að komast fram úr "lestarstjóranum" vorum komnir vel yfir hundraðíð og þar með orðnir lögbrjótar sjálfir.

Ómar Ragnarsson, 14.6.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband