15.6.2007 | 00:30
ÁFANGASIGUR Í FLÓANUM.
Hver hefði trúað því fyrir fimm mánuðum að hreppsnefnd eins hreppsins sem á land á virkjunarsvæði Neðri-Þjórsár myndi leggjast gegn stærstu virkjuninni?
Í janúar var ekki annað að heyra hjá Landsvirkjun en að allt væri að verða klappað og klárt fyrir virkjanirnar, og nánast formsatriði að ganga frá málum í framhaldi af tilraunaborunum og rannsóknum þar sem starfsmenn fóru um lönd manna að vild.
Landsvirkjun benti á að í mati rammanefndar um virkjun vatnsafls og jarðvarma hefðu þessar virkjanir fengið einkunnina a, sem þýddi að umhverfisáhrif voru talin með minnsta móti. Og í andófi gegn Norðlingaölduveitu neyddust umhverfisverndarsamtök til þess að forgangsraða og einbeita sér að efri hluta árinnar.
Það var síðan í kringum síðustu áramót að ég átti ég þess kost að vera í sambandi við andófsfólk eystra og sitja undirbúnigsfund fámenns hóps sem vildi ekki láta hugfallast þótt segja mætti um þá, sem sýndist við ofurefli að etja, að orð skáldsins "hnípin þjóð í vanda", lýsti best ástandinu.
Skemmst er frá því að segja að upp úr þessu spratt hreyfing sem ekki blómstraði aðeins með eftirminnilegum hætti á fjölmennum fundi í Árnesi, heldur er það alveg víst, að bréf, sem bændur eystra sendu Hafnfirðingum rétt fyrir kosningarnar um álverið, reið baggamuninn um þann sigur sem þar vannst.
Ályktun hreppsnefnar Flóahrepps er gleðilegur vottur um vitundarvakningu sem kemur Landsvirkjunarmönnum sem betur fer óþægilega á óvart.
En munum að þetta er aðeins áfangasigur. Framundan er löng og ströng barátta því einskis verður svifist af hálfu þeirra sem sætta sig ekki við annað en allar þrjár virkjanirnar til þess að knýja þær fram með öllum tiltækum ráðum.
Í þeirri viðureign ríður á miklu á láta ekki gylliboð og loforð um peninga hafa sitt fram, heldur hafa í huga fordæmi Sigríðar í Brattholti sem aldrei sagðist selja vin sinn og frekar láta fallast í fossinn en horfa á þegar hann yrði þurrkaður upp og færður í fjötra í dimmu fangelsi fallganganna.
Ég sendi hreppsnefnd Flóahrepps árnaðaróskir og samfagna Ólafi Sigurjónssyni og fleiri vinum mínum í sveitinni.
Athugasemdir
Til hamingju Flóamenn - þið látið ekki beygja ykkur og takið ígrundaða ákvörðun! Mér finnst hinsvegar all sérkennileg tilvitnun sem er í Fréttablaðinu í morgun þar sem haft er eftir Þorsteini Hilmarssyni upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar. En þar segir "Auðvitað er þetta mjög óheppilegt og við vonumst til að menn nái samkomulagi um það að hafa þetta inn á skipulaginu"
Áttar maðurinn sig ekki á því að lýðræðislega kjörin hreppsnefnd - hefur vegði málið og metið. Niðurstaðan er sú að ávinningurinn er ekki nægjanlegur og það eigi eftir að leggja málið fyrir íbúa til umræðu og síðan fari málið sinn eðlilega farveg!
Ég vona bara að Flóamenn og aðrir losni við þær hallærislegu aðferðir sem Alcan reyndi að nota til að hafa áhrif á okkur Hafnfirðinga - geisladiskar - tónleikar - súkkulaðifondú og í lokin hótanir til að að hafa áhrif á afstöðu fólks. Bæjarstjórnin hér þagði reyndar þunnu hljóði og "tók ekki afstöðu" - annað með hreppsnefnd Flóamanna! Enn og aftur til hamningju!
Valgerður Halldórsdóttir, 15.6.2007 kl. 07:55
Þetta eru sannarlega ánægjuleg tíðindi. Ef ég ætti hatt tæki ég hann ofan fyrir hreppsnefnd Flóahrepps.
Sigurður Sveinsson, 15.6.2007 kl. 08:30
Vonandi tekur hreppsnefndin í SkeiðGnúp við sér í framhaldinu ...
Rúnarsdóttir, 15.6.2007 kl. 10:38
Til hamingju náttúra Íslands og þakkir hreppsnefnd Flóamanna. Þorsteinn Hilmarsson er talsmaður ríkisins í ríkinu og í raun eðlileg þessi viðbrögð hans. Ríkið í ríkinu hefur nefnilega fram til þessa komið sínum málum fram æði oft í trússi við allar almennar siðareglur og halda trúlega að þannig sé það einnig í þessu máli.
Pálmi Gunnarsson, 15.6.2007 kl. 10:43
Já Ómar.
Þó gangan mikla niður Laugarveginn þar sem 15.000 menn og konur lýstu skoðun sinni á virkjanafárinu og öllu því virðingarleysi sem orðið var á allri umgengni við landið okkar og náttúru, hafi ekki stöðvað framkvæmdir við Kárahnjúkana, þá er enginn vafi á að þarna á Laugarveginum og síðan á Austurvelli urðu kaflaskil.
Auðvitað verðum við að hagnýta okkur auðlindir okkar, en það verður að gera það að vandlega skoðuðu máli . Hver er þörfin á að virkja ? Hvernig verndum við umhverfi okkar og náttúru ? Hvar og hvernig völdum við minnstum skaða ? Hvernig hámörkum við arðinn af því sem við fórnum fyrir nauðsynlegar virkjanir ?
Niðurstaðan í Hafnarfirði og nú síðast skoðun heimafólks í Flóanum gagnvart Urriðafoss (virkjun) eru glögg dæmi um þann árangur sem þegar hefur náðst.
Fólkið í landinu er að skynja það að skoðun þess hefur áhrif sé henni komið á framfæri.
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 12:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.