STENST ÞETTA JAFNRÆÐISREGLUNA?

Á Selfossi er röggsamur sýslumaður sem ætlar að sjálfsögðu að beita tiltækum ráðum gegn þeirri atlögu gegn öryggi almennings sem gerð var með háskaakstri vélhjóla á dögunum og stofnaði lífi og limum fjölda fólks í hættu. Sniglarnir ætla líka að grípa  til harðra ráðstafana og ber brýna nauðsyn til svo að hægt sé að bæta ímynd bifhjólasamtakanna. Um þetta er ekkert nema gott að segja. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort upptaka ökutækja í svona tilfellum standist jafnræðisreglu stjórnarskárinnar.

Fyrirmynd upptöku tækjanna, sem notuð eru, má sjá í viðurlögum við landhelgisbrotum, - heimild til að gera afla og veiðarfæri upptæk.

En þetta er ekki alveg sambærilegt. Í landhelgisbrotunum er refsað með aflaupptöku af því að því meira sem hefur aflast, þeim mun meira hefði lögbrjóturinn grætt ef hann hefði komist upp með brotið.

Því stærri og dýrari veiðarfæri sem hann notaði, þeim mun meira hefði hann getað veitt sér til hagnaðar á ólöglegan hátt.

Niðurstaða: Eðli brotsins og ávinningur af því, ef ekki komst upp um það,  er því meiri sem aflinn er meiri og veiðarfærin afkastameiri.

Þessu er ekki alveg svona farið um ökutæki. Allir sem hafa kynnt sér vélhjól vita að það þarf ekki að eiga dýrt vélhjól til að skapa alveg ótrúlega mikla hættu. Vegna léttleika síns hafa vélhjól yfirburði yfir bíla í "spyrnu" miðað við verð, stærð og vélarafl.

Það er líka vitað að hægt er fyrir tiltölulega lítinn pening að kaupa sér mjög öflugan, snarpan og hraðskreiðan bíl, ef hann er kominn til ára sinna.

Það er hægt að kaupa sér nýjan lítinn GTI-bíl sem nær 200 kílómetra hraða fyrir brot af verði stærri bíls sem er hvorki hraðskreiðari né fljótari í spyrnu. 

Það er hægt að valda jafn mikilli hættu með háskaakstri á þröngri götu í Reykjavík og á auðum og beinum vegi úti á landsbyggðinni.

Setjum sem svo að maður valdi slysum og stórfelldri hættu inni í borginni á tiltölulega ódýru ökutæki og annar ökumaður samsvarandi hættu á rándýru ökutæki úti á þjóðvegi? Stenst það jafnræðisreglu að í báðum tilfellum skuli ökutækin vera gerð upptæk?

Tilbúið dæmi: Þrír menn fara í fáránlega hættulegan kappakstur á ólíkum bílum. 

Einn er á Suzuki Swift árgerð 1990 sem hann keypti á 200 þúsund krónur.

Annar er á Cadillac Eldorado fornbíl árgerð 1981,toppeintaki með öllum hugsanlegum þægindum, metinn á margar milljónir króna.

Hinn þriðji er á splunkunýjum Hummer H3 með öllum græjum sem meta má á annan tug milljóna króna.

Swift eigandinn á upptökin, kemur upp að hinum bílunum tveimur sem aka samhliða úr austurátt að Höfðabakkabrúnni á leið til borgarinnar, og egnir þá í spyrnu.

Swift eigandinn veit að ódýri litli bíllinn hans er bæði fljótari í spyrnunni og nær meiri hraða en hinir bílarnir og þegar honum gengur síðan best í spyrnunni, verður það til þess að þetta verður að einvígi hans við Cadillakkinn sem setur alla umferðina í uppnám þegar komið er niður Ártúnsbrekkuna.

Hummerinn dregst strax aðeins aftur, ökumaðurinn missir stjórn á bílnum við akreinaskipti í framúrakstri og klessukeyrir bílinn strax án þess að ná sama hraða og hinir.

Hinir tveir eru mældir á 180 kílómetra hraða fyrir neðan Ártúnsbrekkuna og hlekkist báðum á, en bílarnir eru þó báðir nær óskemmdir.

Ofsaksturinn olli hins vegar árekstri tveggja annarra bíla þar sem bílstjórarnir fipuðust og afleiðingarnar meiðsl á mönnum og skemmdir á ökutækjum.

 Dómsniðurstaða: Swiftinn og Cadillakkinn gerðir upptækir en Hummereigandinn tapar mestu því að hann gjöreyðilagði bíl sinn.

Sanngjörn niðurstaða sem stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?

Ég er ekki að mæla með vægari refsingum heldur hlýtur að vera hægt að þyngja refsingar fyrir slíka árás á almennt öryggi, sem um rætt, á réttlátari hátt þannig að alvarleiki brotsins ráði en ekki tilviljunarkennd eignarhald.

Menn segja kannski að þeir sem eigi dýrari ökutækin hafi augljóslega frekar efni á að láta þau af hendi en eigendur ódýrari ökutækja en það er ekki einhlítt.

Þannig er alveg til í dæminu að eigandi rándýrs fornbíls sé ekki ríkur af neinu öðru en þessu þurftarfreka áhugamáli sínu en eigandi léttari og ódýrari bíls sé vel stæður.

Gaman væri að heyra álit fólks á þessu.   

 

 


mbl.is Vill að mótorhjólin verði gerð upptæk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Síðan hegningarlögin voru sett 1940 hefur mikið vatn runnið til sjávar og hugmyndir um jafnræði skýrst og eflst bæði í lagasetningu og meðferð laga.

Það er ekki mikill verðmunur á tölvum og sjálfsagt heldur ekki á skotvopnum, -  í hvorugu geta falist mikil verðmæti og báðum tækjunum.  

Öðru máli gegnir um vélhjól og þó sérstaklega um bíla. Þar getur verið um að ræða verðmæti sem nemur allt að 20 milljónum króna eða jafnvel meira.

Almenn lög eins og hegningarlög hljóta auk þess að víkja fyrir stjórnarskránni.

Það vill svo skemmtilega til að fyrir hreina tilviljun barst þetta í tal núna rétt áðan hjá mér og manni sem hefur gegnt stöðu hæstaréttardómara og hann var mér sammála um það að þetta ákvæði hegningarlaga gæti brotið gegn jafnræðisreglunni.

Það segir svo sem ekkert um það hvað skuli dæmast rétt en gefur til kynna að full ástæða sé til að rökræða málið og líta á það hvort ákvæði hegningarlaganna sé algilt og fortakslaust.

Ómar Ragnarsson, 15.6.2007 kl. 16:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Smá leiðrétting: Í málsgrein númer tvö er orðunum "og báðum tækjunum" ofaukið.

Ómar Ragnarsson, 15.6.2007 kl. 16:47

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Góðir punktar í þessari grein hjá þér Ómar.

Ég held að það eigi áfram að beita sektum og sviptingu ökuleyfis í þessum málum, en það er í sjálfu sér sanngjarnt að refsingar þyngist svo við síendurtekin brot og geti þá jafnvel byrjað að varða fangelsisvist.

Eignaupptaka held ég að skili sér ekki og standist einmitt illa jafnræðishugtök.

Hins vegar er eitt enn sem hafa verður í huga líka. Eftir því sem refsingar þyngjast má reikna með að það verði meira freistandi fyrir þann sem brýtur af sér að reyna að komast undan laganna vörðum. Það er erfitt að finna meðalveginn sem gæti talist rétta lausnin þegar tillit er tekið til allra þátta, en einhvern veginn þarf að fá fólk til að staldra við og hugsa sitt mál varðandi ofsaakstur.

Ein lausn er sú að gera aðgengi að aðstöðu þar sem hægt er að spretta úr spori á eigin ábyrgð opnara. Ég ræði það mál lítilsháttar hér. Af hverju er ekki hægt að skjótast inn á Kvartmílubrautina?

Karl Ólafsson, 15.6.2007 kl. 16:49

4 identicon

Í þessum nýlegu umferðarlögum er einungis gert ráð fyrir því að taka farartæki sem að ökumaðurinn á.

Þ.e.a.s. ef að ökumaðurinn á ekki farartækið sem hann fremur brotið á, þá er hægt að taka annað farartæki í hans eigu.

Það eru strax tvö dæmi þess efnis að ökumaðurinn eigi ekki farartækið
1) Ef að ökumaðurinn hefur fengið farartækið lánað hjá vini eða kunningja
2) Ef að ökumaðurinn hefur fjármagnað kaupin t.d. hjá Lýsingu. (Þá er Lýsing eigandi farartækisins amk fyrst um sinn.)

Og þá má spyrja, ef að ökumaðurinn á tvo bíla, einn suzuki swift og einn bens, fer það þá eftir skapi Sýslumanns um hvort bíllinn er gerður upptækur? 

Jónatan (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 17:38

5 Smámynd: Ólafur Jóhannsson

Ef maður beitir skotvopni til að ógna öðrum er skotvopnið gert upptækt hvort sem það er rússnesk haglabyssa eða handsmíðuð Beretta, (sennilega 10 sinnum dýrari en rússneski hólkurinn). Það er ekkert verið að spá í verð eða efnahag þess sem ógnar með vopninu, það er einfaldlega gert upptækt.  Þegar ökumenn fara að nota bíla eða mótorhjól þannig að öðrum stafar stórhætta af, er ekki lengur hægt að líta á ökutækið sem samgöngutæki heldur er verið að ógna vegfarendum með lífshættulegu vopni. Það eiga allir ökumenn að vita og gera sér grein fyrir að það skiptir engu máli verðið á vopninu, fórnarlambið er jafn illa komið fyrir því. Eg er sjálfur mótorhjólamaður og ég get fullyrt það hér og nú, að stór hluti mótorhjólamanna þessa lands myndu ekki gráta það þó hjólin verði gerð upptæk hjá þeim sem eru að eyðileggja fyrir okkur hinum með vítaverðum ofsaakstri.  Því ef þessu linnir ekki þá er eins líklegt að löggjafinn láti setja hraðainnsigli í öll mótorhjól og þá er okkur öllum refsað fyrir heimsku fárra.

Kveðja, Ólafur Unnar Jóhannsson 

Ólafur Jóhannsson, 15.6.2007 kl. 17:44

6 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er ekki hægt annað en verða svolítið hugsi yfir þessu og mér finnst rökin hjá Jónatan vera góð viðbót við skoðanir Ómars. Það er erfitt að sjá hvernig sýslumaður getur gert upptækan bíl sem er eign Lýsingar....?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 15.6.2007 kl. 19:50

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Góð grein.  Að mínu mati er fráleitt að nota ákvæði eins og þetta að gera faratækin upptæk sem refsingu, en mætti hafa það inni sem loka úrræði til að stöðva menn þegar sýnt væri að þeir virtu ekki fyrri áminningar og viðurlög, og stofnuðu vegfarendum og sjálfum sér ítrekað í stórfellda hættu.

Almennt tel ég að menn verði að rifja upp að umferðalagabrot án tjóns eða fórnarlambs er "agabrot" en ekki "glæpur" í þeirri merkingu sem t.d. vísvitandi árás eða innbrot er glæpur.

Í annan stað ætti að fara fram eitthvert mat á því hvort og hve mikla hættu menn hafa skapað með broti sínu, því það er aðeins með því að menn hafi valdið raunverulegri stórfelldri hættu að réttlætanlegt er að grípa til alvarlegra og þungbærra refsiúrræða. Þess vegna væri nóg að flokka hættu í 3-5 flokka, litla sem enga hættu, nokkra, verulega, alvarlega og stórfellda hættu, sem myndi hjálpa mikið við að ákvað refsingu. Það er t.d. fráleitt að maður sem sest upp í bíl sinn til að halda á sér hita á meðan hann bíður leigubíls niðrí bæ og hreyfir ekki bílinn úr stað en er með einn bjór umfram mörk í blóði sínu fær a.m.k. tvöfalt lengri sviptingu réttinda en sá sem ók á mótorhjóli á 180 km hraða með barn aftaná og virti ekki stöðvunarmerki lögreglu heldur stakk hana af með barnið.

Agaviðurlög án fórnarlambs eða tjóns ættu í það minnsta að verulegu leiti að fara eftir hættunni sem menn valda með framferði sínu og mætti þá ná til fleiri þátt en aksturs. Þeir ósvífnu láta sig litlu varða hvort skírteinið þeirra er ofaná skúffu hjá lögreglunni eða í veskinu þeirra, þeir aka vhort sem er.

Hinn  heiðarlegi hversdagsmaður sem er engin tiltakleg ógn á götunum lætur hinsvegar sviptingu yfir sig ganga og sleppir því að aka á meðan hún varir en kemur svo óvanur akstri ári seinna aftur út í umferðina hættulegri en þegar hann ók á  hverjum degi.

Í hinu nýríka íslenska umhverfi hitta sektir fólk ótrúlega ójafnt og ættu að fara eftir fjárhag og eignum eins og á norðurlöndunum, eða bara að vera hæfilega lágar en að beitt sé fangelsi við alverlegri "ógnunarbrotum" í umferðinni.

Hvað sem er getur orðið að morðvopni ef menn velja að beita því  þannig. Þar með talinn trélurkur, skrúflykill, nælonsnúra, lampi, árabátur og vatn. Afar sjaldan hafa menn ákveðið að beita bíl viljandi til að drepa þó svo þeir hafi ekið heimskulega óvarlega og rétt geti talist að beita þá agaviðurlögum. Byssa hinsvegar er ekki ætluð til neins annars en að skaðað aðrar lifandi verur og er því aldrei sambærileg við aðra nytjahluti sem hægt er að glannast með en Ólafur Helgi sá mæti sýslumaður lagði bílinn og byssuna að jöfnu. Allt getur orðið að morvopni með óvarlegri meðhöndlun það ætti því að meta ógnina sem fólk veldur og beita viðurlögum til að temja fólki betri hegðun með það eitt að markmiði ef það ógnar líf og limum annarra með hegðun sinni en ekki alltaf að stórauka refsingar og sektir á alla línuna. Ef hættan er stórkostleg og menn láta ekki segjast á að beita fangelsi.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.6.2007 kl. 21:33

8 identicon

72. gr stjórnarskrár Íslands er svo hljóðandi...

[Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Magnus Geir Gudmundsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 05:27

9 identicon

Það er ekkert í stjórnarskránni sem gerir upp á milli sveitarfélags/sýslumanns né ríkis, eignarréttur manna á þeirra eigum fellur undir þetta og svo lengi sem eignin er lögleg þá má ekki svifta þá þeim rétti sem stjórnarskráin fellur í sér.

Upptaka og eignarnám eru samheiti yfir sama hlutinn þ.e.a.s svifting á eign og er þar af leiðandi bæði að hlýða sömu reglum. 

Magnús Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 12:38

10 identicon

Þín túlkun á þessu segir að ég hafi rangt fyrir mér, en samkvæmt stjórnarskránni er ekkert talað um hvernig þetta atvikast....henni er alveg sama hvernig þú tekur eignina.  Ekkert í henni talar um að það sé í lagi að borga ekki ef það eru refsikennd viðurlög eða eignarnám.

 Ef þú vildir vera svo vænn að vísa í dóm hæstaréttar þar sem þessi réttur er afnuminn þá skal ég sannfærast.

Magnús Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 14:10

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Arngrímur, ég er ekkert að fara með lagalega skilgreiningar þegar ég segi að umferðalagabrot án fórnarlambs eða neins tjóns sé agbrot en ekki glæpur heldur er ég  að lýsa siðferðislegum, heimspeikilegum og félagslegum veruleikanum, sem þér að segja endurspeglast ekki allur í skilgreiningum íslenskra laga, en eins og þú bendir á kemur hann fram sumstaðar í lögum annarstaðar.  Dæmi um glæp eru fjárdráttur, rán, árás, mannrán, morð, nauðgun og mikið fleira en einnig allar tilraunir með ástening um að fremja slík brot. Glæpir hafa  ásetning, ávinning og fórnarlömb. Það er enginn "glæpur" að setjast inn í bíl sinn og setja hann í gang til að halda á sér hita meðan beðið er leigubíls niðrí bæ, en það er brot á reglum þ.e. "agabrot".

Hræsni íslenskra laga flokka viðurlög við umferðlagabroti í refsingu og önnur viðurlög eins og munur sé þar á. Þannig telst í lagamálinu aðeins sekt og fangelsi vera refsing en 12 mánaða svipting ökuréttinda er "ekki" refsing. Þó er flestu venjulegu löghlýðnu fólki einmitt löng svipting ökuleyfis þungbærust og hefur kostað fjölda fólks vinnu og lífsviðurværi sitt, hinir sem ekki eru eins löghlýðnir keyra bara áfram hvort sem er.

Helgi Jóhann Hauksson, 16.6.2007 kl. 14:57

12 identicon

Það er engin breyting þar sem er viðkomandi í þessu máli.

Eina viðbótin er "Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi."

Með hverju túlkar þú 72 gr. stjórnarskrárinnar þannig að það sé hægt að svifta mann eignarrétt ef hann brýtur lög með eigninni? 

Magnús Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 18:30

13 identicon

eftir að hafa lesið í gegnum allt þetta laga mombójonbó hjá ykkur háfleigu menn þá vill ég segja,  sama hvaða lög verða sett eða framfylgt verður  þá verður alltaf til staðar þessi hraðakstur, eina urræðið að rót vandans er að beina "vandamalinu" inn á lokaða braut, og já hei það er bara ekki til nein almennileg braut sem er opin nógu vel, (ættuð að kynna ykkur starfsemi kvartmilubrautarinar áður en einhver segir að það sé raunveruleg lausn einsog staðarn er i dag) þannig beinið kröftum ykkar að syslumönnum og þeim sem við á að setja það á fullt og svo snúa sér að raunverulegum vandamálum í þjóðfelaginu

Andri (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband