18.6.2007 | 23:22
ALÞINGISHÚS Á ÞINGVÖLLUM.
Sá kafli þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra sem fjallaði um Þingvelli féll nokkuð í skuggann af ummælum hans um fiskveiðistjórnunina. Ég hef í áratugi undrast að ekki skuli standa Alþingishús á Þingvöllum og að fleiri athafnir þings og stjórnvalda skuli ekki fara fram þar. Á tímum Fjölnismanna var að sjálfsögðu tómt mál að tala um slíkt en nú er samgöngutæknin önnur. Það ætti ekki að vera neitt vandamál að reisa snoturt, - ekki of stórt hús, sem gæti bæði hýst þingsetningu, þingslit og fleiri slíka viðburði í þinghaldinu.
Væri ekki hugsanlegt að húsið væri jafnframt vígt Guðshús þannig að þingsetningarguðsþjónustan færi þar líka fram og jafnvel setning forseta Íslands í embætti? Þingvellir eru helgasti staður landsins. Eftir þá athöfn gæti forseti ekið í skrúðakstri til Reykjavíkur og komið fram á svölum Alþingishússins eins og verið hefur.
Þótt Þingvellir séu frábær umgjörð um hátíðahöld utandyra er hægt að auka mjög á alhliða not staðarins með því að tryggja húsaskjól við athafnir þar sem ekki er mikill mannfjöldi samankominn.
Aðal rökin fyrir því að eiga í hús að venda eru veðurfarslegs eðlis: Það rignir að meðaltali 20 daga í hverjum mánuði á sunnanverðu landinu.
Athugasemdir
Mæli með þessu. Það er brýnt að koma einhverju af öllum þessum peningum í ríkiskassanum í lóg.
Svartinaggur, 19.6.2007 kl. 08:21
Það er greinilegt að þegar á að reisa snoturt lítið og huggulegt hús á vegum hins opinbera þá fer áætlun hömlulaust fram úr sér. Nei og aftur nei, setjum peningana í annað, þetta er bruðl Ómar.
365, 19.6.2007 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.