SÓMI AKUREYRAR OG SKÖMM REYKJAVÍKUR.

Fyrsta flug á Íslandi fór fram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Vagga flugsins varð þar aftur upp úr 1930 og síðan eftir stríð. En í Reykjavík er ekkert gert til að minna á þetta. Á flugvellinum stendur gamli flugturninn en úr honum var stjórnað stórum hluta orrustunnar um Atlantshafið, einnar mikilvægustu orrustu stríðsins. Það stefnir í að turninn verði rifinn og hann grotnar niður. Í hvaða nágrannalandi okkar sem væri hefði verið sett upp minjasafn í turninum þar sem hægt væri að sjá eftirlíkingu af starfseminni þar í stríðinu og þar væri krökkt af ferðamönnum á sumrin.

En hér er ekkert gert. Ekkert minnismerki er við nýju Hringbrautina þar sem stendur: "Hér fór fram fyrsta flug á Íslandi." Gamlir munir frá flugvellinum eru flestir týndir og tröllum gefnir.

Þó eru nokkrir þeirra varðveittir, en ekki í Reykjavík, - nei nánast eins langt úr alfararleið og hugsast getur, í minjasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!

Þar er líka varðveitt sjóskýlið úr Vatnagörðum, stórmerk bygging frá Reykjavík, full af flugsögu.

Flugminjasafn Íslands hefði átt að vera risið í Reykjavík fyrir langa löngu. En í staðinn er risið myndarlegt Flugsafn Íslands á Akureyri.

Sem bornum og barnfæddum höfuðborgarbúa rann mér til rifja hvernig hugsað er um flugsöguna í höfuðborginni þegar ég var fyrir norðan á flughelgi í dag, en fylltist jafnframt djúpri virðingu og þakklæti til byggðarlags, sem er tíu sinnum fámennara en höfuðborgarsvæðið og bjargar því sem bjargað verður á þessu sviði. 

Flugsafn Íslands á Akureyri er norðanmönnum til mikils sóma sem rétt er að halda á lofti. Og þeir sem standa að minjasafninu á Hnjóti geta líka verið stoltir af sínum hlut.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Alveg hárrétt Ómar, en auðvitað má margt gera betur hér norðan heiða í safnamálum. Mæli samt sem áður að þú skoðir iðnaðarsafnið á Akureyri, áður en þú leggur af stað suður, þ.e.a.s. sért þú enn á Akureyri. 

Sveinn Arnarsson, 23.6.2007 kl. 23:06

2 Smámynd: Geir Agnar Guðsteinsson

Flugfélag Íslands var stofnað á Akureyri. Þó ég sé líka fæddur og uppalinn í Reykjavík get ég unnt Akureyringum þess að hafa frumkvæði í þessum málum. Hermenn voru líka í Eyjafirði, og reyndar miklu víðar, en ekki bara á suðvesturhorni landsins. Ef verja á stríðsminjar í Reykjavík á auðvitað að verja flugvöllinn í Vatnsmýrinni!

Geir Agnar Guðsteinsson, 24.6.2007 kl. 01:45

3 identicon

Þakka hlý orð í garð norðanmanna, því þótt ég sé bara starfsmaður á Amtsbókasafninu á Akureyri, þá finnst mér alltaf gaman og gott að sjá söfnin í Eyjafirði gera góða hluti og Flugminjasafnið er svo sannarlega eitt þeirra.

Bestu kveðjur að norðan,
                          Doddi

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 11:48

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Ómar,

ég er sammála þér um skömm okkar sunnanmanna. Ég ólst upp í gamla flugturninum í æsku og get enn séð fyrir mér slitnar tröppurnar. Pabbi rak Flugstöðina þar. Það væri mikil mistök að láta hann hverfa. Þar að auki ert þú eina stórstjarnan sem sungið hefur fyrir mig einsöng. Sem smápolli bað ég þig einu sinni að syngja fyrir mig eitt lag, og þú gerðir það og í GAMLA FLUGTURNINUM. Þannig að miklar minningar eru bundnar við hann svona persónulega. Einnig hefur hann mikið sögulegt gildi í tengslum við hernámið, byggingalist og flugsögu vora. Ég styð þig því heilshugar Ómar í verndun á gamla einsöngvarastúdíóinu okkar.

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.6.2007 kl. 20:24

5 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Ómar.

Ég get tekið undir með þér. Flugturninn á að vera á sínum stað undir það tek ég. Geir Agnar Guðsteinsson segir að við eigum að verja Vatnsmýrina það er rétt hjá honum flugvöllurinn í Vatnsmýrinni á að vera á sínum stað undir þau orð er ég honum hjartanlega sammála.

Enda barðist ég fyrir því í samgöngunefnd Sjálfstæðismanna á  landfundi flokksins fyrir kosningar. Enn það eru frjálshyggju öfl og gróðrarpungar eins og arkitektar sem vilja þennan flugvöll burtu sem lengst það er málið.

Þess vegna er ekkert verið að spá í minjar vegna þess, að þroski og viska er ekki fyrir hendi. Þess vegna undrar mér ekki að þetta verði rifið.

Ég er á því að stofnaður verði hópur manna um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði á sínum stað og að vernda flugvallar turninn og gera hann að söguslóð fólksins því fyrr því betra.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 24.6.2007 kl. 21:08

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Eins og mörgum er kunnugt, þá keyptu Íslendingar sína fyrstu flugvél árið 1919. Þessi flugvél, sem var af gerðinni AVRO-504, flaug sitt fyrsta flug í Vatnsmýrinni í Reykjavík hinn 3ja september 1919 klukkan fimm. Nákvæmlega 75 árum síðar flaug módel í mælikvarðanum 1:4 á sama stað að viðstöddu fjölmenni. Flugmódelið smíðaði Jakob Jónsson og er það frábærlega vandað. Allir málmhlutir eru handsmíðaðir, og er innrétting nákvæmlega eins og í fyrirmyndinni. Höfuð flugmannsins var skorið út í tré eftir ljósmynd af Cesil Faaber flugmanni.

Þessi mynd er tekin í september 1919. Eitt af fyrstu flugum AVRO-504 er undirbúið

Nú er klukkan orðin 17.00 laugardaginn 3ja september 1994. Mótorinn sem er 62ja rúmsentimetra (4 hestöfl) er kominn í gang í Vatnsmýrinni. Í dag er flugmaðurinn Skjöldur Sigurðsson, en fyrir nákvæmlega 75 árum var það Cecil Faber. Höfuð flugmannsins í sætinu er skorið út eftir mynd af Cecil Faber, og er hægt að hreyfa það með fjarstýringunni!. Jóhannes Jakobsson smíðaði módelið sem er í mælikvarða 1:4.

Avro á flugi yfir Reykjavík.

Módelið er nú varðveitt í húsakynnum Flugmálastjórnar. Mig minnir að minnismerki hafi verið afhjúpað í tilefni dagsins á þeim stað sem menn töldu að fyrsta flugið hefði farið fram. 

Ágúst H Bjarnason, 24.6.2007 kl. 21:10

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg held að allir sem eru komnir á aldur og muna þessa sögu að mestu mundu vilja mynda um þetta hóp til að þessu yrði sómi syndur/Flugvöllurinn fer ekkert/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.6.2007 kl. 21:47

8 identicon

Talandi um þetta allt saman; Manni dettur í þessu samhengi líka í hug Kaldaðarnes og öll þau umsvif sem voru þar á styrjaldarárunum. Skrifari er að vísu ókunnugur þar, en spyr því hvort allt sé horfið þaðan sem minnir á þennan gríðarstóra flugvöll og þau umsvif sem þar fóru fram á vegum RAF? - En svo er annað, sem mig minnir að borið hafi á góma milli okkar eitt sinn fyrir mörgum árum, en það er þegar mönnum datt sú ósvinna í hug að nota Köturnar gömlu í uppfyllingu undir suðurenda 02/20 brautarinnar þegar hún var lengd. Þær hefðu gefið ansi góða ávöxtun hefði einhverjum dottið í hug að geyma þær til síðari tíma!

Gamalt flugdýr (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 21:50

9 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Ómar.

Þetta er mjög skemmtileg umræða sem hérna fer fram.? Hvernig væri að stofna hagsmunasamtök um flugvöllinn í Vatnsmýrinni ( Reykjavíkur flugvöll) á sínum stað eins og Haraldur Haraldsson bendir á og varðveitum Flugturninn og sýnum honum virðingu eins og þú bendir á Ómar.

Sýnum kjark og þor sýnum það í verki að að við getum tryggt það sem þú bendir réttilega á Ómar Ragnarsson. Þjóðinn er sammála okkur.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 24.6.2007 kl. 23:57

10 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góður pistill  Ómar. Hálf nöturlegt hve illa hið opinbera hefur staðið sig í að varðveita mynjar. Ekki eingöngu þær sem snúa að fluginu, heldu allri atvinnusögu okkar. Skútur, kútterar, síðutogarar og annað sem tengis sjávarútveginum er allt horfið og nánast ekkert sem varðveist hefur af þessu.

Halldór Egill Guðnason, 25.6.2007 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband