10.7.2007 | 09:58
"ÁHÆTTUSÖM FRAMKVÆMD."
Rafmagnsleysið á Austurlandi í gær rifjaði upp hvernig lögfræðingur Landsvirkjunar lýsti Kárahnjúkavirkjun í greinargerð til þess að sýna landeigendum fram á að hún og þar með vatnsréttindin vegna hennar væri mun minna virði en þeim hafði verið sagt. Svona lýsti Landsvirkjun þessu sjálf: "Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-,umhverfislegu-, og markaðslegu tilliti, er í raun eyland í raforkukerfinu..."
Nú er 40 ker í álverinu á Reyðarfirði keyrð með raforku úr vatnslausum hverfli, sem látinn ganga fyrir tafmagni til þess að búa til rafmagn! Ekkert má út af bregða, - reynt er að komast hjá kostnaði og taka áhættu.
Tekin var mikil áhætta með því að rannsaka ekki fyrirfram það 3-5 km metra breiða misgengissvæði, sem sást mjög vel úr lofti og varð síðar aðalástæðan fyrir hinni miklu og rándýru töf sem orðin er á framkvæmdum.
Upplýsingafulltrúi virkjunarinnar sagði án þess að depla auga framan í kvikmyndatökuvélina að ekki hefði þótt ástæða til þess að kanna svæðið, "...við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð var."
Nú er Arnarfell í gjörgæslu eftir að komið er í ljós að tilboð fyrirtækisins var allt of lágt og það verður fróðlegt að sjá lokareikninginn frá Impregilo.
Það skipti þá Halldór og Davíð engu máli þegar farið var út í þessa framkvæmd þótt viðvörunarbjöllur hringdu alls staðar, - þeir vissu að þjóðin myndi borga eftir að þeir sjálfir væru komnir í öruggt skjól embætta og dæmalausra og sérsniðinna eftirlaunalaga.
Það liggur fyrir sem sjá mátti fyrirfram, að virkjunin verður baggi á þjóðinni og rétt að enda þennan pistil á broti úr lýsingu Landsvirkjunar sjálfrar: "...ekki er unnt að útiloka stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalverður ef beita þarf ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."
"....Ekki er unnt að útiloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra
Athugasemdir
"Það er stefna stjórnvalda að þessi virkjun verði byggð og þessi úrskurður Skipulagsstofnunar breytir engu þar um"
Pétur Þorleifsson , 10.7.2007 kl. 12:36
Rétt er að spyrja að leikslokum
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.7.2007 kl. 13:15
Þessi framkvæmd snerist um að kvótakóngurinn Halldór Ásgrímsson og flokkur hans fengju atkvæði austfirðinga. Kostnaður og hvort þetta hafi verið mistök skipta engu máli fyrir þessa lénsherra enda allri alvarlegri gagnrýni á framkvæmdina snúið upp í léttvægt hjal í lokaskýrslum ríkisins í ríkinu : Landsvirkjunar.
Ævar Rafn Kjartansson, 10.7.2007 kl. 19:47
Samningar verktaka eru alltaf með fyrirvara um að verk geti dregist á langinn og kostnaður aukist. Sérstaklega í verki af þessari stærðargráðu er vitað mál að aukakostnaður verður verulegur og því verkið á endanum mun dýrara en farið var af stað með. Það sama gildir um tónlistarhúsið sem verið er að reisa í Reykjavík - það á örugglega eftir að fara fram úr áætlun. Þetta er einnig vegna þess að áætlanir eru yfirleitt of knappar og hreinlega ekki hægt að fara eftir þeim.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 11.7.2007 kl. 11:42
Þakka þér fyrir Ómar að standa alltaf vörðinn um þessi mál... merkilegt hve skammsýni landans er mikil og hvað fólk kýs að leggja mikið á sig til að horfast ekki í augu við staðreyndirnar sem blasa við. Þetta tröllumvaxna ævintýr ráðamanna á austurlandi mun verða þjóðinni dýrkeypt og þó erum við að kljást við samskonar ráðavillu hvert sem við snúum okkar þegar kemur að stóriðjuæðinu sem virðist hafa heltekið þorra þjóðarinnar. Veit satt best að segja ekki hvað þarf til að fólk vakni upp af þyrnirósarsvefninum, því ekki vantar upp á að mikið hafi verið gert til að sýna þeim fram á staðreyndirnar með orðum og myndum. Kannski er fólk að taka máltækið einn dag í einu full alvarlega og að allt muni nú reddast...!
Birgitta Jónsdóttir, 11.7.2007 kl. 11:58
Í gær skalf jörð við Kárahnjúka samkvæmt mælum veðurstofu. Virðist ekki hafa verið truflun á mælum þar sem upphaflegu tölurnar og staðsetning hefur verið leiðrétt örlítið.
Nú eru engar fréttir af þessu. Er þetta ekki fréttnæmt?
abc, 11.7.2007 kl. 13:18
Ég fór til Árósa í hitteðfyrra til að hitta Bent Flyvbjerg prófessor sem hefur skrifað bækur um það hvernig stórar framkvæmdir fara yfirleitt langt fram úr áætlunum.
Kíkti á bækurnar og talaði við hann í síma en náði ekki að fá við hann sjónvarpsviðtal.
Niðurstöður hans voru þær að risaframkvæmdir væru oft byggðar á óskhyggju og stórbokkadraumum veruleikafirrtra ráðamanna og að meðaltalið sem þær færu fram úr væri um 30 prósent.
Bækur hans eru mjög vel unnar og skrifaðar, - þetta er faglega mjög vel gert. Það mátti vita það fyrirfram hvernig færi við Kárahnjúka en meirihluti þjóðarinnar vildi ekki vita það (meirihlutinn ræður) og vill ekki vita það enn, - ef það verður þá nokkurn tíma áhugi á því að kafa almennilega ofan í þetta mál á meðan við lifum.
Ómar Ragnarsson, 11.7.2007 kl. 15:25
Það kann aldrei góðri lukku að stýra að láta stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum ákveða stórframkvæmdir í efnahagslífinu.
Stjórnmál og viðskipti fara einfaldlega ekki saman. Niðurstaðan verður nánast undantekningalaust klúður og spilling.
Það þarf að skera á tengsl viðskiptalífs og stjórnmála á Íslandi, ef við ætlum að gera okkur einhverjar vonir um að verða meira en bananalýðveldi sem hlegið er að alls staðar á Vesturlöndum.
Theódór Norðkvist, 11.7.2007 kl. 15:39
Eigum við ekki að bjóða málmrisann Rio Tinto velkominn? Kanadamenn hafa sætt sig við yfirtöku fyrirtækis innan breska heimsveldisins. Álbræðsla Rio Tinto var áttunda stærsti heimi 2005 var 1.203.500 t/y en Alcan 3.483 000 t/y 2006 álíka og árið áður. Furstadæmið Abu Dhabi fær aðstoð Rio Tinto ( Comalco aluminium Ltd. ) við að hanna stærsta álver heims, sem framleiðir í fyrstu (árið 2010) ca. 600 000 t/y en fer með tímanum upp í 1.2 millon tonn. Orkugjafinn verður jarðgas.
Bergþóra Sigurðardóttir.
Bergþóra Sigurðardóttir, 13.7.2007 kl. 01:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.