SJÓNARSVIPTIR AÐ MERKUM MANNI.

Einar Oddur Kristjánsson var einn af merkustu stjórnmálamönnum sinnar tíðar og átti það sameiginlegt með Einari Olgeirssyni , sem var uppi hálfri öld fyrr, að verða aldrei ráðherra þrátt fyrir áhrif sín og verk. Um þá báða má segja, þótt pólitík þeirra hafi verið gerólík og mennirnir uppi á ólíkum tímum, verði nöfn þeirra lengi uppi þegar flestir ráðherrar sem voru samtíða þeim verða gleymdir.

Þeir Einararnir áttu það sameiginlegt að hafa gengið til samstarfs við andstæðinga sína með þjóðarheill í huga og náð árangri

Árangur Einars Odds er þó sýnu meiri og varanlegri að mínum dómi.

Tveimur árum áður en Einar Olgeirsson myndaði Nýsköpunarstjórnina með Ólafi Thors hafði skollið á óðaverðbólga á tíma minnihlutastjórnar Ólafs sem Ólafur sagði að hægt yrði að slá niður með "einu pennastriki" ef menn vildu það, -eins og hann orðaði það. Þetta gekk ekki eftir og andstæðingar Ólafsvar stríddi honum árum saman á "pennastrikinu."

Nýsköpunarstjórnin hefur af sumum verið kölluð óráðsíu- og eyðslustjórn en með henni var hoggið á slæman hnút þeirrar ósvinnu að ekki var hægt að mynda þingræðisstjórn.

Stjórnin gekkst fyrir átaki í tryggingar- og velferðarmálum, endurnýjaði skipaflotann og fiskvinnsluna og lagði þannig grunn að atvinnulífi næstu áratuga.

En stjórnin gekk vafalaust of langt í að eyða stríðsgróðanum og í hönd fór tæp hálf öld þar sem ekkert réðist við verðbólguna og óstöðugleiki í efnahagsmálum var einn helsti dragbítur og bölvaldur í þjóðarbúskapnum.

Sumarið 1988 þegar Einar Oddur var þjóðinni algerlega ókunnur, skipaði Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra hann formann nefndar sem átti að taka efnahagsmálin föstum tökum.

Vegna þessa hlaut Einar Oddur viðurnefnið "bjargvætturinn frá Flateyri". 

Svo fór þó að stjórnin sprakk í beinni útsendingu og starf Einars Odds og hans manna varð því ekki að þeim grundvelli lausnar efnahagsvandans sem að var stefnt.

En með þessu stimplaði Einar Oddur sig samt inn hjá þjóðinni og þegar hann varð framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins endurtók hann það sem þeir Ólafur Thors og Einar Olgeirsson höfðu gert hálfri öld fyrr að höfuðandstæðingar í atvinnumálum tækju höndum saman til lausnar vanda sem ótal sinnum hafði mistekist að ráða bug á, mest vegna sundurþykkju og einþykkni deiluaðila.

Einar Oddur og Guðmundur J. Guðmundsson voru andstæðir pólar sem tókst að vinna sem einn maður ásamt fleiri góðum mönnum að því afreki að kveða verðbólguna niður og koma á stöðugleika "með einu pennastriki" ef svo má að orði komast.

Það var góð ára í kringum Einar Odd sem hreif mann, eitthvað óútskýranlegt. Hans er sárt saknað og eftir á að hyggja er einkennilegt að hann skyldi aldrei verða ráðherra.

Það varð Guðmundur J. heldur aldrei en ljómi þjóðarsáttarinnar er mestur í kringum þessa tvo menn að öðrum ólöstuðum.

Ég hneigi mig djúpt fyrir minningu Einars Odds Kristjánssonar og sendi vinum hans og vandamönnum samúðarkveðjur.


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergþóra Sigurðardóttir

Ætli Einar Oddur hafi ekki verið of skemmtilega sjálfstæður til að passa í ráðherrastól. Ég er sammála þér  að það var góð ára kringum hann. Við munum sakna hans. Hann valdi góðan stað til að kveðja.

Bergþóra Sigurðardóttir.

Bergþóra Sigurðardóttir, 16.7.2007 kl. 12:23

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Dittó. Það er mikil eftirsjá í Einari Oddi. Aðstandendum, vinum hans og vandamönnum, óska ég alls hins besta og veit að minning um góðan dreng er þeim stuðningur,  í sorg sinni. Hvíli hann í friði.

Halldór Egill Guðnason, 16.7.2007 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband