ÓLÍKAR VERKSMIÐJUR.

Það eru ólíkar verksmiðjur sem fréttir dagsins greina okkur frá að muni rísa á landsbyggðinni til þess að leysa byggðavandann. Á Akureyri rís mengunarlaus verksmiðja með 90 störfum sem styrkir atvinnulíf staðarins án þess að kollsteypa samfélaginu.Í fréttum Sjónvarpsins var sagt að 500 starfa olíuhreinsistöð muni rísa í Hvestudal í Arnarfirði án þess að þess væri getið að neinn vandi væri að krækja í útblásturskvóta vegna hennar.

Verksmiðjan mun væntanlega fljúga í gegnum mat á umhverfisáhrifum eins og vant er hér á landi og landsmenn munu fagna stóreflingu slökkviliða á landsbyggðinni sem fylgir svona verksmiðjum.

Fáir munu spá í það að hin nauðsynlega efling slökkviliða og björgunarsveita sem fást við strand olíuskipa stafi af eldhættu sem fylgir svona starfsemi á sjó og landi.

Nú er búið að skrúfa frá sams konar krana og gert var þegar viðskiptaráðuneytið auglýsti rækilega hjá álfyrirtækjum heimsins að á Íslandi væri hægt að kaupa ódýrasta rafmagn á byggðu bóli.

Ísfirðingar og aðrir landsbyggðarbúar þurfa ekki að öfunda fólkið í Vesturbyggð því vafalaust munu hinir erlendu olíufurstar sækjast eftir að reisa fleiri stöðvar víðsvegar um landið.

Raunar væri nær að reisa fyrst stöð í landi Ísafjarðarbæjar á undan stöð í Arnarfirði því að á Ísafirði skapar smíði og rekstur 500 manna vinnustaður ekki eins mikla vinnuafls- og fólksfjöldasprengingu í samfélaginu og slíkur vinnustaður gerir í nágrenni þorpanna á Bildudal, í Tálknafirði og á Patreksfirði.

Nú þegar er stór hluti vinnuaflsins í Vesturbyggð frá öðrum löndum og ansi er ég hræddur um að Íslendingar muni ekki flykkjast vestur til að vinna í olíuhreinsistöð heldur verði Vesturbyggð þegar upp verður staðið byggð að hálfu af aðfluttu erlendu vinnuafli, í mörgum tilfellum fólki sem stendur stutt við.

Mikið hefði það nú verið betri frétt að heyra að 90 starfa aflþynnuverksmiðja risi í Vesturbyggð heldur en olíuhreinsistöð, verksmiðja af því tagi sem fólk í nágrannalöndum okkar vill gjarnan losna við úr nágrenni sínu.

Á heimsvísu má telja það jákvætt að hreinistöðvarnar íslensku geri kleift að leggja niður skrímsli af þess tagi erlendis líkt og Alcoa og fleiri gera við erlend álver þegar álver þeirra rísa á Íslandi.


mbl.is Leyfa byggingu olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ragnar Örn, ég ek daglega á tveimur bílum, annar þeirra er minnsti og sparneytnasti bíll á Íslandi og hinn er næstminnsti og ódýrasti bíll á Íslandi.

Vestfirðingum kemur það við hvort stærsta álver Evrópu er reist í fordyri höfuðborgarinnar og ég vil minna þig á þá hörðu baráttu sem virðist hafa farið fram hjá þér að var og er háð um þær fyrirætlanir að gera allt svæðið frá Leifsstöð austur í Landmannalaugar að samfelldum skógi af risaverksmiðjum, raflínum, borholum, stöðvarhúsum, stíflum og lónum, - raðað þessu á víxl þannig að aldrei fari virkjanamannvirki úr augsýn.

Ég á ekki heima í 101 Reykjavík og sést nánast aldrei í kaffihúsum. Samkvæmt skilningi þínum átti mesta kaffihúsalið sem uppi hefur verið á Íslandi, Fjölnismenn, ekkert með það að hafa skoðanir á landi sínu.

Landsmenn höfnuðu ekki umhverfisstefnu með eftirminnilegri hætti en svo að VG stórjók fylgi sitt,

Samfylkingin reyndi og reynir enn að malda í móinn gegn stóriðjustefnunni og Íslandshreyfingin fékk fylgi sem hefði skilað tveimur mönnum á þing ef ósanngjarnar kosningareglur hefðu ekki komið í veg fyrir það.

Skoðanakönnun sýndi að 58 prósent landsmanna vildi stóriðjuhlé í fimm ár.

Fyrir fimmtán árum fór ég í ferð um vesturströnd Írlands þar sem menn selja ferðamönnum frá Suður-Evrópu fríska vinda af hafinu og það sem þeir kalla stærsta fuglabjarg í Evrópu.

Þetta mikla fuglabjarg er þó aðeins brot af Látrabjargi að stærð og á Vestfjörðum eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu.

En vegna arfavondra samgangna og skilningsleysis á möguleikunum sem náttúra, þjóðhættir og saga Vestfjarða bjóða upp á, svo og lokuðum augum fyrir þeim möguleikum sem innreið nútíma tækni í fjarskiptum geta fært landsbyggðinni, sjá menn ekkert annað en að bjóða upp á lausnir sem aðrar þjóðir víkja frá sér og þakka fyrir að fá að losna við til Íslands.

Ómar Ragnarsson, 16.8.2007 kl. 11:40

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég á nú varla orð yfir svona vindbelging eins og Ragnar Örn sleppir frá sér í athugasemd 2. Að halda því fram að öðrum en Vestfirðingum komi það alls ekkert við hvaða landspjöll eru framin á svæðinu er algjör firra. Eru Vestfirðir ekki hluti af Íslandi? Eru Vestfirðir ekki hluti af náttúruauðæfum jarðarinnar? Reyndar býst ég ekki við að Ragnar sjálfur sé Vestfirðingur í húð og hár miðað barlóminn í honum. Það er ekki hlutverk annara að "koma einhvern tíma með einhverjar lausnir..." Í margar aldir hafa Vestfirðingar sýnt og sannað að þeir eru ekki upp á aðra komnir. Ætlar Ragnar sér að sækja um vinnu í umræddri olíuhreinsunarstöð eða ætlar hann sér bara að maka krókinn og gefa skít í þá aðila sem eru að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu?

Svo væri fróðlegt að heyra hvort að meirihluti íbúa svæðisins sé þessu hlyntur. Er ekki tímabært að kanna það með fullri vissu? Úlfar B. Thoroddsen formaður bæjarstjórnar Vesturbyggðar sagði í fréttum Útvarpsins áðan að þau sæju ekkert þessu til fyrirstöðu. Er bæjarstjórnin blind eða lætur hún stjórnast af einhverjum annarlegum hagsmunum? Það er deginum ljósara að olíuhreinsunarstöð í Ketildölum myndi stórspilla svæðinu fyrir ferðamenn og þá sem kunna að meta stórbrotna fegurð Vestfjarða. Einnig skapast stór hætta á mengunarslysi sem gæti breytt ásýnd Arnarfjarðar um alla framtíð. Síðast en ekki síst væri ekki úr vegi að skoða það vandlega hvernig finna má vinnuafl fyrir 500 störf í skítugri olíuhreinsunarstöð. Eru Vestfirðingar tilbúnir að taka við hundruðum manna frá fjarlægum löndum? Ekki er neitt atvinnuleysi á Vestfjörðum sem talandi er um!

Sigurður Hrellir, 16.8.2007 kl. 13:29

3 Smámynd: Karl Jónsson

Ferðaþjónusta verður ekki sá stóri útvegur sem menn vilja  fyrr en í fyrsta lagi eftir 15-20 ár eða svo. Það á mikið vatn eftir að renna til sjávar til að sú atvinnugrein fari að skila þeim arði að hún geti sjálf staðið almennilega undir sér. Í dag er jú hægt að reka ferðaþjónustufyrirtæki nokkuð skammlaust í þá mánuði sem traffíkin er, en það stendur ekki undir fjárfestingum og allra síst á Vestfjörðum, því þar væri þegar búið t.d. að byggja gott hótel á suðurfjörðunum ef það myndi borga sig.

Vestfirðingar þurfa lausnir á næstu 4-5 árum, raunverulegar lausnir og byltingu í sínum atvinnumálum. Það er því ekkert skrýtið að menn horfi til 500 manna vinnustaðar og leggi fram vinnu í að kanna þá hugmynd til hlítar.  Eru það "annarlegir hagsmunir" Sigurður, þegar fólk vill sjá raunverulegar lausnir á sínum vandamálum?

Held að menn ættu að fara varlega í að dæma Vestfirðinga og þá vinnu sem þarna fer fram. Menn sem halda að ferðaþjónustan komi til með að bjarga öllu eru á villigötum og það er mín skoðun að hún geti blómstrað sem aldrei fyrr eftir að olíuhreinsunarstöð verður risin. Hún hefur ekki áhrif á helstu ferðamannperlur Vestfjarða; Hornstrandir, Vigur, Látrabjarg, sjóstöngina, norðursvæðið eins og það leggur sig og þar fram eftir götunum.

Hins vegar gætu ferðaþjónustufyrirtæki stórgrætt á viðskiptum við og í kring um svona stórt fyrirtæki. Þá kannski fer loksins að hylla undir það að arðsemi þeirrar greinar aukist svo um munar og uppbygging ferðaþjónustu verði sem aldrei fyrr á Vestfjörðum og uppfylli þá loksins draumsýn margra með að hún leysi öll vandamál.

Karl Jónsson, 16.8.2007 kl. 15:10

4 identicon

Sæll Ómar,

Ég sé í greininni segir: “Á Akureyri rís mengunarlaus verksmiðja....”

Ég má til með að benda á að Becromal rekur verksmiðju í Tennessee fylki BNA sem er eitthvert mesta mengunarfylki í BNA, sbr: http://www.scorecard.org/env-releases/ranking.tcl?fips_state_code=47

 
Og hvernig skyldi Becromal of America standa sig í þessu mengunarfylki:
http://www.scorecard.org/env-releases/ranking.tcl?tri_id=37716BCRML350JD Því miður ekki nógu vel.

Heimildin, “Scorcard” byggir á opinberum gögnum sem tilkynningarskyld fyrirtæki þurfa að senda umhverfisyfirvöldum þ.e.a.s. EPA. Scorecard eru frjáls félagasamtök og í ljósi þess að EPA er með tengil á samtökin neðst á síðu um umhverfisáhrif efna, sjá hér: http://www.epa.gov/enviro/html/emci/chemref/7664417.html er ástæða til að ætla að þessi samtök séu ekki alvitlaus.

Scorecard hvetur nágranna þessarar verksmiðju í Tennessee til þess að senda yfirstjórn fyrirtækisins fax með kröfum um úrbætur.

Þar segir m.a: “I also learned that this facility ranks among the worst performing facilities in the US in regard to its total environmental releases.”

Faxið má lesa í fullri lengd hér: http://www.scorecard.org/env-releases/facility-fax.tcl?tri_id=37716BCRML350JDSamkvæmt PlanetHazard, þá er verksmiðja Becromal í Tennessee sú 3. versta í sýslunni:

http://www.planethazard.com/phmapenv.aspx?mode=topten&area=county&state=TN&countyfip=47001

Ég ætla nú ekki að úthrópa þessa verksmiðju að svo komnu máli en ég læt lofsönginn bíða þar til málin skýrast betur og við fáum að heyra eitthvað fleira en 90 störf og 75MW afl.

kveðja,
Bergur  Sigurðsson

Bergur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 16:02

5 identicon

Sæll aftur Ómar,

Smá mistök þar sem stendur "Og hvernig skyldi Becromal of America standa sig í þessu mengunarfylki:" setti ég óvart rangan tengil, þetta er sá rétti:
http://www.scorecard.org/env-releases/ranking.tcl?tri_id=37716BCRML350JD&comparison=st
Tengillinn sem ég setti inn ber Becromal við verksmiðjur í BNA í heild sinni ekki bara í fylkinu. Breytir svosem ekki öllu en rétt skal vera rétt.

Kveðja,
Bergur Sigurðsson

Bergur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 16:32

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég er feginn að sjá að Karl kann betri mannasiði en Ragnar Örn þó svo að skoðanir okkar fari ekki saman. Það hefur margoft verið bent á að samgöngubætur er það mál sem brýnast er á byggðum bólum Vestfjarða. Ómar gerði það t.d. oft að umfjöllunarefni í aðdraganda kosninganna og kynnti einnig nýja hugmynd sína um millilandaflugvöll við Patreksfjörð. Það stendur flestu fyrir þrifum hvað samgöngur við byggðarlögin taka langan tíma og einnig að það er oft ófært yfir heiðar að vetrarlagi.

Karl segir sjálfur að ferðaþjónusta gæti orðið stór útvegur eftir 15-20 ár. Það fer örugglega mikið eftir því hvort að mikið er lagt í kynningu á Vestfjörðum sem náttúruperlu eða ekki. Ferðamennirnir koma ekki af sjálfu sér. Það verður líka að vera til þjónusta við þessa ferðamenn svo að það freisti þeirra að eyða mörgum dögum í að skoða þá fjölmörgu staði sem í boði eru. Sjálfur hef ég furðað mig á því hversu lítið framboð er á þjónustu við ferðamenn á sunnanverðum Vestfjörðum. T.d. var enginn möguleiki á að kaupa kaffi á Þingeyri þegar ég var þar í heimsókn í fyrrasumar og alls engin þjónusta í boði í Selárdal þó að þangað komi 3000 manns árlega. Einnig finnst mér stórundarlegt að ekki sé boðið upp á nýeldaðan fisk í sjávarþorpum Vestfjarða. Dæmið um Sægreifann í gamalli verbúð í Reykjavíkurhöfn sýnir að erlendir ferðamenn kunna vel að meta tilgerðarlausa matreiðslu úr því hráefni sem við eigum best.

En þó svo að ferðaþjónusta sé oftast nefnd til mótvægis við stóriðju þá er auðvitað margt annað hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi, frumleg hugsun, frumkvæði, þolinmæði og þekking. Þetta hafa margir sýnt fram á og það má ekki gleymast í umræðunni um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hvað stæði í vegi fyrir að staðsetja hátæknifyrirtæki á Vestfjörðum ef samgöngur væru í lagi (einnig tölvusamgöngur)? Rannsóknarstöð fyrir Norður-Íshafið? Netþjónabú? Fjármálafyrirtæki? Allt annað en mengandi stóriðju, takk fyrir.

Að lokum þetta. Ég er sannfærður um að sérstaða og styrkur Íslands sé náttúran og fólkið sem alist hefur upp í návist hennar. Þeir sem blygðunarlaust vilja fórna einstökum náttúruperlum fyrir stundarhagsmuni getur varla verið sjálfrátt. Sjálfur mun ég berjast gegn því af alefli að Ketildölum verði spillt með því að planta þar olíuhreinsunarstöð. Ég lít á það sem skyldu mína að standa vörð um staði eins og þann sem bæjarstjórn Vesturbyggðar finnst sjálfsagt að eyðileggja um aldur og ævi. Raunar finnst mér að þessi bæjarstjórn ætti að segja af sér svo heimskuleg sem hún er að segja að ekkert sé því til fyrirstöðu að þessi vitleysishugmynd verði að veruleika. Og þeir sem segja að ég eigi að loka þverrifunni eða eitthvað í þeim dúr dæma sig sjálfir og eru í raun vart svara verðir.  

Sigurður Hrellir, 16.8.2007 kl. 21:58

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú lætur Ómar eins og umhverfismat sé eitthvert formsatriði. Miðað við þá fullyrðingu þína er ljóst að þú veist ekkert út á hvað umhverfismat gengur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé að Sigurður Hrellir er með athugasemdir sem lýsa upplifun hans á landsbyggðinni. Hann horfir á málin með "gestsauganu" sínu og niðurstaðan er skilningsleysi og lausnirnar eru ..."auðvitað margt annað hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi, frumleg hugsun, frumkvæði, þolinmæði og þekking". Þú ert hrokagikkur Sigurður.

Íbúar á Vestjörðum sem og annarsstaðar á landsbyggðinni vilja ekki búa í frístundabygðum eða sumarhúsabyggðum. Þeirra áhugi snýr að heilsársbyggð með jöfnum og öruggum tekjum, rétt eins og aðrir íbúar þessa lands. En Sigurður Hrellir klórar sér í kollinum og furðar sig á litlu framboði á þjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Skilningur hans á atvinnurekstri er ekki meiri en svo að hann telur að hægt sé að reka kaffihús á afskektum stað þar sem koma að meðaltali 8 gestir á dag, eins og í Selárdal.

Auðvitað brosir fólk í kampinn, sem býr á landsbyggðinni og sér svona athugasemdir eins og frá Sigurði. En það er ekkert broslegt við það þegar sjónarmið af þessu tagi fá að ráða því hvernig heimamenn ráðstafa möguleikum sínum til betra lífsviðurværis. Þá hlýtur fólki að vera nóg boðið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2007 kl. 13:17

8 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gunnar minn,  að sjálfsögðu sé ég hlutina með mínum gestsaugum, enda ekki búsettur á því svæði sem um ræðir. Það getur vel verið að fólk á landsbyggðinni brosi í kampinn eða að þeim finnist ég vera hrokagikkur, þeim er frjálst að hafa skoðanir á því eins og mér er frjálst að hafa skoðanir á því hvernig aðrir fara með náttúru landsins.

Mig langar að deila með þér lítilli lífsreynslusögu frá því í fyrrasumar sem ég vona að sé ekki dæmigerð fyrir neinn stað á landinu. Tvívegis með stuttu millibili gisti ég á tjaldstæðinu á Egilsstöðum ásamt 2 samstarfsmönnum. Við höfðum bókað svokallaða baðstofu með þó nokkrum fyrirvara og vissum ekki betur en að hún biði okkur til reiðu. Í fyrra sinnið kom í ljós að baðstofan var tvíbókuð en af því að við vorum fyrri til þá þurfti að vísa fjölskyldu frá svæðinu og líklega að útvega þeim gistingu annars staðar. Nokkrum dögum síðar komum við aftur til Egilsstaða, en viti menn, það var fólk í baðstofunni þó svo að við ættum kyrfilega bókað þar. Félagi minn sem er vanur leiðsögumaður krafðist þess að fá að tala við rekstraraðila tjaldsvæðisins og endaði þeirra samtal á því að hinu fólkinu var vísað úr baðstofunni, trúlega yfir á hótel í bænum. Baðstofa þessi var m.ö.o. mjög vinsæl og líklega búin að borga sig margfallt upp. Þar inni var samt varla nokkur aðstaða þó svo að verðinu væri alls ekki stillt í hóf. Þar voru hvorki diskar, glös né hnífapör fyrir gestina, engin lesljós við kojurnar, ekkert rennandi vatn og enginn ísskápur.

Af hverju er ég að skrifa um þessi leiðindaratvik sem ekki koma málinu beinlínis við? Svarið er "græðgi". Þegar fólk er orðið svo upptekið að græða peninga að tilgangurinn og aðferðin er hætt að skipta máli, þá er eitthvað mikið að. Ég tel að þeir sem á hinn bóginn starfi heils hugar og af lífi og sál að því sem þeir taka sér fyrir hendur, muni uppskera eftir því. Þú heldur því klárlega fram að enginn rekstrargrundvöllur sé fyrir kaffihúsi í Selárdal því að þangað komi einungis 8 gestir á dag og efast um skilning minn á atvinnurekstri. Ég myndi að vísu ekki reyna að reka þar kaffihús nema að sumarlagi, en ef slíkt kaffihús væri sjarmerandi og þess eðlis að fólk mælti með því við vini sína og kunningja þá held ég að gera mætti ráð fyrir þó nokkrum viðskiptum. Ef einnig væri boðið upp á e-s konar gistimöguleika, myndi það trúlega líka styrkja reksturinn enn frekar. Sjálfur sótti ég um að fá á leigu rústir í Selárdal sem voru auglýstar af landbúnaðarráðuneytinu fyrir 1-2 árum síðan, en umsókn minni var hafnað. Aldrei kaus ég Framsóknarflokkinn.

Svo vil ég að lokum biðja Ómar fyrirgefningar á þessari munnræpu á síðunni hans. 

Sigurður Hrellir, 17.8.2007 kl. 14:02

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi athugasemdasíða er opin, það er hægt að ræða hér um hlutina, ef ekki, þá lokar Ómar athugasemdarmöguleikanum á síðu sinni.

Þetta er ágæt dæmisaga hjá þér um græðgi og bara gott að þú látir þetta koma fram. Hins vegar efast ég um að höfnun umsóknar þinnar um leigu á húsarústum í Selárdal tengist því á einhvern hátt að aldrei kaustu Framsónarflokkinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2007 kl. 15:13

10 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sælir félagar.  Ég skil ekki þetta tal um mengandi og mengunarlausan iðnað.  Allt hagkerfi heimsins er samtengt og þau fyrirtæki sem menga ekki beint menga óbeint með viðskiptum sínum við hin.  Sjá blogg minn frá 6.maí hér.

Þorsteinn Sverrisson, 17.8.2007 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband