18.8.2007 | 00:32
AFTUR KOMIÐ 1910?
Spennan milli Rússlands og NATÓ-ríkjanna (Bandaríkjanna) stigmagnast hægt og bítandi. Aðgerðir Rússa í dag eru skiljanlegar, - þeim hugnast ekki sá gagneldflaugahringur sem Bandaríkjamenn þrengja sífellt að þeim. Ef Bandaríkjamenn halda að þetta ástand auki lýðræði í Rússlandi er það áreiðanlega misskilningur. Þvert á móti er það alþekkt að valdamenn með einræðistilhneigingar eins og Pútín taka fegins hendi utanaðkomandi ógn sem geti þjappað þjóð þeirra saman gegn sameiginlegum óvini og gert hinum rússneska nútíma keisara kleift að auka enn völd sín í nafni þjóðareiningar.
Rússland má síst við auknu valdi eins manns eða þröngrar klíku, landið er þegar komið of langt á þeirri braut.
Sem dæmi um land þar sem lýðræðið líður fyrir hernaðarógn nefni ég Eþíópíu. Á ferð um þetta land mátti glögglega sjá hvernig valdhafarnir, sem í orði kveðnu þykjast talsmenn lýðræðisins, nýta sér langvarandi og að því er virðist óendanlegt hernaðarástand sem ríkir milli Eþíópíu og Eritreu. Í raun ríkir alræði í Eþíópíu og hvarvetna eru lokuð svæði, eftirlit og hindranir í nafni óttans við hinn sameiginlega óvin.
Það er valdhöfunum í hag að viðhalda hernaðarástandinu við austurlandamæriin og þess vegna er ekki að sjá neina vonarglætu á himni um bætt ástand þessarar sárafátæku þjóðar. Sem dæmi um það hve fátækt landið er má nefna að hagkerfi Íslands er talsvert stærra og þó eru Eþíópíumenn 200 sinnum fleiri en Íslendingar.
Pútín mun áreiðanlega fara að með hæfilegri gát. Lykillinn að betri efnahag Rússlands felst í samstarfi við fjárfesta á Vesturlöndum og hið sama gildir um Kína.
Það getur verið fróðlegt að bera þetta ástand saman við ástandið sem ríkti í heiminum á síðasta áratugnum fyrir fyrri heimsstyrjöldina.
Hernaðaruppbygging stórveldanna á þeim tíma gekk lengst af ekki það langt að hún skaðaði efnahagsleg samskipti þeirra að marki. En að lokum var búið að hlaða svo miklu ofan á hervæðinguna og stoltið og stærilætið sem henni fylgdi að óvæntur atburður sem enginn sá fyrir hleypti af stað keðjuverkun sem endaði með stríði.
Það dapurlega við vopnaskakið nú er að bæði Bandaríkjamenn og Rússar eiga enn gnægð gereyðingarvopna þótt mikið hafi verið dregið saman í þeim efnum.
Hættan er sú að óvænt uppákoma, sem ekki er hægt að sjá fyrir, dragi dilk á eftir sér.
Ef svo fer veldur það miklu alvarlegri atburðarás en eftir morðið í Sarajevo sumarið 1914 því vopanbúr stórveldanna nú er ósambærilega miklu magnaðra en var 1914.
Rússar taka upp reglulegt eftirlitsflug utan lofthelgi sinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég sá eitt sinn samlíkingu á vígbúnaðareign stórveldanna og á tveimur illvígum mönnum, lokuðum inn í loftþéttu herbergi fullu af gasi. Þeir sitja andspænis hvorum öðrum með eldspítustokk og metast um hvor eigi fleiri eldspítur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2007 kl. 02:09
Frábær færsla.
Pútín hræðir mig ekki jafn mikið og Bush. Það sem þessi hryðjaverkamaður (Bush) hefur gert er ófyrirgefanlegt.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.8.2007 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.