HÓTEL AKUREYRI, FÁFRÆÐIN OG SINNULEYSIÐ.

Ég var að uppgötva það fyrir tilviljun í gær að til standi að rífa Hótel Akureyri. Það sýnir fáfræði mína sem verður eitt sandkornið í því afskiptaleysi fólks sem tryggir að þetta verði að veruleika að ég nú ekki tali um ef ég nenni ekki að gefa því gaum hvort eð er og rækti hið þægilega sinnuleysi sem manni finnst stundum að geri hversdagslífið þægilegra. Þar með bætist ég í þann stóra hóp landsmanna sem nennir ekki að nálgast málið og gefur þar með lausan tauminn öllum þeim fyrirætlunum sem byggjast á því að nógu margir séu haldnir þessu tvennu: sinnuleysi og fáfræði.

Ein afsökunin fyrir því að eyða þessu húsi er sú að það sé í slæmu ástandi. Þetta var líka sagt um Bernhöftstorfuna, ekki hvað síst eftir að eldur stórskemmdi hana. Samt tókst að bjarga henni með því að gera áhlaup á fáfræðina og sinnuleysið. Nú er þetta notað á Laugavegarhúsin tvö sem stendur til að rífa.

Hótel Akureyri mun vera eitt þriggja samliggjandi húsa sem skapa heillega og fallega götumynd ef þeim er sómi sýndur. Þau eiga saman sem heild eins og Kasper og Jesper og Jónatan.

Já, en Hótel Akureyri var alltaf svo slappt, einfalt og frumstætt hótel ef miðað er við Hótel KEA, segja sumir, en átta sig ekki á því að einmitt það gefur Hótel Akureyri gildi að þangað leitaði maður ef maður vildi spara peninga. Að þessi hús kallist á og haldi áfram að gegna hlutverkum sínum er svona álíka og að hafa bæði Puntilla og Matta á sviðinu, ekki bara þann ríkari.

Hótel Akureyri er ekki einkamál Akureyringa fremur en hliðstæð hús í Reykjavík, já eða húsin í Prag sem Evrópubúar þakka fyrir að tókst að forða frá glötun.

Margar sögur og margar minningar fólks frá ýmsum heimshornum tengjast hótelum og því ætti að fara sérstaklega varlega í það að rífa slík hús.

Það glyttir nánast alls staðar í fáfræðina og sinnuleysið þegar litið er á þær framkvæmdir sem nú er þrýst á að koma í gegn hér á landi. Þetta tvennt eru bestu bandamenn þeirra sem vilja skjóta fyrst og spyrja svo.

Við blasir eitt gott nýtt dæmi: Rannsóknarleyfi í Gjástykki. Gjástykki? spyrja menn. Hvað er nú það? Leirhnjúkur? So what?

Og önnur dæmi eru legíó. Þar er af nógu að taka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Því þarf að rífa öll gömul hús þó að ástandið sé ekki 100%.  Það þarf að varðveita þá gömlu götumynd, það er ekki gert með því að rífa öll gömul hús og byggja stjórahýsi.  Það þarf að endurnýja og lagafæra það sem þarf að laga og halda í það gamla að einhverju leiti.  Það var hægt að gera við Grímseyjarferjuna og kosta til miklum fjármunum sem ekki voru heymildir fyrir, Því má ekki eyða aðeins í þau gömlu hús sem við eigum og er það líka hluti af sögu landsins.

Þórður Ingi Bjarnason, 3.9.2007 kl. 14:36

2 Smámynd: Ingimar Eydal

Góður pistill!

Það skrýtnasta við þetta að formaður skipulagsnefndar Akureyrar vitnar í aðalskipulag Akureyrar frá 1981 og þá hafi þetta verið ákveðið og því sé ekki hægt að breyta því !!  Þetta sagði hann í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku.  Merkilegt er að þeir stjórnmálamenn sem núna láta málið ganga þessa leið hafa áður gagnrýnt aðra stjórnmálamenn fyrir sömu rök og formaðurinn beitir nú.  Mörg gömul hús á Akureyri litu hreint ekki vel út þegar hafist var handa við að gera þau upp.

Hefðu landsmenn vilja sjá glerhöll í stað Gamla Barnaskólans í Hafnarstræti.  Hann hýsir nú einn af nýjustu bönkum landsins sem sómir sér vel í þessu gamla húsi. 

Tek einnig undir það að bæjarmyndir eru ekki einkamál bæjarstjórna á viðkomandi stað!

Ingimar Eydal, 3.9.2007 kl. 14:47

3 Smámynd: Haukur Kristinsson

ekkert varið í að svara póstinum frá ómari,hann virðist ekki getað svarað neinum ath, hann er lúser

Haukur Kristinsson, 4.9.2007 kl. 00:24

4 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæll Ómar, sem gamall Akureyringur er ég sammála þér. Það er miður að ekki skuli vera áhugi fyrir að endurbyggja þetta hús. Svo á um fleiri hús og víðar en á Akureyri. Mér er minnisstæður Stiklu þáttur þinn úr Flateyjardal þar sem þú bentir á að gamall bær við sjávarmálið, sem ég man ekki hvað heitir og var hlaðinn úr fjörugrjóti, lægi undir skemmdum og þyrfti að varðveitast - ég heimsótti þennan stað fyrir 4 árum og þá var lítið eftir. Í þeirri ferð var aldraður faðir minn sem starfaði í yfir 40 ár sem héraðsdýralæknir í Eyjafirði - hann var þér sammála og benti á fleiri staði - sem m.a. má lesa um í æviminningum Theodórs Friðrikssonar "í verum". Þetta er virðingarleysi við menningu okkar og sögu. kv, þorleifur.

Þorleifur Ágústsson, 4.9.2007 kl. 08:45

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það vill ekki nokkur maður standa að því, að endurbyggja þessa fúahjalla.  Það er ekki nokkur glóra í því, að ætla öðrum, það sem hinir sem gagnrýna hafa hvorki vilja né getu til að framkvæma.

ÞAðe r svo auðvelt,a ð ætla öðrum þá vinnu, ða gera upp og reka handónýtt hús.

Ef ekkert bilar og ekkert gengur úr sér, verða ekki framfarir,, sagði einn ágætur útgerðamaður, þegar hann stóð yfir glóðarhausvél. sem hafði gefið upp andann.

Miðbæjaríhaldið

vill halda í það sem hald er í en breyta öðru.

Bjarni Kjartansson, 4.9.2007 kl. 10:19

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bjarni Kjartansson gefur sér það að Hótel Akureyri sé svo "handónýtt hús" að ekki sé hægt að nota það þótt það verði uppgert. Nákvæmlega það sama var sagt um Bernhoftstorfuna.

Það kostaði mikla peninga að gera upp "handónýtu" húsin í Viðey á sínun tíma og líklegt má telja að taprekstur hafi verið á þeim alla tíð síðan.

Það kostaði líka mikla peninga að gera Bernhöftstorfuna upp en ekki er annað að sjá en að reksturinn í því húsnæði gangi bærilega og sé ánægjulegur í augum borgarbúa.

Leikurinn er ójafn vegna þess að skoðabræður Bjarna hafa yfirburði hvað snertir fjölda þeirra húsa sem þeim hugnast. Húsin sem þyrfti að varðveita eru sennilega langt innan við eitt prósent af húsakosti landsmanna og því þörf sú ábending þeirra, sem best þekkja til, að þessi hús séu hlutfallslega miklu færri hér á landi en í nágrannalöndunum og orðin ískyggilega fá.

Ómar Ragnarsson, 4.9.2007 kl. 10:45

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mig minnir að Berhöftstorfan hafi að mestum hluta verið endurbyggð fyrir frjáls framlög, er það ekki rétt hjá mér? Það er auðvitað fullt af húsum sem eftirsjá er í, en það er ekki hægt að ætlast til að hvorki einkaaðilar né hið opinbera standi straum af slíku. Hið opinbera að vísu með undantekningum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.9.2007 kl. 13:44

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Rétt er það Gunnar.  Frjáls framlög fóru að mestu til að endurbyggja Bakaríið og að hluta hjallana á baklóðinni.  ÞAr er nú rekið opinber upplýsingaveita til ferðamann aog einhver veitingarekstur og fundaaðstaða.

 Húsin, önnur en bakaríið eru nánast flest gerð up af opinberu fé. 

Þau eru ekki neitt augnayndi og sóma sér ekkert á borð við Menntaskólann. 

Ómar minn.  að dómi þeirra, sem til þekkja og hafa tekið ástand Hótelsin á Akureyri, er húsið ónýtt með öllu og ef menn ætli sér, að endurbyggja það, þarf að skipta út mestum hluta ytri stoðvirkis og fótstykkin.  Það er afar dýrt og útlit hússins er eki það fallegt, að það borgi sig.

Hér dugir ekkert að bera saman við Viðeyjastofu og önnur slík hús.  Hótelið er kassi, með þaki og ekkert annað.  Frekar ljótt frá upphafi.

Ef menn vanda sig með útlit þess húss, sem kemur þarna ístaðinn, er ég þess fullviss, að betur fer en að gera núverandi hjall upp.

Eins er það mín skoðun, að ef menn hefðu bara látið vaða á húsin á Torfunni, önnur en Bakaríið, og byggt þar hús á pari við MR og Stjórnarráðið að ytra útliti, væri heildarsvipurinn jafnvel enn betri en nú er.  En það er nú auðvitað skoðun, sem ekki á upp á pallborðið núna.

Miðbæjaríhaldið

vill halda í það sem hald er í en breyta hinu til batnaðar.

Bjarni Kjartansson, 5.9.2007 kl. 09:09

9 Smámynd: Sigurður Hrellir

Hvernig er það með þessa svokölluðu "íhaldsmenn", standa þeir ekki lengur undir nafni? Miðbæjaríhaldið vill rífa og breyta og finnst jafnvel að sjálf Bernhöftstorfan megi missa sín! Hann stendur væntanlega glaður og starir á tóman grunninn þar sem landfógetahúsið stóð við Austurstræti í rúm 200 ár og iðar í skinninu eftir að sjá þar 5 hæða stórhýsi sem mun líklega gera hornhúsið við Lækjargötu hornreka í orðsins fyllstu merkingu.

Sigurður Hrellir, 5.9.2007 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband