"VARÚÐ OG VIRÐING"

Síbyljan um forystu Íslands í umhverfismálum hefur slævt umhverfisvitund okkar og breiðir yfir bresti í þeim málum.Talsmenn Samfylkingar eru nú byrjaðir að nota sömu orðin og Framsókn gerði þegar umhverfisröskun var í undirbúningi. Katrín Júlíusdóttir segir að fara verði með "varúð" við virkjanir í Þjórsá, en þær felast meðal annars í því að drekkja einstæðum fornminjum undir fyrirhuguð lón virkjana. Ráðamenn Framsóknar tönnluðust á "varúð og virðingu" fyrir hinni einstæðu íslensku náttúru þegar virkjun neðst í Þjórsárverum og fleiri virkjanaáform voru á dagskrá.

Valgerður Sverrisdóttir sagði að Kárahnjúkavirkjun hefði staðist "ströng" íslensk lög um mat á umhverfisáhrifum!
Þau voru ekki strangari en það að þessi mestu óafturkræfu umhverfisspjöll Íslandssögunnar fengu grænt ljós hjá Siv Friðleifsdóttur.

Talsmenn álvers á Reyðarfirði tönnlast á því að verksmiðjan verði með "fullkomnasta hreinsibúnað í heimi" þótt fyrir liggi að hreinsibúnaður Norsk Hydro hefði sleppt tuttugu sinnum minna brennssteinsdíoxíði út í loftið en sá ameríski.

Ég frétti af því að á ráðstefnu um gufuaflsvirkjanir á dögunum hefði ræðumaður, sem talaði mjög fyrir umhverfisvernd, eingöngu talið hana felast í því að ganga sem "snyrtilegast" frá virkjunarsvæðunum. Í hans huga virtist ekki inni í myndinni að nokkurt jarðhitasvæði yrði látið ósnert.

Nær allt sem við Íslendingar höfum gert í virkjun umhverfisvænni orkugjafa en olíu hefur verið með sem skjótastan gróða í huga. Þegar við byrjuðum að nýta jarðhitann í stórum stíl í olíukreppunni um 1980 var það eingöngu vegna þess að sú orkuöflun var ódýrari en hin dýra olíunotkun.

Nú hömumst við við að virkja allt sem hægt er að virkja fyrir mengandi álver og réttlætum það með því að annars yrðí virkjað með kolum annars staðar. Þau rök standast ekki því jarðhiti og vatsnafl Íslands er langt innan við eitt prósent af slíkri orku í heiminum.

Neðri-Þjórsá var ekki á listanum sem birtur var í "Fagra Ísland" yfir þá virkjanakosti sem ætti að víkja til hliðar. Þess vegna virðist stefna í það að hið eina sem Samfylkingin geti lagt til málanna sé að fornminjunum hjá Þjótanda sem og þeim lendum sem fara undir vatn verði sökkt með "varúð". Búðafoss og Urriðafoss verða væntanlega þurrkaðir upp gætilega og með varúð.

Vonandi verðu það ekki þannig að Samfylkingin fari svona undan í flæmingi varðandi aðrar virkjanir sem hinn allsráðandi meirihluti Sjálfstæðismanna stefnir að að knýja í gegn.


mbl.is Ekkert íslenskt sveitarfélag tilnefnt til umhverfisverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Það er merkilegt hjá sveitafélögum hvað þau eru til í að hliðra til umhverfisáætlunum ef þeir sjá einhvern gróða annarsstaðar.  Það er eins og umhverfið meigi skemma og taka svo á því seinna. 

Nú er ég að skrifa BA ritgerð um umhverfisvottanir ferðaþjónustufyrirtækja, það er spurning hvort ég skoði þetta samhliða hvernig sveitafélög eru að standa sig í umhverfismálum, á þeim svæðum sem ferðaþjónustan er að vinna vel að umhvefismálum og eru að fá vottun á sýna vinnu.  Ég ætla að skoða þetta.

Þórður Ingi Bjarnason, 12.9.2007 kl. 15:45

2 identicon

Eru ekki fornminjar um allt Ísland, bara ef leitað er? Var ekki Ísland allt numið?

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 16:32

3 identicon

Merkilegt hvernig alltaf er allt týnt til. Fyrst er það náttúran. Svo verða menn miklir áhugamenn um efnahagsmál, ef einhver setur fram neikvætt sjónarmið í þá átt. Svo er burðarþolið örugglega vandamál og stíflan trúlega að bresta. Sífellt málaðir nýir og nýir skrattar á vegginn.

Við skiljum öll þennan áhuga á náttúruvernd, þótt áherslur séu þar misjafnar. Hví alltaf að týna allt annað til, ef það bara gæti mögulega talist neikvætt? Nú er allt í einu stórkostlegt vandamál að lón eigi að teygja sig yfir einhverjar rústir og þær strax orðnar "einstæðar fornminjar". Kannski álíka merkilegar og píramýdarnir í Luxor? Ekki var það að heyra á fornleifafræðingunum sjálfum. Má þá hvergi byggja neitt þar sem fyrirfinnast leifar um gamla byggð? Er ekki hægt að halda þessu bara til haga með náttúruverndina, en sleppa þessari stanslausu leit að einhverju öðru til að gagnrýna þessar framkvæmdir með? Þetta er svo ótrúverðugt að það hálfa væri nóg.

Og Þórður, þér finnst frábært þegar ferðaþjónustufyrirtækin standa sig vel í umhverfismálum, sem er gott mál. Spurning hvort þú skoðar orkufyrirtækin með sömu gleraugum, þótt í tísku sé að hamast á þeim en ekki hinum fyrrnefndu.

Fossvoxari (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 16:36

4 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ég skoða orkufyrirtæki með sömu gleraugm því það sem ég er að skoða er umhverfisvottunarstaðal og allir þeir sem vilja fara eftir honum þurfa uppfylla sömu skilyrði.  Það er sama hvort þetta sé ferðaþjónusta, stóriðja eða önnur starfsemi.  Það er ein stóriðja sem hefur fengið umhverfisvottun og vinnur stíft eftir henni.  Mér finnst það gott hjá þeim þó svo að ég vilji ekki sjá fleiri virkjanir og mengandi stóriðjur.

Þórður Ingi Bjarnason, 12.9.2007 kl. 18:14

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Smáábending: tuttugu sinnum minna en e-ð annað: heppilegra væri að segja að e-ð væri einn tuttugasti af e-u eða einfaldlega segja að e-ð væri 5% af öðru.

Þá er spurning með fornleifarnar sem finnast flestar hverjar fyrir tilviljun. Ef Landsvirkjun kaffærir þessi landssvæði til að halda áfram þessari umdeildu landsins mestu drullupollagerð þá er spurningin hvort fornleifafundir framtíðarinnar verði ekki rannsakaðir einungis meira og minna í kafarabúningum? Ekki er verið að auðvelda sagnfræðinni að breyta landinu meira en nauðsynlegt er og gera uppgrefti torveldari.

Bestu kveðjur og höldum varnarbaráttunni áfram gegn þessari gegndarlausu virkjanaáráttu í þágu álfurstanna!!

Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 13.9.2007 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband