ORKUVANDINN, - EKKI EINFALT MÁL

Um nokkurt skeið hefur verið fjallað mikið um orkuvandann og velt upp lausnum sem eigi að leysa hann. Nefnd hafa verið nokkur atriði: Etanól, vetni, vatnsafl, jarðvarmaorka, vindorka, rafbílar. Engin ein þessara lausna leysir vandann og ekki einu sinni allar samanlagt. Allt vatnsafl heimsins skilar aðeins um 6% af núverandi orkuþörf mannkyns og jarðvarminn líklega ekki mikið meira. Íslenski hlutinn af þessari orku er svo lítill að hann mælist varla á heimsvísu.

Í bandarísku tæknitímariti sá ég nýlega úttekt á þessu og þar voru vatnsafl og jarðvarmi ekki nefnd, sennilega vegna þess hvað þau vega enn létt. Enginn veit nú hvaða árangur muni nást af djúpborunum.

Etanól var á blaði bandaríska tímaritinu en stóri ókostur þess er sá að til þess þarf lífræn efni m.a. maís, sem sár vöntun er á í sveltandi heimi. Í bandaríkjunum þyrfti akra að flatarmáli upp á heilu fylkin. Skógar heimsins eiga undir högg að sækja.

Vetni er ekki orkulind heldur orkuberi og við notkun þess fer mikil orka í súginn og mengunin frá orkuöfluninni er aðeins flutt til, - úr samgöngutækjunum og húsahituninni í orkuver sem myndu flest brenna kolum eða olíu.

Í Bandaríkjunum eru kolabirgðir til nokkurra alda og menn skyggnast til tækni til að binda útblástur þeirra í bergi. Hún er ekki ekki fyrir hendi enn sem komið er.

Vindorkan krefst slíks skógar af vindmyllum að þekja myndi svæði á stærð við heilu fylkin í Bandaríkjunum. Af vindmyllum er mikil sjónmengun en á móti kemur að þær eru afturkræfar, - hægt að rífa þær niður eða fjarlægja.

Rafbílar geta aðeins leyst þarfir í borgarumferð og bíll eins og Reva er lítt nothæfur fyrir neytendur nema sem annar bíll af tveimur sem til brúks er. Ég hitti menn sem aka um á þriggja tonna sex metra drekum í borgarumferðinni með þeim rökum að þeir eigi hesta eða hjólhýsi.

Ef Reva væri ódýrari myndu þessir menn geta notað bíl með dráttargetu aðeins þegar þess er þörf, - ekki í innkaupaferðum frúarinnar í Kringluna.

Þá er eftir einn orkugjafi sem sjaldnast er minnst á vegna hinnar miklu andstöðu sem hann hefur fengið hjá umhverfisverndarfólki, - en það er kjarnorkan.

Í fróðlegri grein í Newsweek nýlega er greint frá minnkandi andstöðu við kjarnorkuna. Hún fékk á sig vont orð vegna tveggja stórra kjarnorkuslysa á níunda áratugnum en síðan þá hafa öryggismál verið bætt stórlega.

Úrgangurinn er einnig þyrnir í augum en líkt með kolefnisbindingu í kolavinnslunni er nú verið að kanna hvort hægt sé að "hraðbrenna" kjarnorkuúrgangi.

Finnar eru að reisa 1600 megavatta kjarnorkuver, enda er það fljótleg lausn á orkuvanda og sendir engar gróðurhúsalofttegundir út í loftið.

Svo kann að fara að kjarnorkuverin muni fá minni andstöðu umhverfissamtaka og almennings en áður, - ekki vegna þess að þau séu enn fullkomin umhverfislega, heldur einfaldlega vegna þess að aðrir kostir eru of seinlegir og hafa enn sem komið er fleiri ókosti en kjarnorkuverin.

Síðan er hin hliðin á orkuvandanum, - að minnka orkunotkunina með sem flestum tiltækum ráðum.

Þótt lausn orkuöflunarvandans sé ekki einföld og endanleg lausn sé ekki í sjónmáli er kannski skynsamlegast í stöðunni að sjá til hvernig sókn á öllum fyrrgreindum sviðum færir mannkyn nær því að leysa þetta tröllaukna viðfangsefni.

Dýrast af öllu væri að leggja árar í bát og gefast upp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hefurðu sér heimildamyndina End of Suburbia? Þar er talað um hvernig olíuskortur mun gjörbreyta lífi fólks á komandi áratugum. Hún er amerísk og kannski svolítið "sensationalised", en hún gefur góðar hugmyndir um vandamálin sem við þurfum að glíma við. Þar er einmitt komið inn á þetta mál, að olían sér okkur fyrir svo mikilli orku að það er engin ein lausn á vandanum. Þar er líka sagt að við séum sennilega of sein að koma í veg fyrir einhvers konar orkukreppu, en ef þjóðir heims taka sig sman er hægt að minnka áhrif hennar.

Skemmtileg mynd og ég mæli með henni.  

Villi Asgeirsson, 21.9.2007 kl. 18:39

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góða grein Ómar.

Ágúst H Bjarnason, 21.9.2007 kl. 23:38

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Er þetta vænlegt til árangurs ?

Pétur Þorleifsson , 21.9.2007 kl. 23:41

4 Smámynd: Sigurjón

Sæll Ómar.

Það er rétt sem þú segir að það er engin ein lausn á vandanum.  Ég hef ekki mikla trú á vetninu, einfaldlega vegna þess að meiri orka fer í að framleiða það en að nýta.  Ég held því fram að fyrst þurfum við að minnka orkunotkun með hvaða hætti sem við komumst yfir.  Ég er t.d. nýbúinn að útvega mér hjól sem ég ætla að fara á í vinnuna, búðina og hvaðeina daglegt stúss sem ég þarf að gera og láta bílinn eiga sig nema þegar ég fer heim í sveitina eða veður eru mjög slæm.

Ég bind talsverðar vonir við að rafmagnið sé góður kostur (þ.e. rafmagnsbílar).  Vandinn sem staðið er frammi fyrir þar er sá að geymslan (rafhlöðurnar) eru of þungar og of stórar.  Það þarf að leysa. 

Sigurjón, 21.9.2007 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband