TVEGGJA ÁRA BLEKKING OG AFNEITUN.

Fyrir tveimur árum var ljóst að það myndi dragast allt að ári að hægt yrði að hleypa vatni frá Hálslóni til stöðvarhúss Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Allan þennan tíma hafa talsmenn virkjunarinnar verið í afneitun og yfirhilmingu í líkingu við það sem gerist hjá áfengissjúklingum og komið með nýjar og nýjar dagsetningar og spuna um það hvernig hægt yrði a gera hið ómögulega, þ. e. að láta dæmið ganga upp á tilsettum tíma.

Upphaflega var gert ráð fyrir að heilt ár liði frá því að lokið yrði að bora göngin frá Hálslóni austur um og þar til að þau yrðu fullgerð. En Landsvirkjunarmenn fundu ráð við því: Það átti bara að klára frágang ganganna si svona á helmingi styttri tíma, meðal annars með því að ganga frá ýmsu í göngunum nokkurn veginn samtímis því sem verið var að bora. 

Nú kemur auðvitað í ljós að þetta gengur ekki upp en til að reyna að friða menn og róa er notuð sama aðferðin og notuð var þegar verið var að bora. Með því að fylgjast með hraða borananna mátti snemma á ferlinum að það verk myndi tefjast stórlega.

Það var ekki fyrr en ég birti útreikning minn í sjónvarpsfrétt sem ekki var hægt að hrekja að loksins var viðurkennt hve seint verkið gekk raunverulega. Sú sjónvarpsfrétt fór í loftið í febrúarbyrjun 2006 en í maí áttaði minn ágæti kollega, Kristján Már Unnarsson á Stöð tvö á því, að upplýsingar Landsvirkjunar höfðu afvegaleitt hann og þá loks kom hjá honum frétt um það hvernig mál voru raunverulega vaxin. 

Þessa þrjá mánuði fjölluðu fréttirnar, sem fjölmiðlamenn voru mataðir á, um "hraðamet" hjá borum og þeim jákvæðu molum, sem hægt var að finna til að fóðra fjölmiðlana á.  

Það sem ég setti fram strax í júlí 2004 í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" um seinkun á  virkjuninni hefur smám saman verið að koma fram og fleira á eftir að koma fram þótt síðar verði.

Það hefur stundum verið sagt um alkóhólista að sjúkleiki þeirra segi ekkert um gáfur eða góðsemi þeirra, - hinnir skörpustu og mætustu menn geti lent í þeirri afneitun og sjálfsblekkingu sem þessi sjúkdómur hefur í för með sér.

Svipað má segja um þá góðu góðu og gegnu menn sem hafa verið í forsvari fyrir þeim undanslætti og yfirhilmingu sem hefur falist í því að breiða yfir hina raunverulegu stöðu mála við virkjanaframkvæmdirnar eystra, - því miður.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hva, er Gunnar Th. Gunnarsson ekki vaknaður?

Jóhann (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 08:08

2 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Ég man oft eftir því að verki hafi seinkað, er það eitthvað sérstakt? Minni á Reykjanesbrautina í gegn um Garðabæ, ekki eru nein göng þar eða vatnsagi sem tefur. Vandamálið er bara það að þú Ómar þolir ekki þessa framkvæmd en það skiptir okkur hin engu máli sko.  Virkjun fer í gang og gengur síðan lengur en ég lifi. Húrra fyrir þvi

Guðmundur Geir Sigurðsson, 22.9.2007 kl. 10:17

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ekki veit ég hversu langt Guðmundur Geir á eftir ólifað, en hans vegna vona ég að tafirnar á gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar verði ekki svo langar að honum endist ekki aldur til að skála fyrir því.

Sigurður Hrellir, 22.9.2007 kl. 11:16

4 Smámynd: Stefán Stefánsson

Jóhann minn, hafðu engar áhyggjur af Gunnari.
Ég held nú að hann sofi alveg rólegur yfir þessari þráhyggju í Ómari, enda er Gunnar skynsamur maður og víðsýnn miðað við skrif hans hér.

Það er alveg rétt að gangnagerðin hefur ekki staðist áætlun og það virðist vera aðalmálið hjá Ómari.
Aðrir verkþættir hafa gengið vel, en það virðist ekki skipta neinu....... líklega mikil vonbrigði fyrir mótmælendur.

Þetta er rétt hjá þér Guðmundur Geir...... Ómar þolir ekki framkvæmdina og þolir ekki heldur Landsvirkjun.  Orkan virðist allavega beinast eingöngu að   Landsvirkjun og þetta er  nánast einelti.
  

Stefán Stefánsson, 22.9.2007 kl. 11:24

5 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Stefán og Guðmundur Geir. 

Mikið skelfilega er nú röksemdir ykkar fyrir ágæti Kárahnjúkavirkjunar fátæklegar þegar aðalröksemdin hjá ykkur fyrir ágæti framkvæmdarinnar er sú að gagnrýnendur virkjunarinnar þoli hana ekki og séu að leggja Landsvirkjun í einelti. Það er venjan í rökræðum manna á milli að nota staðreyndir máli sínu til stuðnings en ekki að reyna níða niður andstæðinginn eins og þið gerið.

Lárus Vilhjálmsson, 22.9.2007 kl. 11:44

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt skilningi virkjanasinna eiga þeir einir að fjalla um virkjanir og gang þeirra. Ef einhver andófsmaður leggur eitthvað til málanna er það "einelti" og "þráhyggja".

Það hefði sem sé verið í lagi að þeirra dómi ef ég hefði bloggað um Reykjanesbrautina. Það er þó mjög smá framkvæmd miðað við stærstu framkvæmd Íslandssögunnar.

Blogg mitt var fyrst og fremst til að benda á hve mikla yfirburði opinberir aðilar hafa gagnvart veikum fjölmiðlum við að gefa ranga mynd af mikilvægum málum og skekkja með því þann nauðsynlega grunn sem lýðræðisþjóðfélag verður að byggjast á, þ. e. fullkomna upplýsingagjöf.

Ómar Ragnarsson, 22.9.2007 kl. 12:27

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við þetta má síðan bæta því að ef stjórnvöld komast upp með það að halda frá umræðunni þeim, sem reyna að fylgjast með gerðum þeirra, er leiðin greið til þess að komast upp með að hilma yfir staðreyndir og komast hjá réttmætri gagnrýni.

Þótt Landsvirkjun hljóti að þurfa að svara fyrir gagnrýni á einstaka þætti starfsemi sinnar er ekki þar með sagt að ég sé með hana á heilanum sem slæmt fyrirtæki. 

Þvert á móti hef ég mikið álit á flestum þeirra sem vinna á vegum Landsvirkjunar og velþóknun á fjölmörgum framkvæmdum hennar.

Ég veit ekki betur en að ég hafi sem sjónvarpsmaður fjallað ítarlega og á mjög jákvæðan hátt með virkjunum Landsvirkjunar og annarra víða um land, s.s. Búrfellsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Lagarfossvirkjun, Hellisheiðarvirkju, Nesjavallavirkjun og Mjólkárvirkjun.

Þegar allur þessi fréttaflutningur í bráðum 40 ár er lagður saman er hugsanlegt að enginn fjölmiðlamaður hafi fjallað jafn oft jákvætt um virkjanaframkvæmdir og ég.  

Ómar Ragnarsson, 22.9.2007 kl. 12:42

8 identicon

Hvernig skyldi nú standa á því að það fólk sem ekki kyngir hlutunum strax, og þá helst í einum bita, er kallað lið?  Hvers vegna þarf að uppnefna þá sem ekki eru á sömu skoðun og maður sjálfur?  Hjálpar það eitthvað í umræðunni?

Eins er það síður en svo málefnalegt að hrópa í sífellu "þráhyggja" og "einelti" að þeim sem efast um að verið sé að feta réttu slóðina.  Það bendir miklu frekar til þess að sá sem hrópar sé skák og mát og geti ráði hreinlega ekki við að rökræða um málefnið.

Vil hrósa þér Ómar fyrir að vera málefnalegur og detta ekki í skítkast. 

Jóhann (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 13:18

9 identicon

Jóhann hrósar Ómari fyrir að vera málefnalegur og detta ekki í skítkast. Ég spyr: hvað á það að þýða að nota sífellt hugtakið "fíkn" og draga nú enn einu sinni fram líkingu við alkóhólista í afneitun? Er það málefnalegt?

Fossvoxari (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 13:54

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jæja, þá er ég vaknaður.

Finnst mönnum það virkilega líklegt að Landsvirkjunarmenn séu vísvitandi að blekkja með tímaáætlunum sínum? Þeir fengju það auðvitað bara í hausinn enda væri það grafalvarlegt mál og spurning hvort þú sért ekki á hálum ís hvað þetta varðar Ómar. Gamalt máltæki segir "þjóð veit þá þrír vita" og ég reikna nú með að það séu fleiri en tveir sem búa yfir upplýsingum um gang og horfur. Ummæli Ómars um óheiðarleika, blekkingar og lygar eru því nokkuð þungar ásakanir og því hæpið að hrósa Ómari fyrir að vera málefnalegur og að detta ekki í skítkast, eins og Jóhann vill gera.

Það hefur oft komið fram að framkvæmdin er gríðarlega flókin og margir óvissuþættir í henni. Óskhyggja Ómars, eins sorgleg og hún er, að töfin verði nægilega mikil til þess að arðsemi virkjunarinnar verði sem minnst, er enn fjarri raunveruleikanum. Og þó Ómar haldi því fram að það hafi verið ljóst fyrir tveimur árum að afhending orkunnar drægist um allt að ár, þá er nú ennþá 7 mánuðir í að sú ósk rætist hjá honum. Er ekki rétt að bíða og sjá til?

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 14:09

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég er sammála Ómari, nema að einu leyti: Ég vil ekki kalla það sjúkdóm að labba út í ÁTVR, kaupa sér áfengi og hella sig fullan. Enn síður vil ég kalla vísvitandi eyðileggingu á landi og náttúruverðmætum sjúkdóm.  Ég vil ekki að þeir menn sem fyrir því standa sleppi svo auðveldlega að þeir geti skýlt sér bak við einhvern sjúkdóm.

Heimska er ekki sjúkdómur. Þessir menn eru þó sennilega blindaðir af peningagræðgi. Þeir hika ekki við að sólunda almannafé í svona heimskulega framkvæmd, til að geta samið af sér við erlenda auðhringi.

Theódór Norðkvist, 22.9.2007 kl. 14:37

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni þá var alkóhólismi skilgreindur sem sjúkdómur fyrir mörgum árum síðan. Heimska er kannski ekki beint sjúkdómur en það er auðvitað ákveðin fötlun sem og að vera illa upplýstur

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 15:39

13 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Kárahnjúkavirkjum er verkfræðileg snild og lekinn gegnum stíflurnar er aðeins nokkrir tugir lítrar sk. Úrtörlumenn töldu þetta allt saman hriplekt, reyndist tóm þvæla að sjálfsögðu þar er þeir hafa ekkert vit á þessháttar málum. Eins er um mest allt annað varðandi þessa framkvæmd, að um tap sé að ræða, minni á það að orkuverðið er að einhverju leiti háð álverði, það er núna meira en tvöfallt hærra en það var þegar samningurinn um orkverðið var gerður. Fyrir mér er það gróði en ekki tap. Kannski er það hjá einhverjum tap að verð hækkar, hver veit?

Búrfellsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, ekki sé ég neinn eðlismun á þessu virkjunum og Kárahnjúkavirkjun? Í öllum tilvikum er um umhverfisjöll að ræða.

Ég sé engan mun á þessu og hvað er ljótt við þessar virkjanir?

Guðmundur Geir Sigurðsson, 22.9.2007 kl. 19:40

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Kárahnjúkavirkjun kann að vera verkfræðileg snilld, en hún er vistfræðileg handvömm.

Theódór Norðkvist, 22.9.2007 kl. 20:37

15 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Mistök Landsvirkjunar liggja auðvitað í því að fóðra göngin ekki áður en þau voru boruð, eða "reyst" svo ég sletti "verkfræðilensku".

Kristján Sigurður Kristjánsson, 22.9.2007 kl. 21:17

16 Smámynd: Hrappur Ófeigsson

"Heimska er ekki sjúkdómur. Þessir menn eru þó sennilega blindaðir af peningagræðgi. Þeir hika ekki við að sólunda almannafé í svona heimskulega framkvæmd, til að geta samið af sér við erlenda auðhringi." Theódór Norðkvist, 22.9.2007 kl. 14:37

Akkurat og tilgangurinn helgar meðalið. Frítt í bíó.:  http://www.zeitgeistmovie.com/

"Mér er nokk á sama um þessa ógeðslegu virkjun sem peningamennirnir eru að reisa, svo lengi sem ÞÚ Ómar kemst á þing, held nefninlega að þar sé þónokkur skortur á mönnum sem eru tilbúnir til að fórna aleigunni til að fylgja eftir þeim málum sem þeir berjast fyrir án þess að hafa von um hagnað að sjónarmiði."

Hrappur Ófeigsson, 22.9.2007 kl. 23:07

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Geðveiki er hægt að lækna en heimska er ólæknandi," sagði Hriflu- Jónas eftir þrotlaust framígrip eins fundarmanna sem kallaði til Jónasar að hann væri geðveikur.

Mín spá er að það verði ekki langt þar til íslenska þjóðin áttar sig. Og að þá muni stórvirkjanaæðið og orkusalan því samfara verða nefnt verri nöfnum en heimska.

Árni Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband