29.9.2007 | 20:24
RAUÐKU-HÚSIÐ SEM FÓR FORGÖRÐUM.
Ýmsir dragbítar hafa verið á það hér á landi að menn reyndu að átta sig á því hvað séu merkar minjar. Oft verða slys á þessu sviði vegna þess að ekki er nægur skilningur á því að um síðir verða allir hlutir fornminjar og að tímabil með hápunkti á miðri síðustu öld er einstakt í Íslandssögunni vegna þess að á þeim tíma urðu fleiri "kynslóðaskipti" í hlutum en höfðu átt sér stað á þúsund árum á undan.
Sem dæmi má nefna hvernig heyvinnutæki breyttust úr tækjum, knúnum af hestum í bensínknúin og síðan dísliknúin tæki.
Hvað bíla snertir hefur mér fundist mönnum sjást yfir þann hluta þeirra sem Íslendingar sjálfir smíðuðu.
Hreintrúarmenn um fornbíla meta að sjálfsögðu mest þá bíla sem eru nákvæmlega eins og framleiðendurnir gengu frá þeim en þá vill gleymast að t.d. yfirbyggingar og breytingar á bílum eru íslenskar menningarminjar.
Fyrir 24 árum lá við að Ford A-módel sem hafði verið sem afgreiðsluborð í Karnabæ yrði á glæ kastað en mér tókst að krækja í hann og nú er hann í eigu ágæts manns í Árnessýslu sem vonandi tekst að gera hann upp í upprunalegt "íslenskt" horf fyrir árið 2013 þegar öld er liðin frá því að hin raunverulega samfellda bílaöld hófst á Íslandi.
Það sem var merkilegt við þennan Ford var húsið, en það var svokallað hálfkassahús, þ.e. byggt var stutt hús ofana á grindina en síðað settur lítill pallur fyrir aftan það. Þetta var nokkurs konar íslenskur Toyota Hi-lux síns tíma.
Þegar ég var að sinna Skíðalandsmótinu á Siglufirði 1973 hafði ég til umráða Willys-jeppa með svonefndu Rauðkuhúsi, - nafnið auðvitað borið fram á hánorðlenskan hátt: Rauð-ð-ð-ðku-hús!
Þetta var dásamleg útfærsla. Bíllinn hafði verið lengdur og smíðað yfir hann hús, en í stað þess að lengingin væri notuð með því að hafa farangursrými aftan við aftursætið, - var aftursætið fært langt aftur að gafli og sömuleiðis hægra framsætið, þannig að stórt, autt rými myndaðist fremst hægra megin í bílunum.
Þar gengu farþegar inn í hann eins og rútu, fóru fram hjá hægra framsætinu og settust aftur í.
Þetta yndislega frumlega hús hefði skilyrðislaust átt að varðveita og á sama hátt sem ég er ánægður með það að hafa bjargað Karnabæjarbílnum skammast ég mín mikið fyrir það að hafa látið jeppann með Rauð-ð-ð-ku-húsinu fara forgörðum.
Vel á minnst, Rauðka var gælunefni á Síldarverksmiðjunni á Siglufirði hér í den en þar voru þessi hús víst smiðuð.
Nú þarf að gera úttekt á þeim tréhúsum sem byggð voru yfir bíla og varðveita helst eitt stykki af hverju.
Á jeppunum voru þetta hús gerð hjá Agli Vilhjálmssyni, Kristni Vagnasmið, Stilli og ýmsum fleirum.
Undanfarin ár hef ég átt Willys 67 sem bíl til að grípa í við Akureyrarflugvöll. Ekki er alveg ljóst hver smíðaði húsið á hann, þótt Egill Vilhjálmsson sé líklegastur. Þessi bíll er nú hér fyrir sunnan Hafnarfjörð með bilaðan startara og líklega einn útblásturventi óvirkan en að öðru leyti gangfær.
Þótt það virðist kannski ekki ýkja dýrt að varðveita fornbíla safnast sá kostnaður þegar saman kemur, einkum ef bílarnir eru fleiri en einn. Ég ætla því að nota þetta tækifæri og spyrja hvort einhver hafi áhuga á að taka þennan bíl að sér þangað til séð verður hve mikils virði hann er.
Ég má til með að minnast á bíl sem ég tel að alls ekki megi fara forgörðum: Broncó-jöklajeppi Birgis Brynjólfssonar, "Fjalla" er einstök smíð sem ekki má fara á vergang þegar fram líða stundir. Hann leikur aðalhlutverkið í nokkrum af sjónvarpsþáttum og fréttum, t.d. þættinum "Fólk og firnindi, - Flökkusál."
![]() |
Soffíu bjargað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.