Á RÉTTRI LEIÐ.

Fréttin um jarðvarmaverkefnið í Afríku er einhver ánægjulegasta frétt sem ég hef lengi heyrt því að svona útrás var eitt helsta áhersluatriði Íslandshreyfingarinnar frá upphafi. Þegar ég flaug lágt á lítilli flugvél yfir þvera og endilanga Eþíópíu á sínum tíma opnaði það mér alveg nýja sýn. Við blasti að þetta örfátæka land býr yfir mikilli orku sem hægt yrði að nýta með miklu minni umhverfisáhrifum en hér á landi. 

Að meðaltali hefur hver Eþíópíubúi aðeins 0,5 prósent af meðaltekjum hvers Íslendings. Hungur, fátækt og misskipting auðs eru í raun stærsta vandamál og skömm mannsins. Um allt landið mátti sjá fólk í strákofum þar sem reykurinn stóð upp úr eldstæðum bláfátæks fólks. 

Hvert megavatt sem virkjað er í þriðja heiminum skilar fólkinu þar svo margfalt meira verðmæti á hvern mann en hér á landi að ekkert getur að mínum dómi réttlætt þá sjálfhverfu hugsun sem falist hefur í ríkjandi stóriðju- og virkjanastefnu.

Þessi útrás til hjálpar þurfandi heimi og til gagns fyrir baráttuna gegn afdrifaríkum loftslagsbreytingum gerir margt í senn. Hún verður okkur til sóma og gagnast þeim þjóðum sem mest þurfa á því að halda  að njóta nýrrar orkuöflunar. Hún færir okkur þakklæti og virðingu. Auk þess munum við sjálfir hagnast ríkulega.

Íslensk náttúra hefur svipaða sérstöðu gagnvart náttúru annarra landa og frægustu myndastytturnar hafa gagnvart hversdagslegri hlutum úr sama efni, - eða til dæmis hvolfþök frægustu bygginga hafa gagnvart hversdagslegri munum úr kopar.

Ef skortur væri á kopar í heiminum, myndu menn þá byrja á því að taka koparinn úr hvolfþökum frægustu kirknanna og bræða hann?

Eða bræða fyrst frægustu stytturnar? 

Því hefur verið haldið á lofti að við verðum að virkja af kappi hér heima til þess að viðhalda tækniþekkingunni og bæta hana. Þetta hljómar í mínum eyrum líkt og að segja, að ef lækni í Grímsey hafi tekist að finna upp nýja aðferð við skurðlækningar þá verði hann að viðhalda þessari þekkingu með því að  hamast  fyrst og fremst á fólki þar, - annars missi hann tæknilegt forskot sitt. 

Auðvitað er þetta öfugt, - og tækniforskotinu í virkjun jarðvarma verður best viðhaldið með því að reyna aðferðina sem víðast við mismunandi aðstæður þar sem þörfin er líka mest.

 


mbl.is REI hyggst verja níu milljörðum til jarðvarmaverkefna í Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Heyr, heyr Ómar. Já, þetta er alveg stórkostlegt! Það verður spennandi að fylgjast með þessu fyrirtæki Reykjavík Energy Invest og þessu verkefni þeirra í Afríku. Þetta gæti gjörbreytt mörgu fyrir fjölda manns þarna suðurfrá. Þori ekki að taka sterkar til orða, en maður fyllist von og bjartsýni þeim til handa

Ragnhildur Jónsdóttir, 29.9.2007 kl. 00:59

2 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Hmm, þú vilt ekki virkjanir og stóriðju á Íslandi en fagnar því að hægt verði að virkja í Afríku. Finnist næg orka í Eþíópíu þá máttu bóka að þar verður reist stóriðja - jafnvel miklu fyrr en "venjulegir" íbúar fá til sín rafmagn í sjónvörpin og ryksugurnar. Þessir gæjar sem eru að leita að orku í Afríku eru varla í neinni góðgerðastarfsemi - eða hvað? Ertu virkilega svo bláeygur að trúa því?

Nei, finnist orka í þróunarlöndum Afríku þá munu alþjóðlegir auðhringar sölsa hana undir sig og nýta hana í gróðaskyni fyrir sjálfa sig. Þegar við bætist síðan stjórnkerfi á brauðfótum, spilling og fleira þá er nokkuð ljóst hvernig niðurstaðan verður.

Síðan er þá boðskapur þinn - virkið endilega sem mest þið getið út um allan heim og helst í vanþróuðum ríkjum í þriðja heiminum - bara ekki hér á Íslandi. Af hverju eru falleg jarðhitasvæði  og ósnert náttúra í Eþíópíu minna virði en slík svæði á Íslandi?

Magnús Þór Hafsteinsson, 29.9.2007 kl. 12:00

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Hvað með gufuna sem kemur frá þessum gufuorkuverum ásamt vetnisvélum og eykur grænhúsa vandamálið. Gleyma allir því að það er gufan sem er stærsti valdur að grænhúsa hvata sem eykur hitan og svo koll af kolli. 

Valdimar Samúelsson, 29.9.2007 kl. 13:07

4 identicon

"Hvað með gufuna sem kemur frá þessum gufuorkuverum ásamt vetnisvélum og eykur grænhúsa vandamálið. Gleyma allir því að það er gufan sem er stærsti valdur að grænhúsa hvata sem eykur hitan og svo koll af kolli."

Gleymir fólk að 90% af Co2 kemur frá hafinu og að maðurinn hefur smávægileg áhrif á heildarmagn þess? 

Right back at ya :P 

Geiri (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 14:42

5 Smámynd: Kristján Pétursson

Er Valdimar gufan sem leggur yfir Bláa Lónið heilbrigðislegt vandamál? Er gufan frá orkuverunum óholl heilsu manna? Væri ekki rétt af þér að skilgreina fyrir okkur hvaða hvaða efni það eru í gufunni ,sem eru hættuleg heilsu manna?

Kristján Pétursson, 29.9.2007 kl. 17:33

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fékk í sumar í hendurnar stóra myndabók með 100 undrum veraldar. Minnihluti þessara undra er náttúruleg undur, hitt eru merkustu byggingarnar svo sem Taja Mahal á Indlandi. Númer eitt í Evrópu í þessari bók er eldvirka svæðið á Íslandi.

Þegar litið er yfir þau svæði í þróunarlöndunum þar sem til greina kemur að virkja, t. d. í Eþíópíu, sést að ekkert hliðstætt finnst þar sem er í sömu hættu á umturnun eins og eldvirka svæðið á Íslandi. 

Á sínum tíma var ég fylgjandi stóriðjunni í Straumsvík vegna þess hve við Íslendingar voru skammt á veg komnir, algerlega háðir sjávarfangi, bjuggum í landi malarveganna og urðum að virkja fyrir almenn not. 

Nú er öldin önnur og við tími stóriðju með síversnandi umhverfisspjöllum er liðinn.

Í landi þar sem tekjur fólks eru innan við eitt prósent af tekjum okkar myndi stóriðja að sjálfsögðu koma sér mun betur en hér, rétt eins og að það var rétt að mínu mati að fá hana hingað til lands á sínum tíma.

Sú afstaða sem þú setur fram minn kæri Magnús hryggir mig en breytir ekki neinum um þann vinarhug sem ég ber til þín síðan við vorum um stóriðjuvíking í Noregi fyrr á árum og gengum saman í Jökulsárgöngunni.  

Ómar Ragnarsson, 29.9.2007 kl. 17:40

7 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Þú þarft nú ekkert að setja upp hryggðarstút þó ég spyrji þig eðlilegra og gagnrýnna spurninga sem vakna við lestur pistla þinna.

Magnús Þór Hafsteinsson, 29.9.2007 kl. 18:28

8 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það er stórvirkjun í deiglunni í Kongófljóti, Grand Inga.  Landsvirkjun er eitthvað að bera víurnar í fyrirtækið sem stendur að því, Eskom.

Pétur Þorleifsson , 29.9.2007 kl. 19:27

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jæja, Magnús minn Þór, skoðanaskipti eru alltaf af hinu góða, það segirðu satt, og við höldum áfram að líta inn hjá hvor öðrum eins og hingað til í góðum gír.

Ómar Ragnarsson, 29.9.2007 kl. 21:19

10 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Gamlir fréttamenn eiga að spyrja beittra spurninga þó mikið skorti oft á að þeir nýrri geri það .

Magnús Þór Hafsteinsson, 29.9.2007 kl. 21:21

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hérna spyr Kristinn Pétursson hvað sé svona óholt við vatnsgufur. Ég get upplýst hann um það að það er ekkert óholt við þær, en þær eru hins vegar aðal orsakavaldur gróðurhúsaáhrifanna, langstærsti orsakavaldur meira að segja. Co2 er heldur ekki eitruð lofttegund, heldur bráðnauðsynleg svo líf geti þrifist á jörðinni í þeirri mynd sem við þekkjum það en Co2 er einnig gróðurhúsalofttegund (sem betur fer). Sú aukning sem verður á losun Co2 í náttúrunni vegna hlýnunar um 1-2 gráður er meiri en er af mannavöldum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2007 kl. 04:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband