5.10.2007 | 23:14
HVAÐ EIGA MARGIR AÐ FARA Í FÝLU?
Bloggfærsla doktors Gunna um það hneyksli að hann skuli ekki vera boðsgestur við súluvígslu Yoko Ono litar hversdaginn skemmtilega þessa dagana því að kannski fara þá einhverjir fleiri að pæla í því af hverjum þeim var ekki boðið. "Engin vil ég hornkerling vera" sagði Hallgerður á sínum tíma og þörf fólks við að máta sig hvert við annað hefur ekkert breyst.
Ég fattaði ekki að ég hefði ekki fengið boðskort fyrr en ég sá bloggið Gunna og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég var fyrsti Íslendingurinn sem söng Bítlalag inn á hljómplötu. Það var lagið "Twist and Shout" með íslenskum texta: "Karlarnir heyrnarlausu" líklega árið 1964 eða 65.
Sömuleiðis söng ég inn á plötu um svipað leyti fyrsta lag og texta sem gert var sérstaklega um Bítlana. Það hét "Bítilæði", því þetta var svo snemma á ferli Bítlanna að orðið Bítlaæði var ekki enn búið að ryðja sér til rúms.
Hugsanlega var það fyrsta lag gefið út á hljómplötu í heiminum sem fjallaði sérstaklega um Bítlana.
Mér nægir alveg að vita af fyrrnefndum staðreyndum og boðskort út í Viðey breytir engu um það og skiptir engu máli í því sambandi.
En ég heyri út undan mér að það er vaxandi áhugamál margra hverjir verði þarna og eigi möguleika á að komast í Séð og heyrt og baða sig í ljósi súlunnar miklu á alla lund.
Upprennandi spurning næstu daga er því hve margir eigi kröfu á því að fara í fýlu vegna þess að þeim var ekki boðið.
En hvers vegna skiptir það einhverju máli? Amma mín sem var Skaftfellingur og komst í návígi við Kötlugosið sagði mér svo margt og mikið frá því að ég hef alla tíð síðan beðið eftir því að sú gamla gysi aftur.
Þetta vita sumir mér nákomnir og spyrja mig hvort það yrði ekki agalegt ef ég væri nú erlendis þegar næsta Kötlugos dyndi yfir.
Ég svara þeim með því að þetta skipti í raun engu máli, - ég hafi hvort eð er misst af svo mörgum stóratburðum sem ég hefði viljað upplifa á staðnum.
Þannig missti ég af því þegar breski herinn sté á land 1940, missti af Kötlugosinu 1918, Jörundi hundadagakonungi 1809 og flutningi Fjallræðunnar. Og ég á hugsanlega eftir að "missa af" einhverjum stóratburðum eftir minn dag.
"Missið ekki af" heilkennið er að verða mikill streituvaldur á daglega lífinu, - í fjölmiðlum er tönnlast á setningum eins og "missið ekki af Kastljósi", missið ekki af Kompási", missið ekki af þessari sýningu eða hinni, missið ekki af tækifærinu til að kaupa þetta eða hitt.
Þetta ærir upp í okkur tómleikatilfinningu og svekkelsi að geta ekki höndlað þetta allt og getur endað með því að við missum af því stærsta, - eðlilegu lífi og því að njóta hvers dags sem okkur er gefinn án þess að okkur finnist sífellt að við séum að missa af svo mörgu eða að við séum sífelld rænd einhverju sem skiptir í raun svo litlu máli miðað við það krefjandi og heillandi verkefni að vera bara til og reyna að gera lífið innihaldsríkara og skemmtilegra.
![]() |
Dr. Gunni fékk ekki boðskort |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
mig minnir að þú hafir tekið bítlalag þegar ég heyrði í þér fyrst svona um 1969-1970 man það ekki alveg, í gamla íþróttahúsinu á Laugum um verslunarmannahelgi.
Hallgrímur Óli Helgason, 5.10.2007 kl. 23:22
Mikið assskoti sem ég er sammmála þér Ómar, Er að verða vitlaus af öllu þessu áreiti um að missa ekki af þessu eða hinu, reyni fólk að eltast við þetta, eða ef það lætur það hafa of mikil áhrif á lí sitt, missir það af lífinu sjálfu
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 6.10.2007 kl. 02:20
Ég skal taka undir það að þú ert einn af "aðalbítlum" þjóðarinnar. En hvaða xxxxx máli skiptir hvort þér eða einhverjum öðrum er boðið á súluvígsluna. Fyrir mína parta þá hefði ég frekar boðið mér sjálfri heldur en Paul eða Ringo, enda miklu skemmtilegri manneskja þar á ferð ;)
V (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 03:18
Góð heimspekileg pæling hjá þér Ómar! Maður missir ekki af neinu því maður er alltaf einhvers staðar að gera eitthvað. Maður getur reyndar misst af lífinu ef maður lifir ekki í núinu! kv. B
Baldur Kristjánsson, 6.10.2007 kl. 09:50
Smá villa í upphafi: Það var Hallgerður en ekki Bergþóra!
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 10:22
Takk, Guðmundur, leiðrétti þessa ferlegu innsláttarvillu snarlega. Ég segi innsláttarvillu því að Hallgerður er að mörgu leyti í miklum metum hjá mér vegna þess að ég held að hún hafi ekki fengið að njóta sannmælis.
Einhver viturlegasta setning Íslendingasagnanna er þegar hún neitar Gunnari um hárlokkinn með þessari röksemd ef ég man rétt: "Eigi hirði ég um hvort þú verð þig lengur eða skemur."
Hallgerður gerir sé grein fyrir því að Gunnar er ekki aðeins lögbrjótur með því að neita að undirgangast upp kveðinn dóm, heldur berst hann vonlausri baráttu. Menn komust yfirleitt ekki upp með það að hlíta ekki útlegðardómum, - það hefði verið slæmt fordæmi fyrir þess tíma réttarfar.
Hallgerður bjargar því mannslífum með því að koma í veg fyrir að framlenging vonlausrar baráttu Gunnars verði til þess að fjöldi manns liggi í valnum áður en hann sjálfur verður drepinn.
Ómar Ragnarsson, 6.10.2007 kl. 14:10
Og hvað sagði yfirbítillinn heitinn "Life is what happens to you while you are bussy making other plans" Hann vissi hvað hann söng. Lífið hendir Dr Gunna þegar hann situr sveittur og horfir á sjónvarpið á meðan boðsgestir súpa koktela útí viðey. Hann er ríkur maður.
Þú líka, og leifist mér að seigja snillingur!
Takk fyrir allt kæri Ómar Ragnarsson.
Ps. Þrjú hjól undir bílnum.
Gunnhildur Hauksdóttir, 6.10.2007 kl. 20:12
Ætli þú endir ekki í kótilettupartíinu með mér og Dr. Gunna úti við Köllunarklett á þriðjudagskvöldið
. Þegar ekki er boðið þá heldur maður boðið. Takk fyrir pistil.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.10.2007 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.