15.10.2007 | 16:22
F-LISTI FRJÁLSLYNDRA OG ÓHÁÐRA.
Það virðist vefjast fyrir mörgum hvers eðlis aðild F-listra frjálslyndra og óháðra sé að nýju borgarstjórnarsamstarfi. Menn geta svo sem túlkað þetta í ýmsar áttir en þó hygg ég að rétt sé hafa eftirfarandi í huga:
Þessi umræddi listi var kjörinn 2006 áður en Íslandshreyfingin varð til. Fimm af sex efstu mönnum hans sögðu sig úr Frjálslynda flokknum á útmánuðum 2007.
Efsti maður listans er í leyfi. Margrét Sverrisdóttir er réttkjörinn varamaður hans og saman hafa þau átt hlut í myndun nýs meirihluta borgarstjórnar.
Margrét Sverridóttir er varaformaður Íslandshreyfingarinnar og hennar samherjar í Íslandshreyfingunni að Ólafi frátöldum (sem hefur verið í leyfi frá stjórnmálastörfum) voru ofarlega á I-listanum við síðustu alþingiskosningar og háðu harða kosningabaráttu.
Margrét hefur sagt að stefna Íslandshreyfingarinnar sé sú stefna sem hún hefði viljað að Frjálslyndi flokkurinn hefði. Það á til dæmis við um stóriðjumálin en Ólafur F., Margrét og samherjar þeirra í borgarstjórn héldu uppi mjög öflugum málflutningi í umhverfismálum í borgarstjórn og stóðu þá vakt öðrum betur.
Þetta urðu þau að gera í minnihlutaaðstöðu og þess vegna hlýtur það að vera gleðiefni ef sjónarmið þeirra eiga möguleika á meiri framgangi í meirihluta en minnihluta.
Þrátt fyrir að upp kæmi ný staða hjá fólkinu á F-listanum í fyrravetur hefur sá hópur sem unnið hefur mest fyrir listann í borgarstjórn haldið áfram starfi sínu í borgarmálum án þess að riðlast. Dæmi þar um er að einn fulltrúa listans í nefndum borgarinnar er félagi í Frjálslynda flokknum. Það er eðlilegt, miðað við það að listinn er kenndur við frjálslynda "OG ÓHÁÐA".
Ólafur F. Magnússon tók upphaflega sæti á F-lista sem óháður og saga og nafn listans sýnir það eðli listans að hann er ekki rígbundinn við flokka.
Um kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum gildir hið sama og um alþingismenn: Þetta fólk er einungis skylt að fylgja sannfæringu sinni og starfa í samræmi við stjórnarskrá og önnur lög. Enginn stjórnmálaflokkur "á" þetta fólk.
Ég sé hins vegar ekkert óeðlilegt við það að mér og fleirum í Íslandshreyfingunni líki það vel að gott fólk sem ég hef kynnst vel að góðu einu komist í aðstöðu til að berjast fyrir framgangi hugsjóna sinna.
Vægi mála er misjafnt í sveitarstjórnum og á landsvísu og sömuleiðis getur samstarf flokka verið mismunandi.
Minnt hefur verið á það í umræðunni að flugvallarmálið hafi verið aðalmál F-listans í síðustu borgarstjórnarkosningum og verði það væntanlega áfram. Ekki liggur fyrir hvernig því máli verður landað í nýju samstarfi en ég sé ekki að því verði ráðið endanlega til lykta á næstu 2,5 árum vegna þess að fyrir þann tíma liggja ekki fyrir nauðsynlegar upplýsingar.
Á Umhverfisþingi kom fram að unnið sé að friðun Skerjafjarðar og að því máli koma fimm bæjarfélög. Hvað varðar flugvöll á Lönguskerjum er það mál því langt frá því að vera leyst.
Það virðist vefjast fyrir sumum hvert fylgi Íslandshreyfingarinnar hafi verið og voru nefnd tvö prósent í þættinum Mannamáli í gærkvöldi. Íslandshreyfingin fékk hins vegar 4,85% fylgi í Reykjavík í alþingiskosningunum og 3,3% á landsvísu.
Fylgi I-listans hefði nægt til að koma tveimur þingmönnum að í Reykjavík ef ekki hefði verið settur þröskuldur sem kom í veg fyrir 6000 kjósendur fengju fulltrúa miðað við fylgi á við aðra landsmenn.
Athugasemdir
Stjórnmálasamtök eru baráttutæki fólks með samræmdar pólitískar skoðanir. Valdir eru í forystu á framboðslista þeir einstaklingar sem sátt er um að séu best til þess fallnir að beita sér í þeim málum sem heitast brenna á fólkinu í flokknum hverju sinni.
Þegar sitjandi fulltrúi stjórnmálaafls í sveitarstjórn eða á Alþingi yfirgefur flokk sinn og gengur til liðs við annað pólitískt baráttuafl hættir hann að vera fulltrúi þeirra sem hann þáði af sitt umboð. Þetta á ekki að vera efni til deilna, svo skýrt sem það er.
Margrét Sverrisdóttir yfirgaf flokk þann er bauð hana fram til baráttu fyrir hans pólitísku áherslumálum. Hún yfirgaf hann með heiftarorðum og að margra mati ómaklegum ásökunum. Með henni fór einnig nokkur hópur stuðningsfólks svo nú á hún ekki bakland hjá mestum hluta þeirra sem hún starfar í umboði fyrir.
Þess vegna eru litlar sem engar líkur á því að hún verði fulltrúi pólitískra baráttumála Frjálslynda flokksins á þessu kjörtímabili. Hún hefur ekki talið sér skylt að gefa okkur skýrslu um störf sín né heldur hefur hún leitað eftir nýjum áherslum hjá sínum umbjóðendum.
Á þeim dögum er Gunnar Örlygsson yfirgaf Frj. fl. gekk Margrét fram fyrir skjöldu sem framkvæmdastjóri flokksins og fordæmdi svo sem hún kunni best það athæfi. Hún kærði til Umboðsmanns Alþingis og það var móður í konunni vegna brennandi siðgæðiskenndar. Allt það mál hefur verið rakið á bloggsíðum hér og bréfið birt í heild.
Niðurstaða Umboðsm. Alþ. var á þá lund sem þú rekur hér ofar.
Þessi niðurstaða er dæmigerð um þau álitaefni sem falla undir máltækið: Löglegt en siðlaust.
En getur þú svarað spurningunni um það hvort Margrét verði áfram forseti borgarstjórnar þegar/ef Ólafur F. Magnússon kemur inn sem aðalmaður F listans?
Verðum við þá kannski með tvo fulltrúa í þeim ágæta klúbbi?
Ég verð að bæta því við að þó pólitískar leiðir okkar M.Sv. skildi þá ber ég ennþá einhverja barnalega hlýju í brjósti til hennar. Hún er bráðgreind, vel máli farin og frá henn stafar ferskum andblæ. Hana vantar að mínu mati þá traustu skapgerð og andlega jafnvægi sem fólk í pólitískri forystu þarf að vera gætt.
Og frásagnir hennar um atburði þá sem leiddu til andstöðu við fyrri félaga voru vægast sagt, ja svona pínulítið eitthvað?????
Árni Gunnarsson, 15.10.2007 kl. 17:14
Munurinn á Gunnari og Margréti er mikill. Gunnar gekk liðs við flokk sem var með gersamlega andstæða stefnu í stærsta málinu, kvótamálinu.
Eins og ég rek hér að framan héldu Ólafur og Margrét og þeirra samherjar í borgarstjórn uppi öflugum málflutningi í umhverfismálum og munu væntanlega gera það áfram eftir bestu getu.
Það er mikill munur á því eða að hlaupa fyrir í annan flokk með gerólíka stefnu.
Ómar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 17:36
Æ Ómar minn - þú hefðir betur látið vera að skrifa þennan pistil. Nú fórstu alveg með það.
Magnús Þór Hafsteinsson, 15.10.2007 kl. 18:07
Fyrirgefðu minn kæri Magnús Þór en það væri hálf aumlegt af minni hálfu að að leggja ekkert í púkkið í þessari umræðu. Drögum nú aðeins að okkur andann og teljum upp að tíu.
Ég hef engan áhuga á því að stofna til leiðinda í þessu máli og finnst það bara gott ef sá hópur sem á sínum tíma stóð í ströngu við að ná meira en tíu prósenta fylgi fyrir F-listann hefur þroska til að halda áfram þótt ekki séu allir í sama flokki eins og nafn listan gefur raunar til kynna.
Ég ber fulla virðingu fyrir árangri þessa fólks í maí 2006, hvar í flokki sem það kann að standa nú, og ég vona bara að aðstandendurnir, hvort sem þeir eru nú í Frjálslynda flokknum, óháðir eða í Íslandshreyfingunni, standi við bakið á F-lista fólkinu þegar það eygir nú í fyrsta sinn möguleika á að komast í betri aðstöðu til áhrifa en meðan það var í minnihluta.
Aðalatriðið í mínum huga er að þetta fólk sem nú ber fram sín mál í nafni F-listans sé málefnalega samstíga í þeim málum sem eru á borðum borgarstjórnar.
Ómar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 19:22
Eiginlega sammála þessari síðustu málsgrein Ómar.
Í mínum huga er það afar mikilvægt að borgarfulltrúar valdi umbjóðendum sínum sem allra minnstum skaða með aulahætti.
Bestu kveðjur!
Árni Gunnarsson, 16.10.2007 kl. 00:19
Kristinn Gunnarsson og Valdimar Leó - hvað er um þá að segja? Þeim var a.m.k. tekið fagnandi inn í Frjálslynda flokkinn þegar þeir stukku úr sínum flokkum.
Auður (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.