17.10.2007 | 10:15
YFIRBORÐSKENND TALA
Tölur um fleiri vinnustundir karla en kvenna á vinnumarkaðnum kunna að vera réttar en segja þó aðeins hálfa sögu og geta því gefið ranga mynd. Það er nefnilega unnið víðar en á vinnumarkaðnum, - það er vinna að ganga með börn, fæða þau og klæða og sjá um þau á heimilunum, - annast um þau og fjölskylduna. Þessi vinna kynjanna er ekki inni í tölunum um "vinnuna" og ég er ansi hræddur um að hlutföllin kynnu að breytast ef öll vinna yrði tekin með í reikninginn.
Gott dæmi um yfirborðskennda tölu er talan um þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur og dæmisagan um ráðskonuna, sem giftist karlinum sem hafði hana í vinnu og vinnur eftir það á heimilinu sem húsmóðir án sérstakra launa fyrir það.
Við þennan eina gerning, hjónaband, minnka þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur sem svarar launum ráðskonunnar og sömuleiðis fækkar þeim vinnustundum sem teknar eru með í reikninginn í könnunum eins og þeirri sem nú er í fréttum.
Raunveruleg vinna hennar vex við barneignir á stækkandi heimili þótt opinberu tölurnar sýni að vinnuframlag hennar hafi ekki aðeins minnkað, heldur horfið!
Hálfsannleikur getur stundum verið verri en lygi.
Karlar vinna tíu stundum meira en konur á viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Munurin samsvarar nánast algerlega hinum "óskýrða launamun kynjanna" hvort það sé hins vegar sú vinna sem unnin er inn á heimilum veit ég ekki og þá er það spurning - ættum við að greiða konum 15-20% hærri laun til að mæta vinnu þeirra við barneignir?
Davíð Davíðsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 10:25
Ert þú semsagt að segja að karlar geri ekki þau störf lika(að undaskildu að ganga með börnin). Samfélagið hefur breyst og það hefur aukist að menn séu "húsmæðurnar" á heimilinu. Mér finnst bara kjánalegt að fara blanda þessu alltaf inn í málin. Og jafnvel þó að karlinn sé að vinna allan daginn, þá tekur hann oft á tíðum jafnan þátt í vinnu fjölskyldunnar í frítímunum, það er krafa sem konur setja í dag. Þannig ef þú ferð að setja allar tölurnar inn í málin, þá þarf ekki að vera að þær verði mikið öðruvísi.
mbk
Óli
Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 10:36
Já, ætli það sé ekki vænlegra til árangurs í jafnréttisbaráttunni, að skoða hversu margar borgaðar vinnustundir eru unnar af körlum og konum, frekar en að berja höfðinu endalaust við stein með því að benda bara á mismun útborgaðra launa sem "sönnun" á því að jafnréttinu sé ekki náð.
Fransman (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 10:40
Takk fyrir athugasemdirnar. Bendi á orðalag mitt "þessi vinna kynjanna" þegar ég tala um vinnuna inni á heimilunum og í tengslum við fjölskyldulífið.
Dæmið sem ég tek miðast við gamla tíma, rétt er það, en það sýnir samt að sé vinnuhlutfall kynjanna þannig að konur vinni meira af heimilisstörfum en karlar þá breytast tölurnar um "vinnuna."
Ég held nú að þrátt fyrir allt jafnréttistalið vinni konur mun meiri ólaunuð umönnunarstörf en karlar og að það geti í heildina hallast á okkur, strákar mínir, þegar upp er staðið.
Ómar Ragnarsson, 17.10.2007 kl. 10:51
Ólaunuð ummönnunarstörf! held ég hafi unnið minn skerf af ólaunuðum félagsstörfum, bíóferðir, veiðiferðir, gönguferðir ....
Auðvitað er þetta ekki vinna í sama skilningi og við tölum almennt um vinnu Ómar - það er skemmtilegasta starf sem ég hef haft um dagana þegar ég var heima að annast ungan son minn
Davíð Davíðsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 11:02
Ég er sammála Ómari varðandi það að ef allt væri talið kæmi líklega í ljós að konur ynnu meira á heimilum af því að karlar eru meira að heiman í launaðri vinnu, þó þessi munur hafi farið minnkandi síðan 1950.
Það hjóna sem er heimavinnandi sveltur þó jafnan ekki heilu hungri heldur er samkomulag milli aðila um báðir njóti góðs af vinnu hins
Oddgeir Einarsson, 17.10.2007 kl. 11:03
Þú talar eins og karlar lifti ekki litla fingri á heimilinu þegar þeir koma úr vinnu. Ég veit ekki hvernig þetta er heima hjá þér en miðað við það sem ég sé þá liggur nú bara ansi mikil "heimavinna" á herðum þeirra karla sem ég horfi á.
Reyndar hef ég einnig rekist á erlendar rannsóknir sem benda til þess að þegar allt er tekið inn í s.s. garðstörf, viðhalda á húsi og húsbúnaði, umsjón bifreiða heimilisins o.s.fv. þá halli nú bara einmitt á karla, þ.e. þeir vinna meira úti og meira á heimilinu!
Svo getur nú verið gaman, í andrúmslofti kynjaréttrúnaðarins sem hér ríkir, að benda á það að mörg af þeim heimilisstörfum sem gjarnan er talað um að hvíli á konum eru alveg ótrúlega einföld. Sennilega er þvottavélin það flóknasta sem hin dæmigerða húsmóðir kemst í tæri við á heimilinu. (tók mig hálftíma að læra á mína).
Með fullri virðingu Ómar, við karlar þurfum ekki á svona blammeríngum að halda - við fáum nóg af þeim frá konum svo þú sért nú ekki að leggjast á árarnar líka.
Borat
Borat (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 11:18
Ég fæ ekki séð að þessi tala sé yfirborðskennd þar sem það ætti að vera öllum ljóst að hér er hagstofan ekki að reikna hvaða störf eru unnin heima hjá fólki. Það er að sjálfsögðu ekki á ábyrgð vinnuveitenda að greiða fyrir heimilisstörf sem starfsmenn vinna í "frítíma". Án þess að gera lítið úr þessu, þá eru heimilisstörf unnin í eigin þágu og geta því ekki með neinu móti verið borin saman við störf sem eru unnin í þágu atvinnurekanda.
Plato (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 11:18
Eru störf utan heimilis ekki unnin í eigin þágu?
Eru uppeldisstörf ekki unnin í þágu þjóðfélagsins alls eins og kennslustörf?
Ómar Ragnarsson, 17.10.2007 kl. 12:35
Ef konan vinnur mikið meira á heimilinu heldur en karlinn þá er það vandamál sem þarf að leysa innan fjölskyldunnar. Karlinn getur þá kannski lagt meira af fjármunum til heimilishaldsins á móti eða eitthvað. En það er algerlega vandamál fjölskyldna en ekki samfélagsins.
Líkt og þegar konur fóru að vinna meira úti þá fóru feður að hugsa meira um börnin, þvo þvott og gegna almennum heimilisstörfum. Ég held að það sé mikið auðveldara fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig að átta sig á því hvað er sanngjarnt í þessum efnum heldur en að reyna að færa mat á það hversu mikið af heimilisstörfum konur vinni fram yfir karla og borga þeim í samræmi við það.
Er það ekki?
Ellert Smári Kristbergsson, 17.10.2007 kl. 12:58
Sérhver starfsmaður vinnur auðvitað í þágu atvinnurekanda, staðreyndin að menn fá greitt fyrir það breytir ekki þeirri staðreynd að starfsmaðurinn starfar áfram í þágu atvinnurekanda, því að atvinnurekandi er ekki að ráða til sín starfskraft til að vinna í eigin þágu.
Hitt er svo annað mál að það er hugsanlega hægt að færa rök fyrir því að starfsmaðurinn sé einnig að vinna í eigin þágu með því að fá borgað, en þó væri þar af leiðandi órökrétt að álykta að þegar sá starfsmaður vinnur svo heima hjá sér í eigin þágu án þess að fá borgað að um sambærilegt tilfelli sé að ræða.
Smá logík - í fyrra tilfellinu þá væri starfsmaðurinn eingöngu að vinna í þágu atvinnurekanda ef hann fengi ekki umbun fyrir hans verk, en þar sem hann vinnur heima í eigin þágu án þess að fá umbun, eru þessir hlutir ósambærilegir.
Þar með er lógískur grundvallarmunur á t.d. verk sem eru unnin í eigin þágu og verk sem eru unnin í þágu atvinnurekanda.
Og að lokum. Uppeldisstörf eru að sjálfsögðu unnin í þágu þjóðfélagsins (borgin/ríkið tekur að sér atvinnurekandahlutverkið hér), sem og kennslustörf, þannig að starfsmaðurinn er í raun ekki að vinna í eigin þágu þrátt fyrir að fá greitt fyrir þessa vinnu, sem er auðvitað í fullkomnu samræmi við það sem ég hef verið að segja og ég þakka þér fyrir að styðja mig í þessu.
Plato (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 13:07
"Tekið skal fram að um launaða vinnu er að ræða á vinnumarkaði."
Þetta er nú tekið fram neðst í fréttinni. Stundum er talað um meðallaun á vinnumarkaði og þá tekin heildarlaun án tillit til fjölda vinnustunda. Aðferð sem að mínu mati á alls ekki að beita þegar komast að einhverri vitrænni niðurstöðu t.d. um launamun kynjanna.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.10.2007 kl. 15:01
Ég er alveg 100% sammála þér Ómar. Þetta er mjög yfirborðskennd tala.
Ég samgleðst þeim sem hjálpa til á heimilinu og skipta verkum jafnt á milli sín. En það er bara staðreynd að í aldanna rás hefur konan unnið mun meira á heimilinu en karlar. Þó svo að það séu kannski ekki neinar tölur sem staðfesta þetta, þá vita allir þetta innst inni. En vonandi er þetta að mjakast í rétta átt.
Alltaf þarf að styðja allan málflutning með tölum, alveg ótrúlegt.
Friðrik. (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 16:10
Takk fyrir þetta, Ómar. Ætlaði að blogga um sama efni en hérna sagðir þú allt sem ég vildi sagt hafa. Bara betur.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 18.10.2007 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.