TVINNBÍLAR, - VIL SJÁ ALLAN PAKKANN.

Uppgefnar tölur um eyðslu og útblástur tvinnbíla segja ekki allt. Þeir eru flóknir og dýrir í framleiðslu og þess vegna þyrfti að reikna út hve mikla aukaorku, útblástur og not hráefna þarf til að framleiða hvern bíl. Þeir eru þyngri vegna rafgeymanna en sambærilegir bílar hvað eyðslu og útblástur snertir og slit hjólbarða og búnaðar meiri. Þeir taka meira rými á götunum sem aftur þýðir meiri kostnað, umferðartafir og þar með útblástur en ef minni bílar væru notaðir.

Bendi á ágætar tölur sem kollegi minn Sigurður Hreiðar er með á sinni bloggsíðu.

Fyrir meira en tíu árum gerði Toyota langtímaáætlun sem Japanir eru snillingar í. Á sama tíma og GM hætti við smíði frábærs tvinnbíls vegna þess að hann yrði fjárhagsleg byrði, tók Toyota forystuna og setti Prius á markað þótt fyrirsjáanlegt tap yrði á framleiðslu hans í allt að áratug.

Fleira gerðu þeir sem þeir áætluðu að myndi borga sig síðar og nú uppskera þeir á þann hátt að flestir sérfræðingar telja að þeir muni á næstu árum bruna fram úr GM sem stærsti bílaframleiðandi heims.

Íslensk stjórnvöld eru að mínu mati enn með flest niðurum sig í þessu efni. Dísilbílar eyða mun mina en bensínbílar og munurinn er meiri hér á landi en erlendis vegna lágs lofthita, en í kuldum eykst eyðsla benzínvélanna mun meira en dísilvéla.

Fyrir því hef ég meira en áratugs reynslu. Í stað þess að ívilna dísilbílunum eins og aðrar þjóðir gera er ríkissjóður í skammsýnni græðgi sinni á fullu í því að halda hér uppi hæsta verði á dísilolíu sem þekkist í heiminum.

Enn er haldið hér uppi ívilnunum gagnvart svonefndum "pallbílum" sem gerir það að verkum að hægt er að fá nýjan stærðar fernra hurða pallbíl fyrir rúmar 2,6 milljónir króna. Slegið er af meira en hálfri milljón af hverjum bíl og enn meira þegar bílarnir verða stærri, t. d. Cadillac- og Chevrolet-pallbílar sem eru í raun risastrórir lúxuslimmar þótt að til málamynda sé pallur aftast á þeim.

Sagnfræðingar síðari tíma munu vafalaust velja 3ja tonna 6,5 metra pallbíl sem þjóðartákn Íslendinga á okkar tímum. Aðeins hluti þeirra sem eiga slíka bíla hefur raunveruleg not fyrir slíka dreka, t. d. við að draga stór hjólhýsi eða hestakerrur eða að stunda jöklaakstur og nota minni bíla með fyrir borgaraksturinn. Þetta myndi breytast ef þessir bílar væru tollaðir eins og löngu er orðið tímabært að gera.

Sá sem mengar og notar á að borga í réttu hlutfalli mengun og not.

En Ragnar Reykás blómstrar sem aldrei fyrr þegar hann fer að versla í Bónus "á sínum fjallabíl".

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Í þessu efni fara skoðanir okkar saman -- og þakka þér fyrir að benda á hvað ég var að segja um tvinnbílana.

Ég gæti líka haldið romsu um hvernig Íslendingar misstu af vagninum með að draga úr mengun þegar þeir skattlögðu dísilolíu svo að segja út af borðinu.

Gæti ekki verið meira sammála þér um heimilistrukkana. Þeir eru álíka stórir og mjólkurbíllinn hér í Mosó þegar ég var strákur.

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 24.10.2007 kl. 13:20

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þarft verk að vekja athygli á þessu auglýsingaskrumi.  Höfðað er til fólks sem hefur slæma samvisku sem telur að mannkynið sé að útrýma sjálfu sér með kolefnisbútblæstri.  Það er svo auðvelt að kaupa sér aflátsbréf, sbr. kolviðardelluna sem ekkert annað en illa dulbúin skattheimta sem hefur ekkert með raunveruleg umhverfismál að segja.  Ég vakti athygli á þessu í bloggi frá 6. júlí auk umfjöllunar um Kolvið frá 3. júlí.

Nær væri að hvetja fólk til að minnka notkun á eldsneyti, t.d. með notkun lítilla dísilbíla auk þess sem minnka mætti eldsneytisnotkunina mikið með breyttu skipulagi og öðrum samgöngumáta. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 24.10.2007 kl. 13:29

3 identicon

Ég er oft ekki á sama máli og þú, en nú get bara ekki annað en verið meira sammála þér, Ómar.  Hárrétt hjá þér, Ómar.   Þetta er allt saman innilega satt hjá þér hvað varðar pallbílana.  Þessi gjaldtaka hjá ríkinu af þessum ferlíkjum er svo öfugsnúin og vitlaus, að það nær engu tali.  Hvað eru stjórnvöld að hugsa og hagsmunum hverra eru stjórnvöld að þjóna með þessari skattlagningu?  Fólk notar svona mengandi ferlíki sem heimilisbíla til að skreppa út í búð eða keyra krökkunum í skóla.  Umhverfissinnar gætu með snilld kallað þessi reðurtákn fyrir akandi míni-álver - aðrir kalla pallbíla fyrir "viagra on 4-wheels". 

Páll Ólafsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 14:46

4 identicon

Hvernig væri að kynna sér þann möguleika í að breyta þessum amerísku bensínhákum í METAN bíl líkt og gert var við Dodge Dakota hjá Vélamiðstöð núna fyrir 2mánuðum.

 Það er ekki eins og það vanti pláss fyrir METAN tankana á pallinum.

sigurður

Sigurður (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 15:19

5 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll Ómar. Margt til í þessu hjá þér. Ég vil sjá ríkið leggja miklu meiri áherslu á þessa bíla sem oft eru öðruvísi. Ég nefndi það t.d. í síðustu kosingabaráttu við Jónínu Bjartmarz þáverandi umhv.ráðherra að þetta væri málið sem Ísland ætti að gera. Vera fyrsta þjóðin í heiminum sem leggur áherslu á umhverfisþáttinn að fullum hug!

Ég sá merkilega tilraun á youTube þar sem maður einn var að segja frá leið sem er í sjálfu sér gömul, en það er að nota segulstál. Núningur stálsins myndar snúning og með mörgum seglum myndast snúningur. Segullinn getur dugað í um 400 ár.

Getur verið að olíufurstarnir vilji ekki heyra á þetta minnst? Þarna væri hægt að búa til afl sem knýr með snúning og myndar orku. Merkilegt nokk... Finnst þér ekki.

Kveðja,

Sveinn Hjörtur , 24.10.2007 kl. 17:20

6 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Hér er ágætis sýnishorn á því að hægt sé að nota þessa tækni og þá kostar það ekkert að aka um á bíl....Nema þá bara tryggingar og fl. Er þetta virkilega svo einfalt?

http://youtube.com/watch?v=PFGiWiXMHn0

Sveinn Hjörtur , 24.10.2007 kl. 17:27

7 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ég er sammála þér Ómar.  Þessi skattlagning á disel er eitt ruglið sem ríkið tók upp.  Ég hef verið með bensín jeppa sem eyddi 14-15 l/100 nú er ég kominn á disel starex sem er um 2.5 tonn sá bíll er að eyða 9.3l/100 þetta sýnir að stærri bíllinn með diselvelini er að eyða minna og menga minna en bensín.  nú ætti að lækka þessa skatta á disel og fá ökumenn til að aka á disle frekar en bensín bílum.

Þórður Ingi Bjarnason, 24.10.2007 kl. 20:30

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það var einhver háskóli í bandaríkjunum held California. Þeir reiknuðu út og fundu að tvinn bílar væru allt of dýrir í framleiðslu og þar af leiðandi óhagkvæmir. Það var allt tekið með í reikninginn s.s. að eyða rafgeyma eftir líf þeirra. Ég held að þetta sé barnaskóladæmi Bíll með tvær vélar fullt af rafgeymum. Orka er orka samt hefir verið vitað frá því að Dílsel fann upp dílsel vélina að hún er hagkvæmasta brunavél sem völ er á. Ég segi áfram með dílsel og auðvita mættu þessir stjórnendur lækka verðið. Bara það myndi minnka mengun sjáið nefnilega það kostar orku að framleiða pening. Öll framleyðsla s.s. landbúnaður og sjávarútvegur notar olíu.  

Valdimar Samúelsson, 24.10.2007 kl. 21:32

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ps eins og Ómar segir Dísil er miklu stabílri í kuldum og t.d. í fjallakeyrslu

Valdimar Samúelsson, 24.10.2007 kl. 21:34

10 identicon

Margt gott getum við lært af Færeyingum.  Þar kostar lítrinn af  díselolíu  um 3/4 af því sem bensínlítrinn kostar. Þar ekki sérstakur skattur  á dísilbíla. Mikill fjöldi  smábíla í  Færeyjum er með  dísilvél.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 21:57

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir það, Ómar. Tvinnbílar eru ekki eins fullkomnir og margir halda. Svo má ekki gleyma biodiesel sem mikið er talað um. Ekki er það patentlausnin sem við erum að bíða eftir. Það kostar allt of mikla orku að framleiða þann orkugjafa.

Hér í Hollandi er skattlagningin öðruvísi en heima. Þú borgar bifreiðaskatta miðað við vélarstærð og þunga. Svo er verið að skoða kílómetragjald svo að þeir sem keyra mest borga meira. Vandamálin hér eru annars eðlis en á Íslandi, þar sem umferðarteppur eru að kæfa landið. Þess vegna er verið að tala um að fella niður skatta af mótorhjólum þar sem þau valda teppunum ekki. Teppur orsaka mikinn útblástur. Því fá kaupendur bíla sem eyða litlu skattaafslátt. T.d. fær maður 1000 evru niðurfellingu þegar keyptur er Citroen C1, Peugeot 107 eða Toyota Aero (?). Þessir bílar kosta því um 8000 evrur (691.000kr.), komnir á götuna.

En hvað er til ráða heima? Ég held að þyngd x vélarstærð ætti að ráða hversu mikið kostar að eiga bíl. Bíll sem er 900 kíló og eyðir sjö á hundraðið ætti að kosta mann helmingi minni skatta en jeppi sem er 1800 kg. og eyðir 15 lítrum.

Svo er spurningin hvort að kílómetragjald sé góð hugmynd. Er ekki alveg eins gott að skattleggja olíuna og bensínið? Sennilega ekki. Hér er rætt um GPS tækni eða myndavélar til að ákvarða hvar bíllinn hefur verið notaður. Maður borgar lægra gjald á rólegum vegum, sem vegur á móti vegalengdum sem fólk úti á landi þarf yfirleitt að keyra.

Þetta er sennilega góð lausn í Hollandi þar sem teppur eru hundruð kílómetra á hverjum degi og getur tekið þrjá tíma að keyra 70km. Á Íslandi er málið að minnka útblástur. Ég myndi því mæla með tollaafslætti á sparneytnum bílum, lækkun dísilolíu og bifreiðaskatts og tolla í jafnvægi við þyngd og vélarstærð bíls. 

Villi Asgeirsson, 25.10.2007 kl. 08:27

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt eldsneytisverðið sé hátt er það skásti skattlagningarmöguleikinn og mætti frekar hækka það og fella niður önnur og ómarkvissari gjöld í staðinn. Því eyðslufrekari bíll og því meiri akstur, þess meira borgað. Sá sem eyðir og mengar borgar í réttu hlutfalli.

Erfitt er að svindla á þessari aðferð, skattþegninn borgar beint við dæluna.

Hins vegar er koldíoxíðútblásturinn ekki alltaf í hlutfalli við eyðsluna og þess vegna gæti þurft að taka upp mengunarskatt sem miðast við útblásturinn.  

Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 13:05

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vil bæta við hugmyndinni um lengdargjald á bíla. Því lengri sem bíll er, því meira pláss tekur hann á götunni og þess meiri verða umferðartafirnar og kostnaður við gatnagerð. 

Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband