25.10.2007 | 23:29
SÓMI AKUREYRINGA, SKÖMM REYKVÍKINGA.
Flugvél flaug fyrst á Íslandi í Vatnsmýri í Reykjavík 1919. Ef allt væri með felldu stæði minnismerki um það á þessum stað við nýju Hringbrautina. Nelson og félagar hans lentu í Reykjavík í fyrsta hnattfluginu. Lindberg lenti þar líka. Zeppelin loftfarið flaug yfir Öskjuhlíðina 1930. Balbo og félagar lentu líka í Reykjavík. Súlan flaug frá Reykjavík í kringum 1930. Vagga íslensks flugs er því í Reykjavík því að flugfélag Akureyrar var ekki stofnað fyrr en 1938. En þessa sér hvergi stað í Reykjavík, - ekkert flugminjasafn, engin minnismerki.
Frá gamla flugturninum í Reykjavík var orrustunni á stórum hluta Norður-Atlantshafs stjórnað. Án sigurs í þeirri orrustu hefði engin landganga orðið í Normandí 1944 og Sovétmenn labbað vestur yfir Þýskaland.
Gamli flugturninn er í niðurníðslu og áætlanir hafa verið uppi um að brjóta hann niður. Fulltrúum Breta á Íslandi er slíkt óskiljanlegt. Ég hef séð þar í landi og í Noregi og Frakklandi hvernig menn umgangast af virðingu og stolti hliðstæðar minjar um baráttuna gegn þeirri villimennsku sem Hitler stóð fyrir.
Fyrstu stríðsárin voru Reykjavíkurflugvöllur, Skerjafjörður og Hvalfjörður miðja baráttunnar sem rekin var gegn nasistum frá Íslandi. Einu minjarnar um þetta eru varðveittar á byggðasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!
Þar stendur sjóflugvélaskýlið sem á sínum tíma var stærsta bygging Íslands og stóð í Vatnagörðum í Reykjavík.
Við ýmsar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli hafa merkar flugminjar farið forgörðum og minnisverðar flugvélar farið í uppfyllingar undir flugbrautir.
Fyrsta millilandaflug Íslendinga var farið frá Reykjavíkurflugvelli, þar lenti fyrsta þotan og ótal frægar vélar úr flugsögu heimsins hafa lent þar.
Loftleiðir voru stofnaðar í Reykjavík og frá Reykjavík hóf Björn Pálsson brautryðjendaflug sitt með sjúklinga.
Landhelgisgæslan hefur frá upphafi verið með starfsemi sína þar með tengsl við þorskastríð og fræknar bjarganir.
Svona mætti áfram telja upp ástæður fyrir því að þessarar merku sögu sæi stað í höfuðborg Íslands.
Sem borinn og barnfæddur Reykvíkingur skammast ég mín fyrir að svo er ekki.
Að sama skapi tek ég ofan hattinn fyrir Akureyringum og feðgunum á Hnjóti fyrir að reyna að bjarga því sem bjargað verður.
Fyrir tuttugu árum fannst mér skemmtilegt yfirlæti fólgið í nafninu "Flugklúbbur Íslands, Akureyri."
En það var okkur Reykvíkingum mátulegt að þeir fyrir norðan sendu okkur smá pillu sem nú er orðin að mörgum pilluglösum.
Arngrímur Jóhannsson á vafalaust drjúgan þátt í því hve sómi Akureyringa er mikill á þessu sviði.
Árans vandræði eru það að í höfuðborginni og vöggu flugsins á Íslandi skuli hvorki vera neinn Arngrímur né skilningur á þýðingu þess að varðveita söguna og menningararfinn á fleiri sviðum en þeim sem tengjast landi og sjó.
Forngripir flugsögunnar á einum stað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég tek undir þetta með þér Ómar, auðvitað ætti flugsögunni að vera sómi sýndur í Reykjavík.
Hornafjörður er líka staður sem á stóran hlut í flugsögunni og þar eru minjar um veru Breta en minjar um Bandaríska herinn voru fluttar í brotajárnshauginn hjá Hringrás fyrir nokkrum árum. Þar mætti alveg gera góða hluti fyrir flugsöguna.
Það vekur athygli mína að á þessum flugsöfnum, bæði á Akureyri og Hnjóti, eru engar þyrlur. Hvers vegna ætli það sé? Nú höfum við átt nokkrar þyrlur í gegnum tíðina en engin þeirra eða samskonar vélar eru til á safni hér á landi.
TF-EIR var af gerðinni Bell 47 J2A og er víst til í Bandaríkjunum og væri tækifæri fyrir einhver velviljaðan flugáhugamann sem hefur tök á að leggja fé í að komast yfir gripinn að gera það nú áður en vélin fer í brotajárn.
Við verðum líklega að taka okkur til við tveir og reyna að koma málum í farveg hérna í Reykjavík svo flugsögunni verði gerð góð skil á þann máta sem henni ber.
Kveðja, Karl.
Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 00:04
Já, merkilegur sofandaháttur yfir þessu. Þú segir í pistlinum:
"Fyrstu stríðsárin voru Reykjavíkurflugvöllur, Skerjafjörður og Hvalfjörður miðja baráttunnar sem rekin var gegn nasistum frá Íslandi. Einu minjarnar um þetta eru varðveittar á byggðasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!"
Er stríðsmynjasafn um stríðsárin á Suð-Vesturhorninu þar? Eða bara stríðsárin almennt?
Á Reyðarfirði er mjög athyglisvert stríðsárasafn. Að vísu tengist það flugi afar lítið en þó var hér töluvert af flugbátum. Herstöðin á Reyðarfirði var sú þriðja stærsta á landinu, með tæpl. 3.000 hermenn. Fyrst Breta og svo Bandaríkjamenn. Einungis var fjöldi hermanna meiri í Reykjavík og á Akureyri.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.10.2007 kl. 01:59
Tek undir þetta með þér Ómar. Þetta er hneysa fyrir Reykjavík. Svipað má einnig segja um útgerðarsöguna og allt sem henni tengist. Hrein skömm að því hve þessu hefur lítið sem ekkert sinnt gegnum árin.
Halldór Egill Guðnason, 26.10.2007 kl. 08:49
Ég fjallaði eingöngu um flugsöguna en hefði þá að sjálfsögðu líka átt að taka Reyðarfjörð og Hornafjörð með í reikninginn og taka hatt minn ofan fyrir Reyðfirðingum fyrir stríðsminjasafn þeirra. Þaðan voru gerðar út flugvélar á flotum til aðgerða yfir og við Austfirði. Sómi Reyðfirðinga er mikill.
Stríðsminjar verða síðan efni í sérstaka bloggfærslu síðar.
Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 10:11
Hver gaf Arngrími leyfi til að flytja til Akureyrar það sem
Flugsögufélagið var búið að safna fyrir fyrirhugað flugsafn
í Öskjuhlíð.og hvar eru núna Ögnin og Klemminn niður komnar.
Undiritaður á sennilegst stærstan þátt í að þessa flugvélar
glötuðust ekki alveg þegar ég var að vinna við sýningu á 50
ára sögu flugs á Íslandi í skýli 1 á Reykjavíkur Flugvelli og
fann leifar þeirra í verkstæðum Flugmálastjórnar en þrátt fyri
ástand þeirra sýndu við þær á sýnigunni 1969.
Vagga íslenskra flugmál sóð ekki á Akureyri hvað sem Þingmaður
Akureyring heldur fram.
Leifur Þorsteinsson, 26.10.2007 kl. 10:22
"Ja miklir menn erum vér, Hrólfur minn " - Hvaða máli skiftir það, hver gerði hvað og hvaðan hver er, á þessu litla, blessaða landi.Er ekki nóg, að allir Íslendingar leggi hönd á plóginn og sameinist um að halda saman gömlum munum og sögu. Er ekki sama á hvaða "horni" landsins landinn er, sem margur kallar svo og skilur ekki að landið er ekki "hornótt", heldur eru frekar lands-hlutar þar til staðar og umfjöllunar. Ef fara á út í persónudýrkun og metast um það, hvaða maður gerði hvað og hver á að þiggja hróðurinn, skal þá ekki minnast hinna, sem ekki síður hafa gert sitt til þessa framámála, eða varðveislu muna,og nefna þá alla.! Kannski ætti bara að þakka þeim mörgu, sem hafa með frumhyggju og dugnaði uppkomið þessu "Flugsögusafni Íslands", sem ætti að vera "öllum" Íslendingum til sóma !. Með flugkveðjum og þökkum til allra, sem lögðu hönd á plóginn ! B.B.Sveinsson.
Björn B.Sveinsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 11:19
Það er minnisvarði í Vatnsmýri og annar í Nauthólsvík. Ögnin stendur gangfær á hjólunum í flugskýli flugsögufélagsins í Vatnsmýri. Þar er lika þyrla af eldri kynsloð, gamlar íslenk-smíðaðar sviflugur og fleira. Þar er líka Waco flugvél, sem verið er að gera flugfæra. Flugsögufélagið er enn til.
Eggert Norðdahl (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 11:31
Þetta er rétt hjá Eggerti og Þorkell Guðnason var að rifja það upp fyrir mér að hann hefði flutt stein austan úr Hreppum til Reykjavíkur sem stendur með koparplötuáletrun nálægt norðurenda N-S flugbrautarinnar.
Rétt er að þakka þeim einstaklingum í Reykjavík sem hafa reynt að halda þessu til haga en bloggfærslu minni er fyrst og fremst beint til borgaryfirvalda og þingmanna Reykjavíkur.
Því miður sjá fáir þennan minnisvarða og ég held að svona merkilegur viðburður eigi skilið að borgaryfirvöld og þingmenn kjördæmisins beiti sér fyrir gerð glæsilegs minnisvarða sem gæti staðið aðeins austar, alveg við sjálfa Hringbrautina, þannig að hann blasti við öllum vegfarendum.
Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 11:46
ÞAð er alveg nóg, að hafa þetta safn á Akureyri. ÞEir verða hvort sem er, að fá aura úr Ríkissjóði til að halda úti velli þarna.
Flugsagan geymir líka nöfn manna, sem með framsýni vildu búa flugvelli stað á Álftanesi en vegna vín og skemmtanaþorsta breskra kafteina, völdu þeir vellinu stað nær Hótel Borg.
Núverandi flugvöllur er nýsmíð að mestu og á ekkert sameiginlegt með þeim gamla, nema helstu stefnur á brautunum.
Um varðveislu Flugturnsins vil ég sem minnst segja annað en, að það eru fjöldi flugvalla um allt SA vert Bretland, hvar flugvellir hafa fallið í gleymsku og öll mannvirki við þá annaðhvort fallin eða búið að r´fa þau.
Innanlandsflugið, ásamt og með þotufluginu á auðvitað að fara suður á Patterson völlinn suður frá. Það er gott aðflug þar og kippkorn til Rvíkur og að ekki sé talað um nágrannabyggða.
Ef hugmyndir manna um sjúkrahús á svæðinu í kringum Vífilstaði verður að veruleika, er miklu fljótara að fara með sjúklinga þangað frá alflestum úthverfum en niður á Landsann í gegnum traffíkkina þar.
Ómar minn, það hefði nú verið betra að farið hefði verið að ráðum Agnar Kofood Hansen á sínum tíma og hinum þýsku flugmönnum og verkfræðingum, sem vildu leggja brautir á Álftanesi. Þá væri ekki verið að rífast um flugvöllinn og það sem ég hef kallað dauðastríð Vatnsmýrarvallarins, ekki verið svona langdregið og rándýrt, varðarð hverri vitleysunni af annarri, í þeirri veiku von, að völlurinn fengi að vera um kjurrt þar. (lagning Hringbrautar, bensínstöðvarbyggingin, Háskólasjúkrahús-bullið allt og nú nýverið fáráðlegar hugmyndir um ,,Samgöngumiðstöð" á þeim stað, hvar nánast engar vegtengingar eru mögulegar til og frá, svo vel geti orðið.
Nei minn kæri, suður að Patterson förum við og verum kátir með öruggara aðflug og að mörgu betra veðurfar fyrir einkaflugið.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 26.10.2007 kl. 11:58
Það er alrangt að Bretar vanræki flugvallasögu sína. Glæsileg söfn eru þar á slíkum flugvöllum, til dæmis í Duxford þar sem haldið er til haga öllum tiltækum mannvirkjum og tækjum sem notuð voru í bresku flugi og orrustunni um Bretland og haldnar flugsýningar tileinkaðar flugsögunni.
Ég hef þrívegis farið á slíkar sýningar og tel mig því geta borið vitni þar um.
Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 12:59
Eins og Bjarni Kjartansson bendir á er núverandi Reykjavíkurflugvöllur nýsmíð og á lítið sameiginlegt með vellinum sem notaður var í stríðinu. Endalaust er þráttað um hvort völlurinn eigi að standa. Reykjavík þarf á landinu að halda, en að byggja nýjan flugvöll er dýrt. Einnig er sennilega of langt að keyra til Keflavíkur í innanlandsflug.
Einn mikilvægasti flugvöllur London frá upphafi flugs þar til Heathrow van byggður var Croydon Airfield. Hann var ekki leystur af fyrr en mörgum árum eftir stríð. Nú er hann horfinn undir byggð, en turninn stendur enn og hýsir safn þar sem hægt er að kynnast flugsögu Bretlands, og þá sérstaklega hvernig Croydon kom við sögu.
Er ekki spurning með að gera þetta í Reykjavík? Gera upp gamla turninn eins og hann var um 1940, selja landið að mestu undir byggð og nota féð til að byggja einfaldan innanlandsvöll, fyrir vélar upp í Fokker stærð, sunnan við Hafnarfjörð? Þannig væri komin verðmæt (lesist dýr) byggð í hluta Vatnsmýrinnar með hluta hennar tekinn frá sem náttúru/útivistarsvæði, flugmynjasafn með gamla turninn í hásæti og Reykjavíkurflugvöll sem er ekki fyrir neinum.
Villi Asgeirsson, 26.10.2007 kl. 13:11
ÞAð eru til flugvellir í Bretlandi sem haldið er við en það á ekki við um alla, sem voru mikið notaðir í 2. heimstyrjöldinni. Sumar brautir eru notaðar undir bílaíþróttir og suumar bara grotna niður. Aðalega á þetta við um velli sem Kaninn lét leggja. B-17 vélarnar voru á allmörgum stöðum sem nú eru ekki til.
Það er alger firra, að það sé eitthvað langt til Keflavíkur, ef vel er að verki staðið og hámarkshraðinn verður hækkaður nokkuð er þetta bara stutt skutl.
Patterson völlur er málið.
Bjarni Kjartansson, 26.10.2007 kl. 15:54
Ég vann hjá Ístak þegar flugvöllurinn var endurnýjaður 2001. Rauðamölinni sem ekið hafði verið frá Rauðhólum í flugvallarstæðið, var fjarlægt og væri gaman að vita hvað varð um það efni.
Ef færa á flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og gera þar íbúabyggð, þá eykst umferðarvandinn enn frekar. Reykjavík er nefnilega byggt á nesi, Seltjarnarnesi. Gera þarf vegtengingar yfir Skerjafjörðinn og út í Álftanes, og/eða Nauthólsvík-Kópavogur. Afhverju ekki að gera flugvöll þá á Lönguskerjum? Flottasta flugvallastæði í heiminum. (svo framarleg að það sé flugtæknilega séð raunhæft)
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.10.2007 kl. 16:19
Það er varla vert að svara Birni B Sveinssyni því hann
er sama sinnis og Arngrímur sem sagði að ekkert kæmi
frá Reykjavík nýtilegt nema sunnan vindurinn, samt gat
hann hirt allt sem búið var að safna fyrir sunnan.
Bjarni Kjartansson "HVAÐ" Ekki ertu vel að þér í sögunni.
Vatnsmýrar flugvöllur var gerður eftir að slætti lauk 1919
í mikilli óþökk Reykjavíkur bænda sem aldeilis ekki þótti
ráðlegt að taka slægjur undir leikaraskab einhverra borgar
auðnuleysinja. Hann var í fullri notkun með skýli og vindpoka
þegar bretarnir lentu þar rétt eftir hernámið Þeir fundu strax
út af því að betur staðsettan flugvöll var ekki hægt að gera í
Reykjavík. Það er nefnlega með flughafnir eins og sjávar hfnir
straumar og ókyrð ræður notagildi þeirra, breskar skýrslur frá
því í stríðinu lofa Reykjavíkur flugvoll fyrir góðar aðstæður til
flugs og eini mínusinn var lendig til vestur á 32 vegna hæðarinnar
við enda brautar. Hótel Borg hafði lítið að segj því fljótlega
kom upp yfirmanna klúbur á vellinum, sem eftir stríð fékk nafni
Hotel Ritz þegar íslendingar tóku við, og byrjuðu að selja hneggjandi
nautasteik.
Patterson völlurinn hefur ekki verið í notkun síðasliðin 65 ár og
er varla sjáanlegur lengur.Svo það verður dýrt að endurreisa hann
og leggja niður Keflavíkurflugvöll.
Leifur Þorsteinsson, 26.10.2007 kl. 16:48
Þessi bloggfærsla er farin að snúast um flugvöllinn frekar en það frábæra framlag Akureyringa. Mig langar að spyrja B.K., eru Akureyringar þeir einu sem fá framlag úr ríkissjóði til flugvallagerðar? Ég leyfi mér að efast að B.K. fljúgi mikið milli landshluta. Ef flugvöllurinn flyttist til Kef. tæki það minnst 3 tíma í ferðalag fram og til baka til Akureyrar sem nú tekur einungis 45 til 1 tíma og 15 mínútur með mætingu og flug.
Við skulum heldur ekki gleyma því að okkar fyrstu og betri flugmenn komu og koma enn frá Akureyri og Nlandi.-Eystra.
Gleymum ekki sögunni okkar, varðveitum hana.
Góðar stundir.
Einar Th. (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 21:40
Ég tek heilshugar undir þessa bloggfærslu hjá þér Ómar minn.
Það er skammarlegt að ekki sé hugsað betur um þessi menningarsögulegu verðmæti.
Stefán Stefánsson, 27.10.2007 kl. 09:22
Eina lokaathugasemd verð ég að færa hér vegna spurninga um "leyfi" til að flugvélar og flugvélahlutar hafi verið fluttir til Akureyrar en ég komst að þessu í tengslum við það að ég ætla að verða viðstaddur athöfn nyrðra næstkomandi laugardag í tengslum við ferð mína til að skemmta austur á Egilsstöðum.
FRÚ-in hefur verið á Akureyrarflugvelli í haust vegna verkefna á Norðausturlandi og því kippi ég henni þaðan austur og síðan suður í þessum leiðangri.
En eftir því sem ég kemst næst eru mál svo vaxin:
Nefið af sexunni átti að fjarlægja og farga hér fyrir sunnan, - enginn gaf sig fram sem vildi koma í veg fyrir það og því var það Arngrímur Jóhannsson sem bjargaði þeim málum á síðustu stundu.
Klemminn var talinn liggja undir skemmdum og leitað var til Arngríms um að bjarga því máli fyrir Flugmálafélag Íslands sem og fleiri atriðum.
Svo kemur í ljós að enginn kannast við það og allra síst Arngrímur sjálfur að hafa sagt að ekkert gott kæmi að sunnan nema sunnanvindurinn.
Mér finnst skrýtið þegar verið er að tala illa um þá sem standa sig vel í að bjarga íslenskum flugminjum.
Með bloggfærslu minni hef ég ekki verið að veitast að þeim sem hafa um árabil reynt af veikum mætti að halda uppi merkjum hér í Reykjavík eins og minnisvarðinn í Vatnsmýri ber vitni um og ýmislegt fleira, - þessir hugsjónamenn hafa lagt sig fram en rekist á veggi, rekist á ótrúlegt skilningsleysi borgaryfirvalda og tómlæti Reykvíkinga.
Á Akureyri eru viðhorf bæjarbúa, bæjaryfirvalda og fyrirtækja ólík, - það get ég vitnað um eftir kynni af þeim í áratugi.
Þar ríkir almenn velvild og skilningur í garð flugsins og og ég á mér þann draum að hér syðra takist að efla slík viðhorf.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2007 kl. 00:49
Nei, ómar. Málin eru einfaldlega ekki alveg svona. Ég vil að það komi fram að norðanmenn hafa leint og ljóst reynt að fá eigir flugsögufélagsins norður, þ.m.t. Wacoinn. Hefurðu séð ´leyni´-flugsafn-skýsluna? Hverjir voru í nefnd ráðherrra (menntamála)? Hverjir voru ekki í nefnd ráðherra? Hverja var ekki talað við? Af hverju var hún fjarlægð af vef ráðuneytisins? Af hverju var tilraunum til að koma upp safni hér á sínum tíma ekki studdar af þessum sömu aðilum? Skömm Reykvíkinga er einfaldlega sú að hafa flugvöllinn enn á sínum stað. Á stað sem öllum ætti að þykja vænt um. En ekki fékkst neinn stuðningur við, þótt á skipulagi væri gert ráð fyrir flugminjasafni, þar sem nú á að byggja samgöngumiðsöð.
Eggert Norðdahl (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 02:21
-Þarna skaut einhver Leifur Þorsteinsson vel yfir markið ! Held hann ætti að læra að lesa, áður en hann geysist á ritvöllinn og talar um það sem hann ekki skilur. Ég hélt, að þetta "blog "Ómars væri aðeins til að skiftast á skoðunum um málefni, sem hann um fjallar. Að "svara" mér er engin nayðsin, allavegana ekki á þessum grundvelli. -Bið ég Ómar afsökunar, að hanns málgagn skuli vera svona misnotað.- Mun ég ekki verða til þess, að einhver spjátrungur notfæri sér að vega að mönnum, eins og Arngrími Jóhannssini, sem frekar ætti að vera þakkað fyrir hanns framlag til safnsins, heldur en að vera að bera á hanns varir umsögn, sem hann mundi aldrei segja, ekki einu sinni um Reykvíkinga.- Ómar, afsakaðu innilega. ! - B.B.Sveinsson
Björn B.Sbeinsson (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 03:09
Þetta með sunnanvindin sagði Arngrímur sitjandi á
tröppum við höfuðstöðvar Sunnu á Majorka, hann var
þá flugmaður hjá Flugfélagi Guðna,að viðstöddum allri
áhöfn og mörgum öðrum starfsmönnum Sunnu.
Þessi afstaða ásamt orðum fyrverandi Forseta Alþingis
lýsir því miður alltof vel hug Akureyringa.
Leifur Þorsteinsson, 28.10.2007 kl. 09:01
Ómar! Þetta var vel orðað hjá þér með "skömm Reykvíkinga, stolt Akureyringa". Það sést svo vel á þeim neikæðum athugasemdum sem hafa komið frá Leifi Þorsteinssyni og fleirum. Svanbjörn Sigurðsson safnstjóri og stofnandi Flugsafnsins á Akureyri hefur gert kraftverk og á heiður skilið fyrir það. Honum tókst svo að virkja úrvalslið flugáhugamanna til starfa með sér í varðveislu flugvéla, flugminja og flugsöguna þannig að almenningur getur nú notið þess. Flugsafn Íslands tók til starfa árið 2000 í 450 fermetra flugskýli. Í dag er safnið í 2100 fermetra húsnæði, nýbyggt stágrindahús á Akureyrarflugvelli. Þar er lifandi safn, þ.e.a.s. margar flugvélarnar eru í fullri notkun en eru til sýnis í Flugsafninu milli flugferða. Þar er enginn gripur fenginn á fölskum forsendum, eða "stolið" frá Reykvíkingum. Vel á minnst. Flugsögufélagið hefur gert marga góða hluti, en það hefur ekki opnað flugsafn sem almenningur getur skoðað þrátt fyrir það að félagið hefur haft ágætis aðstöðu til þess um margra ára skið. Á ég þar við flugskýli félagsins á Reykjavíkurflugvelli sem er áreiðanlega mun stærra en gamla húsnæði Flugsafns Íslands á Akureyri. Meðal gripa Flugsögufélagsins er WACO tvíþekja sem verið er að endursmíða. Hún var keypt til landsins m.a. fyrir fé sem Akureyringar söfnuðu gegn loforði um að hún yrði til sýnis nyðra! Og fyrst verið er tala um norðanmenn og hið "Reykvíska" Flugsögufélag, þá gáfu forsvarsmenn Flugfélags Norðurlands Flugsögufélaginu forláta flugvél af gerðinni Beechcraft C-45H ca. árið 1978. Þessi flugvél endaði á brotajarnshaug! Nei, það er rétt hjá þér Ómar, þetta er skömm Reykvíkinga. Það eru söfn eins og Flugsafn Íslands á Akureyri, Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti sem eru stolt landsbyggðarinnar. Reyndar verð ég að taka fram að Flugsafn Egils á Hnjóti er komið í niðurníslu og er það miður, en Minjasafnið hans er til fyrirmyndar. Að endingu hvet ég Leif Þorsteinsson til þess að kynna sér málin betur. Við flugáhugamenn eigum að fagna því sem vel er gert í varðveislumálum flugsögunnar í stað þess að vera með hrepparíg og dónaskap.
Pétur P. Johnson, íbúi í Reykjavík og áhugamaður um íslensk flugmál.
Pétur P Johnson, 29.10.2007 kl. 00:13
Afsakaðu Ómar, en mig langar að þakka Pétri P. fyrir frábæra grein, sem mér fynnst mér við koma, þ.e.a.s. viðvíkjandi Beech C-45H, sem hann réttilega fram telur, en ég var sá flugvirki, sem sá um verklegan undirbúning á þessum tveimur vélum, sem Tryggvi Helgson, þáverandi eigandi " Norðurflugs", keypti í Alabama, USA , en þeim var svo flogið til heimahafnar, Akyreyrar, þar sem ég sá svo um áframhaldandi breytingar á annari vélinni, þar til ég hætti hjá Norðurflugi, en góðir menn tóku við og gerðu þær vel úr garði. - Þegar ég heyrði, til útlanda, að annari vélinni hafi verið lagt og verið gefin til "Flugsögusafns" í Reykjavík , þá taldi ég full víst, að þessi "gamli vinur minn" færi loksins á varanlegan stað, sem honum sæmdi. - Sem Pétur sannleg frá segir, þá varð aldrei neitt gert með þessa vél, en hún grafin í jörðu, eftir að hafa verið vindi og veðri til gamans á víðavangi.- Hvar var þá þessi blessaður maður, sem telur sig hafa bjargað þjóðargripum frá gjöreyðingu , og sakar svo Arngrím Jóhannsson um "stuld", í staðin fyrir að þakka honum hanns framlag til þessa málefnis, að bjarga sögulegum minjum um íslenska flugsögu frá algjörum hroða, sem ætti að vera öllum, sem unna sögunni, til gleði og gæfu, hvar svo sem þeir búa á landinu. Svo með þessi ummæli, sem Arngrímur á að hafa sagt um Reykvínginga, og þessi maður segir sannleika, en gefur þó í skyn, að þegar það var sagt, þá var ekker Flugsögusafn í umræðunni og þarmeð gat það valla hafa verið sagt í þessum umræðum.-
-- Gamalt máltæki segir svo, að " það svíði oft undan sannleikanum" !! --Kannski hefur þetta máltæki sannast nú !!
--Ómar, ef þér fynnst nóg komið, þá bara láttu mig vita ! B.B.Sveinsson
Björn B.Sveinsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 03:37
Ég biðst afsökunar ef upphafleg bloggfærsla mín hefur skilist svo að ég sé að finna að verkum þeirra flugáhugamanna víða um landi sem hafa gert það sem í þeirra valdi stóð til að bjarga flugminjum en haft til þess misgóða aðstöðu.
Ef þingmenn Akureyringa og Vesturbyggðar hafa staðið sig vel við að fá aðstoð hins opinbera til minjasafnanna þar sýnir það aðeins hve illa þingmenn Reykvíkinga hafa staðið sig að ekki sé nú talað um borgaryfirvöld.
Að þingmönnum og borgarfulltrúum Reykjavíkur beini ég brýningu minni að aflétta því fálæti sem ríkt hefur í fæðingarborg minni um þessi mál og hefur verið mér og öðrum borgarbúum til skammar.
Ómar Ragnarsson, 29.10.2007 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.