HUGURINN AÐ BAKI ORÐUNUM.

 Umræðan um tíu litlu negrastrákana gefur tilefni til vangaveltna um samband hugarfars og orða. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og ekki sama hvaða orð eru notuð um hlutina. Til dæmis er mikilvægt að tala um gagnkvæma aðlögun innfæddra og aðfluttra að hvor öðrum í stað þess að beina sjónum eingöngu að því að innflutt fólk aðlagi sig að högum okkar sem fyrir erum í landinu. Fleira slíkt mætti nefna. En síðan má spyrja hvort í einstaka tilfelli sé hræðslan við orðin of mikil. Nýlegt dæmi er kannski bókin um tíu litlu negrastrákana. 

Þegar ég var strákur las ég þessa bók, söng hana og kunni, og kannast ekki við að það hafi vakið hjá mér eða öðrum krökkum neikvæð viðhorf til fólks með dökkan hörundslit. Sama er að segja um Mjallhvít og dvergana sjö, - ég tók það ævintýri aldrei sem niðrandi fyrir lágvaxið fólk heldur þótt mér vænt um dvergana.

Mig minnir að í einu ævintýrinu hafi norn verið drepin með því að láta hana dansa á glóðum og ekki hélt það fyrir mér vöku.

Úlfurinn át ömmu Rauðhettu og ekki fór á límingunum yfir því þegar ég var barn. Ég hefði ekki viljað missa af neinum af þessum ævintýrum eða hafa þau öðruvísi og veit ekki hvort eitthvað er unnið með því að banna einhver þeirra eða öll.

Við skulum hafa í huga að orðanna hljóðan segir ekki allt heldur hugarfarið sem að baki býr.

Upphaflega voru þroskaheftir kallaðir vangefnir. Það er mjög sanngjarnt orð því að það gefur til kynna að hinir vangefnu geti ekkert að ástandi sínu gert, - þeim er gefið minna en öðrum.

Smám saman virtist færast í aukana að nota orðið vangefinn sem skammaryrði og orðið þroskaheftur tekið upp í staðinn sem er að mínu mati á engan hátt betra orð enda farið að nota það líka í neikvæðri merkingu og komið að því að finna þriðja orðið í stað þess að reyna að vinna gegn neikvæðri notkun núverandi orðs eða hins upprunalega orðs, vangefinn.

Enn betra dæmi er orðið vitskertur sem lýsir eins vel og hægt er að vit þess sem um er rætt sé skert að einhverju leyti. Smám saman breyttist merking þessa orð í það að lýsa hæsta stigi brjálæðis þvert ofan í upprunalega merkingu og þess vegna varð að finna önnur orð.

Þetta er þeim mun einkennilegra að orðið heyrnarskertur hefur verið notað alla tíð án þess að fá á sig neikvæða merkingu. Talað er um lítillega heyrnarskertan eða mikið heyrnarskertan eftir atvikum.  

Nú er orðið geðveikt eða gegt einsog það er skrifað á SMS eða sagt notað ótæpilega og þykir ekki fallegt né tillitssamt að nota það.

Geðveikur er í sjálfu sér ekki neitt neikvæðara orð en orðin hjartveikur eða bakveikur, - því er aðeins lýst hvar viðkomandi veiki eða sjúkdómur er eða kemur fram.  

Orðið negri, negrastrákar og negrastelpur voru notuð áratugum saman hér á landi án þess að í því fælist nein neikvæð merking í líkingu við það sem orðið nigger hafði fengið í Bandaríkjunum.

Þetta verður að hafa í huga og því finnst mér ekki rétt staðið að hlutunum þegar útlendingum er sagt frá því að orð sem sé hliðstætt skammaryrðinu nigger sé notað í barnabók á Íslandi.

Mér finnst orðið blökkumaður ágætt orð en sé samt ekki að það myndi breyta miklu ef bókin yrði kölluð tíu litlir blökkustrákar. 

Raunar reynum við Bubbi Morthens að sýna eins mikla tillitssemi og unnt er með því að tala ævinlega um að annar hnefaleikarinn sé dekkri á hörund en hinn þegar blökkumenn eiga í hlut.

Það gerum við af því að við viljum leggja okkur fram um að ala ekki á fordómum eða neikvæðni og fyrir mestu er að velta þessum hlutum sem best fyrir sér og forðast að detta í þær gryfjur eða gera þau mistök í samskiptum okkar við fólk af erlendu bergi brotið sem aðrar þjóðir hafa gert. 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Rétt hjá þér Ómar.

S. Lúther Gestsson, 27.10.2007 kl. 00:45

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Ómar,

Það eina slæma sem að ég man eftir úr þessum ævintýrum er sagan um Dísu ljósálf. En hún fékk mikið á mig :)

En svo við hlaupum úr einu í annað og til að halda þér við efnið, þá máttu til með að líta á þessa heimasíðu hér sem er í smíðum þessa daganna:

http://www.hengill.nu

Náttúruperla í næsta nágrenni sem ekki margir vita af!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 27.10.2007 kl. 01:05

3 identicon

Muni ég rétt las ég einnig þessa bók þegar ég var ungur drengur.  Svo má auðvitað spyrja sig, hversu hátt hlutfall hörundsdekkri einstaklinga var í bæjarfélaginu Akureyri í mínu uppeldi?  Svarið er 0%.  Ætli landshlutfallið hafi ekki verið afskaplega nálægt því líka.

Orðið negri var því notað án minnstu möguleika á að særa eða skilja hina neikvæðu merkingu, því hörundsdekkri menn voru einfaldlega ekki til nema í "útlandinu".  Nú er öldin önnur og að mínu mati allt í lagi að taka tilllit til þess.
Án þess að gera lítið úr löngu kunnum hæfileikum þínum til baráttu gegn ofurefli, held ég að baráttan gegn neikvæðri merkingu orðsins "negri" sé dæmd til að mistakast; til þess þyrftir þú að endurrita söguna.

Annars virðist nokkur sátt um orðin svart og hvítt hér í Bretlandi, enda bæði jafn fjarri því að lýsa hörundslit viðkomandi - þ.e. svarti maðurinn er jafn fjarri því að vera svartur og hvíti maðurinn að vera hvítur.  Jafnrétti í því, ekki satt?  Svo er afskaplega erfitt að gera þessi orð neikvæð (hvíturinn þinn?).

Að síðustu.  Fólk með þroskahamlanir var upphaflega kallað fávitar (sjá lög um fávitahæli frá alþingi).  Það væri í sjálfu sér merk mannfræðitilraun að búa til bókina 10 litlir fávitar (með myndum eftir merkan listamann) og sjá hvort Íslendingar væru jafn áfjáðir í það bókmenntaverk.

Baldur McQueen (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 02:17

4 Smámynd: Linda

Sæll Ómar ég gæti ekki verið meira sammála þér. Ég hef sjálf verið kölluð rasisti fyrir það að benda á hvað orðið þýðir(svartur) og hversu mikil rangþýðing er á orðinu að bendla það við hið hræðalega orð "nigger" (afs).  Ég ætla að nálgast þess bók ekki vegna þess að ég hafi óbeit á svörtu fólki eða fólki af dekri litarhafti en ég, heldur vegna þess að þetta er menningarlegur arfur sem við eigum ekki að skammast okkur fyrir heldur eigna okkur og muna að við erum alltaf að reyna að gera betur. Tek undir með þér, ég las þessa bók sem barn, lærði aldrei að hata þá sem eru hörundsdekkri en ég.

kv.

Linda, 27.10.2007 kl. 02:29

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Gjalda verður varhug við að leggja bann við því sem hefur verið til í langan tíma. Ævintýrin eru auðvitað ekki neinar sögur þar sem allt lífið er sem dans á rósum. Sem lítill strákur grét Mosi ákaflega yfir örlögum Alfinns álfakóngs og svo mætti lengi telja.

Ef þessi skemmtisaga af negrastrákunum á að setja undir ritskoðun hvað þá með eitt það helgasta í okkar menningu, nefnilega Íslendingasögurnar? Á að banna þær af því að margir þeir sem voru til vandræða á Íslandi áttu Svíþjóð að móðurlandi? Berserkirnir í Eyrbyggju komu t.d. frá Svíþjóð. Var öll illska heimsins af þeim ástæðum komin frá því ágæta landi? Annars hafa Svíar tekið þessu með miklu jafnaðargeði því þeir hafa metið það Íslendingum til tekna að hafa glöggt auga með þessum sérstöku sænsku eiginleikum, fært í letur á miðöldum og varðveitt vel til nútíma! Og Halldór Laxness vísar til Svíahaturs í Íslandsklukkunni: „þeir svensku, sem eru djöfuls skálkar og eitt andstyggilegt fólk“.

Fyrir þessa sagnatækni sem birtist í verkum skáldsins byggða á frásagnastíl Íslendingasagnanna veittu Svíar Halldóri nóbelinn sem kunnungt er.

Við lifum á öld tortryggni, haturs og umburðarlyndisins. Hvaða eiginleikar skyldu nú vera mest eftirsóknarverðastir? Ætli okkur takist ekki að halda friðinn lengt með umbyrðarlyndinu, ræða málin gaumgæfilega án æsings og finna nýjar leiðir út úr ógöngunum?

Það er eins og margir þeir sem hingað til Íslands hafa sótt, hafi ekki enn áttað sig á aðstæðum hér, eru kannski ekki búnir að ná góðri fótfestu í þessu sérstaka umburðarlyndi sem er svo víða á Norðurlöndunum. Við megum aldrei láta hatur né sjúklega tortryggni gagnvart því sem listrænn metnaður hefur verið lagður í, verða til að glepja okkur. Svo er guðunum fyrir að þakka að hér hafi ekki brotist út alvarleg átök hvorki vegna blóðugar byltingar né stríða um langan tíma. Sem betur fer en við eigum við að láta Sturlungaöldina duga okkur. Hún á að vera okkur ævarandi áminning þess sem vænta má ef illa tekst til við góða lausn mála.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 27.10.2007 kl. 10:58

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Orðið "nigger" var, eins og negri, ekki neikvætt í upphafi. Merkingin breyttist með tímanum og nú er svo komið að þeldökkt fólk virðist nota það meira en hvítir þegar þeir vilja móðga hvern annan.

Ég las þessar bækur sem barn og ekki missti ég svefn. Sennilega hafa dvergar og negrar verið of abstrakt á Íslandi upp úr 1970. Svo komst amman heil á höldnu úr úlfskviði, svo ekki var maður að hafa áhyggjur af því.

Það virðist, því miður, vera einhver gerilsneyðing í gangi. Það má ekkert segja, nota verður orð sem eru hlutlaus og finna ný þegar hlutleysinu er ógnað eins og dæmin að ofan sýna. Við erum svo upptekin við að sýna hvoru öðru virðingu að þetta er farið að líkjast hjónabandi á brauðfótum þar sem ekkert ma segja án þess að eiga á hættu að skapa rifrildi. Þegar svo er komið held ég að orðin séu ekki vandamálið. Ef par í tilhugalífinu kallar hvort annað fífl er það sennilega í góðu og maður fær knús fyrir. Orðið fífl hefur allt aðra merkingu þegar maður hefur fengið meira en nóg af viðmælanda.

Það hefur því lítið upp á sig að finna stöðugt upp ný orð. Við þurfum að læra að umgangast hvort annað eins og manneskjur. 

Villi Asgeirsson, 27.10.2007 kl. 11:12

7 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Er orðið mongólíti neikvætt orð? Það þýðir að viðkomandi lítur út eins og mongóli. Er það neikvætt að líkja fólki við mongóla?

Það virðist vera að orðin sem í upphafi eru lýsandi, fái á sig neikvæðan stimpil sem endar með því að fólk þorir ekki að nota þau og það þarf að búa til ný.

Hvernig væri að taka hommana til fyrirmyndar? Í stað þess að banna fólki að nota þetta orð þá nota "samkynhneigðir karlmenn" sjálfir orðið hommi og taka ekki þátt í því að gengisfella orðið. Undirtitill samtakana 78 er: Félag lesbía og homma á Íslandi en ekki Félag samkynhneigðra kvenna og karla á Íslandi.

Sigurður Haukur Gíslason, 27.10.2007 kl. 11:34

8 identicon

Negri leggst ekki út sem orðið "nigger" á enska tungu, heldur "negro" sem þýðir einfaldlega svartur. Orðið "nigger" er afbökun á orðinu "negro" og hefur alla tíð verið notað sem háðsyrði yfir negra, sbr. orðið "surtur" á íslensku.

Ég veit ekki betur en að minn litarháttur sé kallaður "caucasian" þegar ég fer á erlenda grund og ef það á að vera orðið sem pólitíska rétttrúnaðarkirkjan ætlar að nota um mig, þá mótmæli ég því, þar sem ég er alls ekki frá Kákasus héraði í gamla sovét.

Ég er hvítur og kann því vel. Ég hef ekkert á móti því að einhver segi að ég sé hvítur. Afhverju þola þeir sem svartir eru ekki að einhver segi að þeir séu það? Hvort sem að þeir noti orðið "black" eða "negro" sem þýðir nákvæmlega það sama?

Nú mælast negrar í bandaríkjunum til þess að þeir séu kallaðir "afrískir ameríkanar". Ég verð að játa það á mig að þegar ég heyrði þetta fyrst, þá hugsaði ég með mér að núna fyrst væri búið að búa til orðskrýpi sem fólk myndi gera grín að.

Brainstorm (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 12:40

9 identicon

Svo kom upp í umræðunni, um þessa vönduðu endurútgáfu, orðið ,,blönduð börn'' í merkingunni hörundsdökk börn, að ég held.

Spurning hvort ekki sé verið að gefa í skyn að þau börn sem ekki eru hörundsdökk séu einræktuð? Þ.e. þau séu óblönduð erfðafræðilega séð eða a.m.k. með mjög litla genaflóru. 

Er þá kannski verið að reka áróður fyrir því að Íslendingar eigi börn með ,,hörundsdökku'' fólki, eða að það sé allavega mjög æskilegt þar sem börnin yrðu ellegar ,,óblönduð...''

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 15:50

10 Smámynd: Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Sæll Ómar

Ég er sammála þér að mörgu leiti, auðvitað eigum við að eyða mestu púðri í að breyta merkingu orðanna en sum orð hafa einfaldlega ranga merkingu.

Ég hef aldrei skilið orðið vangefin. Það segir ekkert um manneskju með þroskahömlun og gefur enga mynd af fötlun hennar. Þú talar um að henni sé gefið minna en því er ég mjög ósammála. Fólk með þroskahömlun er alveg jafn vel gefið fólk og ég og þú. Það hefur ekki fengið neitt minna, heldur eitthvað annað og enn meira á ákveðnum sviðum, sem ég og þú höfum ekki.

Ég er mikið hreyfihömluð og hef samkvæmt sumum "fengið minna" vegna þess, þá hlýt ég að vera vangefin.

Ég er það þó ekki frekar en þeir sem lifa með þroskahömlun.

Kv. Freyja Haraldsdóttir

Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 27.10.2007 kl. 21:21

11 identicon

Howdy ! - Þessi umræða um blökkumenn ætti að vera komin til Ameríku og þarmeð koma þessum blessuðu mönnum í skylning um, að orðið "niger" (of oft borið fram sem "nigger "), sem þeim fynnst svo hroðalegt, hefur ósköp eðlilega merkingu. -  Þegar þessum blessuðu mönnum var forðum smalað saman í Afríku og þeir fluttir í böndum til Ameríku, þá komu flestir frá "Fílbeinsströndinni", þar sem ríkið " NIGERIA " er að fynna og hvað er eðlilegra en kalla menn frá Nigeria.-  "NIGERS " !! - Á ensku er þetta nafn ranglega fram borið, semsé " nægjers", þar sem samhengið við NIGERS slitnar og passar ekki við það rétta nafn og eðlilega merkingu. - Nú er þetta reglulegt vandamál í Am. þjóðfélagi, þar sem sá svarti virðist skammast sín fyrir sinn uppruna og reynir að koma sér frá sannleikanum. Skrítið er, að hann skuli komast upp með að kalla sig "Afríkan American", og eru viðulög við að kalla hann "Nigers"- Nú, loksins, eru upp háværar raddir í Ameríku, þar sem mönnum finnst þetta vera komið of langt. - Ef einhverjum ekki líkar við Ameríku, eins og hún er, þá er auðveldast að koma sér burtu og bara flytja til heimalandssins, Afríku, og njóta þess að vera með þeirra rétta hörundslit.  - Það er stundum skrítið að heyra það fólk, sem upphátt segir sig hrylla við að heira orðið "negri", fólk sem sennilega hefur aldrei séð negra eða því síður kynnst þeim. Þetta dökka fólk á, að sjálfsögðu, sama rétt á lífinu, eins og aðrir, með annan hörundslit, en það skrýtna er, að negrinn er oftast sá fyrsti til að minnast á sinn hörundslit. Ef þetta fólk bara hætti að blanda hörundlitnum í samskifti manna, þá mundi þetta kannski allt blessast. Vonandi lagast þetta allt, svo mislitar þjóðir geti lifað saman í sátt og samlyndi !!     B.B.Sveinsson

Björn B.Sveinsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 15:32

12 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ég er sammála þér með orðin „vangefinn“ og „geðveikur“. Þau eru hlutlaus orð og lýsa aðeins því, sem þau eiga að lýsa. En einhverra hluta vegna má ekki lengur nota þau. Ég kann enga aðra skýringu á því en þá, að menn vilji ekki horfast í augu við þann veruleika, sem þau lýsa. HHG

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 30.10.2007 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband