28.10.2007 | 01:14
KENNINAFNASIÐUR Í HÆTTU.
Kenninafnasiður Íslendinga er mér afar kær og ég hef fastmótaðar skoðanir á honum. Hann er jafnréttismál því mér finnst fráleitt að konur kasti helmingi nafns síns við að giftast manni með ættarnafn. Þetta er þjóðarsérkenni sem við getum verið stolt af. Ég hallast að því að fólk kenni sig við móður, - það er öruggara. Þrennt ógnar kenninafnasiðnum: 1. Íslensk ættarnöfn. 2. Innflytjendur sem vilja viðhalda ættarnafnasið sínum. 3. Tveggja nafna siðurinn. Þetta þriðja vefst kannski fyrir fólki en ég get útskýrt það að hluta með því að spyrja nokkurra spurninga:
Hvers son er Sigurður Hreiðar? Hvers son er Jón Gnarr? Hvers dóttir er Olga Guðrún? Hvers son er Sigmundur Ernir? Hvers son er séra Hjörtur Magni? Við vitum stundum ekki svarið eða gleymum föðurnöfnunum vegna þess að þeim er gjarnan sleppt í umtali um þetta fólk.
Af þessum sökum heita öll börnin mín sjö aðeins einu nafni og sex þeirra heita samt nöfnum sem enginn annar heitir og engin hætta á að þeim sé ruglað við nafna eða nöfnur.
Það var að vísu auðveldara að hafa það þannig vegna þess að lengi vel var nafnið Ómar ekki algengt sem föðurnafn.
Ég væri alveg til í það að börnin mín kenndu sig við móður sína og bættu kannski stafnum mínum við á milli eiginnafns og móðurnafns ef þau vildu.
Þetta hljómar ágætlega: Jónína Helgudóttir, Ragnar Helguson, Þorfinnur Helguson, Örn Helguson, Lára Helgudóttir, Iðunn Helgudóttir og Alma Helgudóttir.
Nú heita allmargir sama nafni og ég þótt enginn annar heiti líka Þorfinnur. Þorfinnsnafnið nota ég hins vegar nær aldrei. Ef ég væri kenndur við móður mína héti ég hins vegar Ómar Jónínuson og ætti líkast til engan alnafna.
Athugasemdir
Þó ég deili alls ekki áhyggjum þínum af allt of strangri nafnalöggjöf Íslendinga, sé ég ákveðna kosti við kenninafnakerfið. Það getur t.d. unnið gegn stéttskiptingu og verið hjálplegt þeim sem vilja helst ekki upplýsa hverra manna þeir eru (nema þeir hitti fyrir Önnu, sem ljóslega er skæð á þessum vettvangi ).
Þeir sem eru svo óheppnir að bera sama ættarnafn og eitthvert víðfrægt illmenni geta t.d. haft af því verulegan ama - jafnvel kynslóð eftir kynslóð.
Kenninafnakerfið er hins vegar til ama fyrir þá sem flytja af landinu. Þannig getur fólk fyllst mikilli tortryggni þegar í einni fimm manna fjölskyldu eru fimm "ættarnöfn". Mitt, unnustu minnar og barna sem bera kenninöfnin Baldursson, Baldursdóttir og McQueen-Baldursdóttir. Maður þarf endurtaka vel og lengi romsuna um íslensku hefðina áður en menn trúa að konan eigi ekki börnin með þrem aðilum.
Varðandi jafnrétti sé ég ekki kúgunina sem fólgin er í vali. Þannig gat ensk kona bróður míns valið hvort hún héldi sínu ættarnafni, tæki hans ættarnafn (ísl. kenninafn) eða blandaði þeim saman.
Baldur McQueen (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 02:53
Þegar Mats Kilian, sonur okkar fæddist máttum við velja hvort eftirnafnið hann fengi. Hér í Hollandi er það þannig að við fæðingu fyrsta barns er það ákveðið, og yngri systkyni fá þá sama eftirnafn. Þegar kom að því að rugla saman reitum gátum við valið hvort konan héldi sínu nafni, tæki upp mitt eða hefði bæði. Íslendingurinn ég fór auðvitað fram á að hún héldi sínu nafni því ekki er hún sonur föður míns.
Hins vegar var það tiltölulega mikið mál að útskýra fyrir hollendingunum að Ásgeirsson væri eftirnfn, því þeir héldu því fram að ég héti þremur eigin nöfnum. Ég þurfti að biðja þjóðskrá um bréf þar sem vottað er að Ásgeirsson væri eftirnafn.
Þetta var þó leyst á endanum. Þó heitir sonurinn Mats kilian Ásgeirsson, sem er strangt til tekið ekki rétt. Eignist hann börn hér munu þau líka verða Ásgeirsson, en flytjum við heim munu þau verða Matssynir eða dætur. Þjóðskrá bað svo vinsamlegast um að ef við flyttumst heim, myndum við leiðrétta nafnið hans, þó það sé ekki skylda.
Ég er sammála að íslenska nafnakerfið ber að vernda. Mér finnst það alltaf skrítið þegar ég er kallaður Mr. Ásgeirsson. Mér finnst fólk vera það sjálft fyrst og fremst, en ekki barn foreldranna.
Villi Asgeirsson, 28.10.2007 kl. 08:57
Ég er sammála því að það eigi að varðveita íslenska nafnakerfið.
Það er eitt sem fer óstjórnlega í taugarnar á mér. Það er þegar íslensku liðin (bæði landsliðið og félagslið) eru að keppa í Evrópukeppni og slíkum mótum, að leikmennirnir bera föðurnafn sitt á bakinu á treyjunum. Ég get ekki skilið af hverju þetta er gert. Mér finnst fáránlegt að sjá til dæmis Sigfús Sigurðsson, spilandi í Laugardalshöllinni og á treyjunni stendur "SIGURDSSON" stórum stöfum.
Núna hugsar eflaust einhver að þetta sé gert vegna þess að þetta tíðkast hjá erlendum liðum. En það er ekki rétt. Það er gott að koma með dæmi úr fótboltanum, en þar er þekkt að leikmenn spili með gælunafn sitt á bakinu. Til dæmis þá heitir Ronaldinho, Ronaldo de Assís Moreira. Þá heitir Ronaldo, Ronaldo Luis Nazário de Lima. Annað gott dæmi er með Ensk/Tyrkneska leikmanninn Muzzy Izzet og hefur hann alltaf verið þekktur undir því nafni, en þegar hann spilaði með tyrkneska landsliðinu á HM, þá bar hann fæðingarnafn sitt á bakinu, Mustafa.
Mummi Guð, 28.10.2007 kl. 09:24
Mér finnst íslenska nafnakerfið mjög flott. Í Noregi var siður að konur tóku eftirnafn eiginmanns sinn við giftingu en það var áður en skilnaðir urðu svona algengir. Núna er algengt að konur haldi sínu nafni en bæti nafni eiginmanns við, eins og t.d er hefðin á Spáni. Við skilnað er svo seinna nafnið þurrkað út.
Maðurinn minn átti norskan afa og ber ættarnafn. Þegar við giftum okkur í Noregi 1972, vildi hann að ég héldi mínu nafni en ég var því ósammála.
Meira en 30 árum seinna skipti ég um skoðun og tók aftur upp mitt gamla eftinafn. Mér fannst það sýna meira sjálfstæði. Til dæmis ef ég nöldra opinberlega þá geri ég það undir mínu eigin nafni. Við bóndann sagði ég að gamla nafnið væri fljótlegra að undirrita á Visanótur.
Mér fannst líka fæðingarnafnið ríma betur við fornafnið og svo vera tenging við náttúruna, heiði og strönd
Það er líka svolítið skrýtið þegar erlend eiginkona breytist í son tengdapabbans við giftingu.
Og svo er vonlaust að hafa upp á gömlum vinkonum þegar ekki er vitað um frúarnafnið.
Við Norðmenn glottum yfir því hvað margir hér snobba fyrir ættarnöfnum og -sen-nöfnum. Nöfn sem enda á -sen þykja ekki merkileg í Noregi, eins og til dæmis Hansen, Jonsen, Jensen, Olsen eða Kristiansen.
Heidi Strand, 28.10.2007 kl. 10:54
Hjartanlega sammála Villa með að vera kallaður Mr. Ásgeirsson. Það fer ótrúlega mikið í taugarnar á mér að vera kennd við föður minn í útlandinu þar sem ég bý og ég vinn nú í því að frá breytt eftirnafninu mínu í að taka upp gamalt ættarnafn vegna þessa. Bara hugsaðu t.d ef þú værir alltaf kallaður "Herra Einarsson eða Frú Jónsdóttir" á klakanum. Ég hef það alla vega á tilfinningunni að ég sé bara einhver eign föður míns en ekki "Íris" þrátt fyrir að vera komin með mitt eigið heimili og fjölskyldu.
Skárra er það þá með ættarnafn þar sem allir í fjölskyldunni hafa þó sama kenninafnið sem gengur yfir alla og sýnir tenginu. (Vona að fólk skilji mig rétt hérna).
Og svona ef einhver er að hugsa núna "oh en hvað þegar að þú kemur til baka til íslands? Engin hætta á því. Er komin með rætur erlendis og vill alls ekki flytja aftur á klakann plús það að ég hef lengi verið að hugsa um að taka upp þetta ættarnafn þrátt fyrir að hafa verið á þeim tíma búsett á Íslandi þannig að ég er búin að vera að hugsa þetta í langan tíma.
En mér finnst að fólk ætti að halda sínu eftirnafni við giftingu og síðan ef fólk er erlendis eins og í mínu tilfelli er bara hægt að gefa börnunum bæði eftirnöfnin og veit ég um marga sem hafa gert það. Fólk á bara að fá að ráða þessu sjálft hvað passar því best og því líður best með.
Íris (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 12:40
Það geta oft orðið skondnar og skemmtilegar uppákomur í útlöndunum vegna eftirnafnanna okkar. Ein slík gerðist hjá okkur fyrir ca 20 árum, þegar við bjuggum í Svíþjóð í smá tíma. Ég er Jónsdóttir, maðurinn minn er Vilhjálmsson og elsti sonur okkar er frá fyrra sambandi hjá mér og er Unnarsson. Við leigðum svo íbúð af pari sem bar líka sitt hvort eftirnafnið. Einn dag hringir kona úr pósthúsinu algjörlega miður sín og spurði mig hvað væru eiginlega margar fjölskyldur sem byggju í þessari litlu íbúð?!! það tók mig ein þrjú korter að útskýra málið fyrir henni og reyna að róa hana niður. Nokkrum dögum seinna fengum við svo bréf frá skóla sonarins með utanáskriftinni: Familien Unnarsson !!! Það er semsagt líka hægt að láta mann taka eftirnafnið eftir börnunum sínum! haha
Ragnhildur Jónsdóttir, 28.10.2007 kl. 13:11
Það sem er langleiðinlegast við íslenskar nafnavenjur að mínu mati er skammstafanir, til dæmis Jón T. Jónsson. Það heitir enginn maður T. og að tönnlast á því að maðurinn heiti Jón T. er bara vitleysa. Hann getur átt sitt T. sjálfur.
Hér er geysi mikil fjölbreytni í nöfnum. Eilífur Friður Guðmunds- og Guðrúnarson Kjögx gæti til dæmis skrifað nafnið sitt á gríðarlega marga vegu.
Steini Briem (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 13:25
Ég er hjartanlega sammála því að þetta beri að varðveita! Hér í Svíþjóð virðast menn orðið þekkja til íslenskra kenninafna því að þegar ég segist vera Haraldsdóttir spyrja margir hvort ég sé íslensk. Ekki gæti ég fyrir nokkra muni látið kalla mig frú Karlsson, eins og ég væri dóttir hans tengdapabba!
Ég hef gert nokkuð af því að kenna útlendingum íslensku og þá hef ég auðvitað alltaf útskýrt okkar kenninafnahefð. Þá hef ég stundum verið spurð að því hvernig í ósköpunum við förum að því að vita hverjir séu skyldir þegar fólk hafi ekki sama ættarnafn. Þá sýni ég þeim bara Íslendingabókina á netinu. Það finnst þeim stórkostlegt!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 28.10.2007 kl. 15:23
Alveg sammála en er þetta ekki sjálfgefið? Þetta er íslensk hefð og einhverjar tískubylgjur og innflytjendur breyta henni ekki. En ég set alltaf spurningamerki við boð og bönn. Auk þess er ekkert rangt við smá fjölbreytni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2007 kl. 15:50
Ómar, þú nefnir að innflytjendur sem vilja viðhalda ættarnafnasið sínum ógni íslenska kenninafnasiðnum. Þetta má leysa, ef þeir vilja vera með, eins og ein bresk kunningjakona mín gerði. Þegar hún skildi við íslenskan eiginmann sinn fannst henni fráleitt að bera nafn hans lengur. Hún tók því nafn föður síns (að íslenskum sið), notaði íslensku myndina af nafninu hans og bætti dóttir aftan við. Skírnarnafnið hennar er erlent en föðurnafnið íslenskt og þannig tekur hún þátt í að viðhalda íslenskum kenninafnasið - þar til viðbótar geislaði aldraður, breskur faðir hennar eins og sól þegar hún sagði honum að skv. íslenskum sið ætlaði hún hér eftir að kenna sig við hann.
Helga (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 16:16
Það gengur ekki alltaf að taka erlend föðurnöfn að íslenskum sið. Í mörgum tilfellum er það örugglega hægt.
Ég ihugaði líka að taka föðurnafn mitt en það gekk ekki upp. Hann hét Leon Høyer og á íslensku hefði ég orðið Ljónsdóttir en það var ekki nafnið hans. Bóndinn stakk upp að ég gæti kallað mig Heiðu L. Jónsdóttur, en það var heldur ekki rétt, það væri allt önnur manneskja.
Heidi Strand, 28.10.2007 kl. 19:28
Fínasta grein um sjaldheyrt mál.
Heidi :D þú myndir náttúrulega ekki breyta nafni föður þíns til að það sæmi við íslenskt nafn. Ef faðir þinn hefði heitið Richard, myndi mér alla vega finnast það fráleit hugmynd að breyta því í Ríkharðsdóttir, þótt vel eigi við og nafnið sé það sama. Richardsson eða Richardsdóttir, finnst lítið að því.
En þetta er reyndar gott hér miðað við sum lönd þar sem börn heita @ og eitthvað í jafn fáránlegum dúr. Veit það samt ekki, finnst fólk eigi bara að fá að velja fyrir sig hvernig þetta verður með sín eigin börn, börn mega bera föðurnafn eða móðurnafn, en má bæta inn í ættarnafni, og oft vill svo verða að það sé oftar notað. Magnús Scheving er annað gott dæmi, hef ekki hugmynd um hvers son maðurinn er, veit að hann er af Scheving ætt og veit hver maðurinn er :D eina sem ég þarf að vita.
En mér finnst það bara á milli tveggja hvernig þessu er háttað, svona sín á milli, en gott ef margir halda í gamla góða íslenska siði.
ViceRoy, 28.10.2007 kl. 19:39
Dótturdóttir mín sem er íslensk og skoksk..heitir Alice Þórhildur Stefánsdóttir McBride.
Faðir hennar heitir Stephen en honum finnst að dóttir hans skuli bera íslenskt föðurnafn svo hún fær íslensku útgáfuna af nafni hans stephen og svo í ofanálag ættarnafn hans í skotlandi og þannig er hún skotheld í báðum heimalöndum sínum. Mér finnst það alveg út í hött að konur taki upp eftirnöfn eiginmanna sinna og vil endilega halda okkar fallega og fína sið að kenna okkur við föður eða móður okkar. Jafnvel bæði. ÉG gæti þá heitið Katrín Snæhólm Bladursdóttir og bætt við ættarnafni móður minnar sem er Skjaldberg. Verst að það kemst ekki fyrir á kreditkortum.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.10.2007 kl. 23:48
Mér væri svo nær að fara að nota Púkann meir en ég geri til að koma í veg fyrir ritvillur...
Katrín Snæhólm Baldursdóttir Skjaldberg
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.10.2007 kl. 23:50
Með ættarnafninu veit ég hverra manna maðurinn er, eða hvað?
En svona fyrri utan þann plagsið að dæma fólk eftir ættingjum þess, þá...
Hvað með móðurættina og ömmuættirnar?
Ættarnöfn minna mig á það sem einn stórgóður kunningi minn sagði eitt sinn um ætt konu sinnar: Thoroddsen ættin er mjög stór, konan mín átti 16 langalangalangafa!
Soffía Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 00:53
Gaman að sjá hvað Anna er vel að sér um föðurætt mína. Verð þó að leiðrétta að faðir minn hét ekki Guðmundur heldur einungis Ragnar Edvardsson.
Ég get ekki eins og Anna tekið föðurhættina fram yfir móðurættina þótt þjóðþekktir prestar væru í föðurættinni. Móðuramma mín var frá Hólmi í Landbroti, systir Bjarna Runólfssonar og í ætt Þorfinns, afa míns, eru m. a. þjóðþekktir afkomendur bróður hans, Ingólfur Guðrandsson og börn hans.
Ómar Ragnarsson, 29.10.2007 kl. 11:30
Svona getur minnið leikið mann grátt, félagi Ómar. Þegar ég þekkti pabba þinn sem bílstjóra á rauðum Ford, líklega árg. 47, minnir mig endilega að hann væri kallaður Kalli bakari af því hann héti Karl Ragnar og væri bakari að iðnmennt!
En með tvínefnið mitt: Það er ekki af því tilkomið að ég vildi koma föðurnafninu af mér, heldur af því að ef ég kynnti mig eins og ég hafði oftast gert: Sigurð Hreiðar Hreiðarsson, var millinafni mínu undantekingalaust sleppt.
Sem ég kærði mig ekki um. Það er fullt af Sigurðum úti um allt (fer þó hlutfallslega fækkandi), en Sigurður Hreiðar var ekki á hverju strái og ég hef alltaf verið sérstakur, eins og þú veist. Og þar sem millinafn mitt er líka föðurnafnið þótti mér einboðið að kynna mig, og skrifa, undir nafninu Sigurður Hreiðar.
Og þó þú munir ekki að ég sé Hreiðarsson gerir það að mínu viti bara hreint ekkert til. Um leið og þú sérð einhvers staðar undirskriftina SHH veistu eins og skot hvern þú átt að skamma!
Með góðri kveðju
SHH
Sigurður Hreiðar, 29.10.2007 kl. 13:15
Kæri Sigurður Hreiðar Hreiðarsson. Auðvitað hef ég vitað í nær hálfa öld að þú ert Hreiðarsson en ég veit um svo marga sem ekki vita það en skil mjög vel þína aðstöðu og hef svo sem ekkert við hana að athuga. Þetta er frjálst land!
Úr því að Anna er komin aftur til 1500 með föðurættina mína verð ég að koma með leik á móti og tefli því fram Jóni Steingrímssyni eldklerki í móðurættinni til að reyna að jafna leikinn.
Ómar Ragnarsson, 30.10.2007 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.