HINN STÓRI DRAUMUR JÓNASAR.

Gaman er að heyra á 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar og degi íslenskrar tungu að Garðbæingar ætli að láta torg heita eftir Jónasi. En hinn stóri draumur hans um að lokið yrði til fulls ítarlegri útttekt og rannsóknum á íslenskri náttúru og gildi hennar hefur enn ekki ræst. Skerfur Jónasar í fræðigrein sinni var mun meiri en er á almanna vitorði. Hann fann það til dæmis út hvernig Landbrotshólar höfðu myndast.

Stærsti draumur hans sem fræðimanns var að ljúka sínu stóra verki um íslenska náttúru og um leið var það einn stærsti harmleikur lífs hans að falla frá langt um aldur fram og sjá þennan draum ekki rætast.

Segja má að miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í virkjana- og orkumálum hafi draumur Jónasar ekki ræst enn því að enn brýnna er nú en á hans dögum að ljúka víðtækum rannsóknum á eðli og gildi íslenskrar náttúru áður en anað er áfram og fáu eirt í skefjalausri framkvæmda- og virkjuanagleði. 

Einn hugnæmasti staður lífs Jónasar þar sem hann greiddi elskunni sinni lokka við Galtará fór undir Blöndulón og ég held að þeim muni fjölga sem sjái að það var algerlega óþarft því að hægt hefði verið að komast af með minna lón sem ekki drekkti þessum stað.

Meðal þeirra sem börðust fyrir minna lóni var Páll Pétursson en hann og skoðanabræður hans lutu því miður í lægra haldi fyrir þeim sem af óþoli og bráðlæti gátu ekki hugsað sér annað en að virkjunin yrði eins hræódýr og hugsast gæti.

Þá einblíndu menn á þau tímabundnu uppgrip í héraði sem virkjanaframkvæmdirnar gæfu af sér en í dag er þetta svæði þar sem fólki fækkar stöðugt og Blönduvirkjun breytir engu um það.  

En áfram með skáldið Jónas. Í sumum frægustu ljóðum hans sameinast skáldið og náttúrufræðingurinn á einstakan hátt, svo sem í ljóðinu um Skjaldbreiði. Í snilldarljóðinu Gunnarshólma lyftir skáldið sér upp af láglendinu líkt og hann sé í flugvél og lofar okkur að sjá "hrafntinnuþökin" þótt þau séu langt frá hólmanum uppi á hálendinu.

Það er gott að geta notað nafn og verk Jónasar í baráttunni fyrir eflingu og viðhaldi íslenskrar tungu og ekki síður að minna okkur á gildi rannsókna á mesta verðmæti Íslands, einstæðri náttúru landsins.   


mbl.is Nýtt torg í Garðabæ nefnt Jónasartorg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þeir voru margir góðir Jónasarnir.

Ég man sérstaklega eftir 'Jónasi og fjölskyldu' sem mikil eftirsjá er af.

---

Annars hefur jörð skolfið all hrikalega síðustu daga !?

Gummi (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 00:35

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

ER það ekki rétt hjá mér Ómar að barátta þín gegn virkjunum hafi hafist með Blöndulóni? Ég man vel eftir einhverjum sjónvarpsþætti sem þú gerðir og talaðir um mikla eftirsjá í landinu sem fór í lónið, sem mér fannst undarlegt sjónarmið á þeim tíma og þykir enn.

Það er rétt að Blönduvirkjun er lítið sem ekkert að gera fyrir t.d. Blönduós. Það segir okkur að réttast er að nýta orkuna úr virkjununum sem næst þeim, eins og t.d. Kárahnjúkar/Austfirðir

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2007 kl. 01:12

3 identicon

Segi það sama, átta mig ekki á þessum Gunnari, Ómar er að tala um Jónas .

Skoðaði að gamni mínu færslur þessa Gunnars og get ekki séð annað en þarna sé öfgakennt dæmi um þráhyggju á ferðinni. Gunnar minn það er hægt að lækna. 

Bjartur (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 12:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef barátta mín gegn virkjunum hófst þegar þegar ég fór að fjalla um þær og sýna myndir af virkjanasvæðum þá hófst hún strax við gerð Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana því að ég gerðist svo djarfur að sýna svæðið þar sem þær áttu að koma.

Þessi setning "barátta þín gegn virkjunum" er einhver besta lýsing sem ég hef lengi heyrt á þeim viðhorfum sem ríkja gagnavart þeim fjölmiðlamönnum sem dirfast að sýna og veita upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda og annarra.

Höfuðsynd mín og tilefni til að krefjast þess að ég væri rekinn frá Sjónvarpinu fólst í því að sýna virkjanasvæði eftirtalinna virkjana: Mjólkárvirkjun, Búrfellsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Norðlingaölduveita, Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Núpsvirkjun, Hvestuvirkjun, Laxárvirkjun, Kröfluvirkjun, Bjarnarflagsvirkjun, Þeystareykjavirkjun, Skaftárveita, Fljótsdalsvirkjun, Hraunavirkjun, Kárahnjúkavirkjun, virkjun Jökulsár á Fjöllum, Kerlingarfjallavirkjun, Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun, Bitruvirkjun, Torfajökulsvirkjun, Markarfljótsvirkjun, Hólmsárvirkjun, Trölladyngjuvirkjun, Reykjanesvirkjun, Eldvörp, Brennisteinsfjallavirkjun, Svartsengisvirkjun, Hágöngumiðlun og Hágönguvirkjun o. s. frv.

Glæpur minn fólst í þeirri meintu misnotkun minni á aðstöðu minni í fjölmiðlinum og glæpsamlega misskilningi að í Sjónvarpi ætti að sýna myndir af því sem fjallað væri um, jafnframt því sem leitað væri upplýsinga og mismunandi sjónarmiða á faglegan og óhlutdrægan hátt. 

Vegna þess að aðrir fjölmiðlar létu það oftast undir höfuð leggjast að sýna svæðin þar sem framkvæmdir áttu að verða þykir þetta atferli mitt sýna "baráttu mína gegn virkjunum." 

Við ítarlegra opinbera rannsókn þar sem jafnvel var notuð skeiðklukka vegna ásakana um "misnotkun" á aðstöðu minni vegna Fljótsdalsvirkjunar kom ekkert í ljós sem renndi stoðum undir þessar ásakanir.  

Það haggaði ekki Gunnari og hans skoðanasystkinum. Úr því að Ómar var í rannsókn ekki talinn hafa gert neitt af sér varðandi Fljótsdalsvirkjun náum við honum samt. Það

má þó alltaf halda því staðfast fram að hann hafi stundað "baráttu gegn virkjunum" í hinum rúmlega þrjátíu virkjununum sem hann fjallaði um, bölvaður. 

Engin von er til þess að hægt verði nú um síðir að kafa ofan í það með skeiðklukku hvort um "misnotkun á aðstöðu" var að ræða í þessi tæpu fjörutíu ár, til þess skortir nægileg gögn og fjármuni til að fara út í svo viðamikla rannsókn.

Og jafnvel þótt hugsanlega væri hægt að hreinsa faglegt mannorð mitt varðandi Blönduvirkjun eru hinar þrjátíu virkjanirnar eftir.

En finnst engum það undarlegt að það skuli vera fyrst nú, þrjátíu árum síðar, sem ásökun um "misnotkun á aðstöðu" kemur fram varðandi Blönduvirkjun?  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2007 kl. 13:20

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef aldrei sagt að þú berðist gegn neinni þessara virkjana nema Blöndu, Fljótsdal/Eyjabökkum og Kárahnjúkum. Ég nefndi Blöndu núna af gefnu tilefni, þó einhverjir nafnleysingjar skilji það ekki.

Í einhverjum pistli þínum um Blöndu um daginn sagðistu EKKI hafa verið á móti þeirri virkjun, en mig minnti annað.

Þú þarft ekkert að hreinsa þitt mannorð Ómar, það er örugglega hreinna en margra annarra. Þú ert hugsjónamaður og slíkir menn eru virðingaverðir. En þú getur varla láð fólki að hafa verið ósátt við umfjöllun þína um Kárahnjúka. Mörgum hér á Austurlandi fannst umfjöllun þín bera vott um ofurást á landinu sem fara átti undir vatn og þú nýttir þér aðstöðu þína sem ríkisstarfsmaður að koma sjónarmiðum þínum á framfæri. Þú sýnir einhverjar músamigur með gæsaunga í nágreninnu og hreindýr í fjarska og spilar falleg ættjarðarlög við myndskeiðin. Þú virðist eiga erfitt með að sætta þig við að allir hafa ekki sömu skoðun og þú á því, hverju verjanlegt er að fórna vegna svona framkvæmda. Og þú missir þig í hugsjónastarfinu. Hagsmunir fólksins á landsbyggðinni hljóta að vera einhvers virði. Áróður getur verið versti óvinur lýðræðisins, sérstaklega ef honum er misbeitt. Ég er áhugamaður um að andæfa slíkri misbeitingu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2007 kl. 23:27

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég spilaði aldrei falleg ættjarðarlög við myndskeiðin af virkjanasvæðinu og "músarmigurnar með gæsaungana" voru reyndar 9000 heiðagæsir sem ég mátti víst ekki sýna. 

Í síðasta þættinum um svæðið norðan Vatnajökuls söng Bergþór Pálsson lag sem ég gerði við ljóð Einars Benediktssonar um Dettifoss þar sem virkjun fossins er mærð eins og allir vita.

Stef úr þessu lagi voru síðan notuð tvívegis ef ég man rétt.

Ég samdi tvö lög og texta sem túlkuðu andstæð sjónarmið. Gerði lag og texta sem hét "Sólarupprás á Eyjabökkum" sem greindi frá landinu sem færi undir Eyjabakkalón og annað lag og texta sem hét "Afl fyrir Austurland" sem túlkaði röksemdir og tilfinningar félaga í þeim samtökum.

Ef þú getur fundið öflugri texta sem túlkar sjónarmið Afls fyrir Austurland, láttu mig vita.

Mér sýnist eftir á með ólíkindum hve mikiil æsing það vakti þegar ég sýndi lítinn hluta Hjalladals í umræðuþætti um virkjanamálin þar sem báðir aðilar höfðu jafnan rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og gerðu það.   

Ómar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 00:51

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Heiðargæsinni hefur fjölgað mikið undanfarin ár og í raun offjölgað. Fyrir um 40 árum síðan sáust ekki heiðargæsir við Eyjabakka né við Kárahnjúka og Kringilsárrana. Þegar baráttan gegn Eyjabökkum stóð sem hæst, reyndu "umhverfisvinir", eins og þeir kölluðu sig þá, með fulltyngi Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landvernd að ljúga því að almenningi að verulega stór hluti heiðargæsastofnsins ætti fellistöðvar á svæðinu. Töluðu um allt að 12% stofnsins og að stofninn kynni að vera í hættu ef svæðinu yrði raskað. En þetta var regin fyrra. Bæði hefur fjöldinn verið reikull þarna, en þó hægt fjölgandi. Sjást hafa tölur frá 1,5% til 8%. Sem er vel innan offjölgunarinnar í stofninum. Tek  fram að þessar tölur eru nokkurra ára gamlar.

Hvar voru þær nákvæmlega, þessar 9000 gæsir, Ómar? Hver taldi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.11.2007 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband