INNSKOT Í TILEFNI DAGSINS.

Á hátíðisdegi eins og þessum er mikilvægt að hugsa um þrenninguna landið, þjóðina og tunguna. Mig langar til að fara í þessum pistli í stutt ferðalag, fyrst fljúgandi upp eftir jökulám sem falla norður úr Vatnajökli um eldvirkt svæði sem á engan sinn líka í heiminum þar sem er einstakt dyngjuval.

Þar gnæfir drottning íslenskra fjalla, þjóðarfjallið Herðubreið, - móbergsstapi sem varð til undir ísaldarjöklinum og spjó eldi ofan jökuls úr tindgíg sínum. Við fætur fjallsins er gróðurvinin Herðubreiðarlindir.

Í Öskju telja menn sig finna fyrir reimleikum af völdum þeirra Rudloffs og Knebels sem þar týndust sporlaust 1907 og tunglfarar æfðu sig þar 1967. Þar þykir mörgum sem þeir horfi á jörðina í árdaga sköpunar hennar.

Sigurður Þórarinsson taldi Kverkfjöll merkasta fyrirbæri Íslands, - þar er hægt að baða sig í volgri á inni í íshelli og síga niður 37 stiga heitan foss. Efst í fjöllunum eru tvö lón með fljótandi ísi og sjóðandi vatni.

Vatnajökull er kóróna landsins og Kverkfjöll helsta djásn hans og þess vegna ber pistill minn heitið "Kóróna landsins." 

 

KÓRÓNA LANDSINS.

 

Svíf ég af sæ

mót suðrænum blæ

um gljúfranna göng

gegn flúðanna söng.

Þar færir hver foss

fegurðarhnoss

og ljúfasta ljóð

um land mitt og þjóð.

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn

sem finnast ekki í öðrum löndum:

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár

með glampandi eldanna bröndum.

Við vitum ekki enn að við eigum í raun

auðlind í hraunum og söndum,

sléttum og vinjum og auðnum og ám

og afskekktum sæbröttum ströndum.

 

Því Guð okkur gaf

gnægð sinni af

í sérhverri sveit

sælunnar reit.

 

Í ísaldarfrosti var fjallanna dís

fjötruð í jökulsins skalla

uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís,

öskunni spjó og lét falla.

Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís,

svo frábær er sköpunin snjalla.

Dýrleg á sléttunni draumfögur rís

drottning íslenska fjalla.

 

Að sjá slíka mynd

speglast í lind

og blómskrúðið bjart

við brunahraun svart !

 

Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta.

Framliðnar sálir við Öskuvatn enn

sig ekki frá gröf sinni slíta.

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn:

Eldstöð og skaflana hvíta.

Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn

í Öskju þeir gerst mega líta.

 

Höll íss og eims.

Upphaf vors heims.

Djúp dularmögn.

Dauði og þögn.

 

Endalaus teygir sig auðnin svo víð -

ögrun við tækniheim mannsins.

Kaga við jökul með kraumandi hlíð

Kverkfjöll í hillingum sandsins.

Dæmalaus gnæfa þau, drottnandi smíð,

djásnið í kórónu landsins.

 

Seytlar í sál

seiðandi mál:

Fjallanna firð,

friður og kyrrð.

 

Á Þingvöllum aðskiljast álfurnar tvær.

Við Heklu´er sem himinninn bláni.

Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.

Í Öskju er jarðneskur máni.

Ísland er dýrgripur alls mannkynsins

sem okkur er fenginn að láni.

Við eigum að vernda og elska það land

svo enginn það níði né smáni.

 

Seytlar í sál

seiðandi mál:

Fjallanna firrð,

friður og kyrrð,

íshvelið hátt,  -

heiðloftið blátt, -

fegurðin ein,

eilíf og hrein. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Allt þetta ljóð lýsir svo einlægri aðdáun á landinu. Ég fæ tár af djúpri gleði fyrir þessari dásemd sem landið okkar er. Ef aðeins væri hægt að sannfæra þá sem ráða um, þó ekki væri nema þetta brot úr textanum:

"Ísland er dýrgripur alls mannkynsins

sem okkur er fenginn að láni.

Við eigum að vernda og elska það land

svo enginn það níði né smáni."

Ómar, þú ert snillingur

Ragnhildur Jónsdóttir, 16.11.2007 kl. 16:28

2 Smámynd: Sævar Helgason

Tek undir með Ragnheiði J.- þetta er hrein og tær snilld hjá Ómari.

Að fá að ferðast um landið í þessum ljóðum er mikil upplifun.

Það er við hæfi að bitra þetta á þessum degi þegar við minnumst þess að 200 ár eru frá  fæðingu Jónasar Hallgrímssonar .

Nú á landið og náttúrugæði þess undir högg að sækja-forðum því frá skaða.

Takk fyrir- Ómar. 

Sævar Helgason, 16.11.2007 kl. 18:19

3 identicon

Ja hérna Ómar. Þú ert engum líkur. Bestu þakkir fyrir kveðskapinn og allt.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 22:47

4 identicon

Þetta er aldeilis frábær kveðskapur.  Er samt ekki innsláttarvilla í fyrsta erindinu, 3ju línu á þetta ekki að vera gljúfranna?

Eiríkur (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 13:24

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, minn kæri Eiríkur. Þetta var innsláttarvilla en er það ekki lengur því ég er búinn að leiðrétta þetta. Þakkir.

Ómar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband