16.11.2007 | 20:48
UPPSKERA METNAÐAR OG VANDVIRKNI.
Ég samgleðst þeim sem fengu viðurkenningar í kvöld á degi íslenskrar tungu. Viðurkenningin til útvarpsins ætti að vera fjölmiðlamönnum hvatning til að brýna stílvopn sín og nota þau af listfengi við að skila mikilvægum skilaboðum til almennings.
Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já...mikið var gaman að hafa R'UV opið í kvöld!...mætti oftar vera svona rammíslensk dagskrá rétt eftir fréttir. Þá meina ég ekki endilega spurningaþætti eða framhaldsþætti, heldur þema, eins og Jónas og fleiri góðir íslendingar koma í hugann. Tómas, Briet, Davíð, skáldaRósa, Stefán, Steinunn,Steinn, Vigdís, Þórarinn, Kristín, Böðvar, Guðrún, Matthías...og fleiri og fleiri!....
Hvenær á að endursýna þínar "brilljant" STIKLUR?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.11.2007 kl. 22:23
Síðan ég hóf aftur störf hjá Sjónvarpinu 1995 hefur aldrei verið endursýndur neinn þáttur sem ég hef gert og ég býst ekki við að það breytist. Hins vegar hef ég síðustu þrjú haust gert alls sex nýja Stikluþætti, að vísu unna upp úr efni sem tekið hefur verið á ýmsum tímum, allt til ársins 2002. Þeir hafa bæði verið seldir á DVD og VHS-spólum.
Þessir þættir hafa ekki verið sýndir í Sjónvarpinu heldur seldir á DVD-diskum.
Að undanförnu hef ég verið að klára DVD-spólu með tveimur 54 mín þáttum og færa 26 þætti á tólf spólum yfir á DVD-diska sem vonandi koma nógu tímanlega fyrir jólin.
Þetta verk reyndist þó tafsamara en ég bjóst við og ollu því tæknilegar ástæður. Ákveðið var að færa alla gömlu þættina beint af gömlu tommuspólunum yfir á DVCPRO-spólur en við það varð allur ferillinn yfir á tölvu og síðar DVD mun tafsamari.
Þetta var þó að mínum dómi rétt ákvörðun þegar litið er til lengri tíma og varðveislu þáttanna.
Meðal þess sem að mínum dómi þurfti að gera nú var að setja texta á það sem hægt er að skilja af því sem Gísli á Uppsölum sagði, en það var hreint ekki auðvelt verk og þurfti að marghlusta á hann.
Aðeins var sýndur texti með fyrstu sýningu þáttarins með Gísla fyrir 26 árum og síðan ekki söguna meir.
Á jóladag 1981 var honum gerður óleikur af vangá. Hann var spurður hver væri stærsti viðburðurinn áður en hann hætti að fylgjast með 1948 og engin leið var að heyra annað en að hann segði að fyrir utan heimsstyrjaldirnar hefði það verið þegar England fékk sjálfstæði. Allur landslýður hló að vitleysunni í karlinum.
En þótt hann virðist segja England sagði hann í raun og veru Indland og auðvitað var það stórviðburður þegar fjölmennasta lýðræðisríki heims og brátt fjölmennasta ríki heims fékk sjálfstæði, - alger tímamót í sögu breska heimsveldisins.
Það var kominn tími til að rétta hlut karlsins þótt seint væri. Vonandi kemur þessi nýi diskur út fyrir næstu mánaðamót.
Einnig er stefnt að því að DVD-diskurinn Ómar lands og þjóðar komi út fyrir jólin með rás með enskum leiðsögutexta og myndtexta með þýðingu á ljóðunum.
Ómar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 00:22
Sæll félagi,
Í tilefni dagsins ætti þetta líklega að vera: "Uppskera metnaðar og vandvirkni" !
Eiður (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 13:07
Hárrétt hjá þér félagi. Villupúkinn er skæður! Svipuð villa og nöfnin "Laugarvegsapótek" og "Laugarvegssamtökin." Verður leiðrétt snarlega núna (kl.18:48 19. nóvember)
Ómar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.