MARAUTT UPP Í TOPP Á KVERKFJÖLLUM.

Ég var að koma úr ferð á Kárahnjúkasvæðið og lenti auðveldlega á Sauðármel. Landið fyrir innan Herðubreið er marautt, allt upp í topp á Kverkfjöllum, - þar var meiri snjór í ágúst. Ég hef verið að bíða í allt haust eftir tækifæri til að sigla Örkinni um Hálslón með landið hvítt í kring en það færi hefur ekki gefist.

Það hefur verið svo umhleypingasamt að í þau fáu skipti þegar landið hefur gránað, hefur strax á eftir orðið autt í hláku og jafnvel rigningu. 

Lónið er enn autt að mestu en landið líka að mestu autt. 

Hætt er við að lónið muni leggja áður en landið verður hvítt. Þetta tel ég til marks um hlýnun veðurfars. Aðal úrkoman fellur í hvössum suðlægum áttum og þá er yfirleitt þurrt norðan Vatnajökuls eða að úrkoman fellur sem regn. Og hitinn hefur farið yfir tíu stig í næstum 700 metra hæð. 

"Stórhríðin" sem kom fyrir nokkrum dögum náði ekki þarna inn eftir og nær ströndinni féll mun minni snjór en ætla mætti. Bændur nyrðra segja mér að hlákurnar séu lengri og rigni meira en áður, og að norðanáttin færi það lítinn snjó með mér að það verði ekki sömu snjóþyngsli og áður voru algeng, jafnvel heilu veturna. 

En útgerðinni á hálendinu er að ljúka hjá mér og ég er því byrjaður að "loka sjoppunni", þ. e. hætta myndatökum eftir miklu annasamara og viðburðaríkara sumar og haustien ég átti von á. Fór til Reykjavíkur með gamla, litla Toyota pallbílinn sem ég hef haft fyrir austan til að draga Örkina, því að litli Súkkujeppinn getur það ekki.

Stefni að því að taka aftur upp þráðinn næsta sumar þegar hin lónin tvö verða mynduð og tugir fossa þurrkaðir upp, þar af tveir samliggjandi á hæð við Gullfoss.  

Þessi tveggja manna Toyota-pallbíll verður kannski einhvern tíma seinna hluti af hugsanlegu smábílasafni Íslands, og þá sem minnsti Toyota-jöklajeppinn, því að hann er með lækkuð drif og læst drif að framan og aftan og er það léttur (1620 kíló)  og á það stórum hjólbörðum (35") að hann á að geta fylgt 38 tommu bílum auðveldlega. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Það verður spennandi að sjá hvað hreindýrin gera þarna innfrá þar sem lónið er orðið svona stórt?  Er í gangi rannsókn hvað þetta varðar?

Marinó Már Marinósson, 21.11.2007 kl. 22:20

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kárahnjúkasvæðið átti að búa yfir nær ótakmörkuðum möguleikum í ferðaþjónustu. Svæðið sem fór undir vatn átti að vera sambærilegt og í einhverjum skógarþjóðgarði á Nýja Sjálandi, eða Yellow Stone í BNA.

Það er hætt við því að ferðaþjónustufyrirtæki myndu hiksta á að veita Kárahnjúkaþjóðgarðinum viðunandi þjónustu, nema í mesta lagi 3-4 mánuði á ári, miðað við erfiðleika þína að komast á staðinn. Og ekki einu sinni á sumrin, á hábjargræðistímanum, geta ferðamenn á svæðinu verið öruggir með að sjá þarna eitthvað yfir höfuð, fyrir roki og sudda.

Svona er þessi auðlind sem var verið að fórna. Sérfræðingar í ferðaþjónustu lögðu fram spá sína fyrir rýnihópa Landverndar um áhrif framkvæmdanna fyrir austan á ferðaþjónustuna, annars vegar fyrir Kárahnjúkasvæðið og hins vegar fyrir landið allt. "Sérfræðingarnir" sögðu að 70% fækkun yrði á ferðamönnum á Kárhnjúkasvæðið og um 50% á öllu landinu, vegna neikvæðrar ímyndar sem framkvæmdirnar sköpuðu.

Allir vita í dag að þetta er fjarstæða. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2007 kl. 01:44

3 Smámynd: Guðný Drífa Snæland

Frekar fyndið þetta með veðurfarið. Ég flutti sjálf austur á Hérað fyrir um þremur árum og er enn að bíða eftir einhverjum snjó! Þá er ég að meina svona alvöru eins og kom alltaf fyrir nokkrum áarum, svona allt-á-kafi-og-allir-að-moka-sig-út-úr-húsum-snjó

Guðný Drífa Snæland, 22.11.2007 kl. 10:45

4 identicon

Gunnar alltaf góður - enda sannkallaður grínisti!

Hlynur (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 13:32

5 identicon

Hefur þú séð Þeistareyki í birtu vetrar ? Ekki ég en ég er óróleg með það sem ég sá í sumar. Skelfilega ömurlegar rannsóknir (borholur) sem virtust vera illa ígrundaðar Ómar minn.

Ég treysti því að þú fylgist með málum á þeistareykjum.

Hvað er að gerast þar ?

Segðu okkur ösnunum það:vildi að ég kynni eitthvað í náttúruvernd....

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 16:28

6 identicon

Hefur þú séð Svartsengi í birtu vetrar ?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 16:29

7 identicon

Hefur þú séð Svartsengi í birtu vetrar ?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 16:29

8 identicon

Hefur þú séð Svartsengi í birtu vetrar ?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 16:29

9 identicon

Líka frekar fyndið að sú sem situr og bíður eftir snjónum skuli heita Guðný Drífa Snæland!

Jóhann (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 19:15

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, mín kæra Jónína. Ég sýndi Þeystareykjasvæðið fyrir mörgun árumí sjónvarpinu og í sumar fór ég í sérstaka kvikmyndatöku- og ljósmyndatökuferð á svæðið. Mér hefur verið sagt að framkvæmdaaðilar hefðu lofað að "skábora" og fara ekki inn á miðju hverasvæðisins. En þeir eru samt einmitt þar.

Náttúruverndarmenn grátbáðu um að háspennulínan yrði ekki lögð beint fyrir ungt hraun með miklum gjám sem eru vestasti hluti gliðnunarsvæðisins þar sem Ameríkuflekinn fjarlægist Evrópuflekann.

Ég heyrði töluna 1300 metra lengri línu til að þyrma þessu.

Það þarf ekki að spyrja um niðurstöðuna: Landsnet fær allt sem það biður um.

Ég hef sett Gjástykki og Leirhnjúkssvæðið efst á forgangsraðarlistaminn í andófi gegn skefjalausri ásókn í gríðarlega stórt svæði norðan og austan við Mývatn sem getur á endanum toppað Hellisheiðarsvæðið í virkjunum.

Talsmaður virkjanafíklanna hefur nefnt 1000 megavött í mín eyru sem nægir fyrir 600 þúsund tonna álver við Húsavík, langstærsta álver í Evrópu.

Vígstöðvarnar eru svo margar, Jónína, að þetta minnir á það þegar allt dundi yfir í einu, Kárahnjúkar, Þjórsárver, Hellisheiði og Neðri-Þjórsá. Þá gát fjárvana og magnþrota náttúruverndarmenn eftir Eyjabakkabaráttuna ekki veitt viðnám alls staðar í einu.

Þeystareykir virðast tapaðir, og Bjarrnarflag og Krafla stefna í að verða að álíka virkjanasvæðum og Hellisheiðin er núna. Þegar er komin stór borhola aðeins einn kílómetra frá Leirhnjúki.

Virkjana-uglan er að skipta ostbitanum eins og uglan í þjóðsögunni gerði með þeim afleiðingum að ekkert varð eftir af ostbitanum í lokin þótt í veðri væri látið vaka allan tímann að skipta ætti af sanngirni og skynsemi.

Ómar Ragnarsson, 22.11.2007 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband