MEIRIHLUTINN SEM VARÐ MINNIHLUTI.

Hvers vegna þarf aftur og aftur að berjast sérstaklega fyrir því í kjarabaráttu að reyna að hífa upp þá sem lægst hafa launin og ekki hafa notið launaskriðs? Af hverju virðist þetta ástand hafa versnað síðustu áratugi? Ég held að hluti skýringarinnar sé fólgin í því að nú er það minnihluti verkalýðsins sem vinnur eftir strípuðum töxtum en fyrr á árum var það meirihlutinn. Skoðum þetta nánar. 

Þegar ég var ungur voru línurnar í verkalýðsbaráttunni nokkuð skýrar. Verkamenn voru fjölmenn stétt og yfirgnæfandi meirihluti þeirra vann á "strípuðum" töxtum eins og það væri kallað nú. Ég tel mig hafa haft gott af því að allt frá 13 ára aldri vann ég verkamannavinnu í jólafríi, páskafríi og á sumrin. Á aldrinum 17-20 ára vann ég líka á kvöldin og um helgar við byggingu Austurbrúnar 2 til að eignast þar íbúð og held að ég kynnst nokkuð vel kjörum verkalýðsins á þessum tíma.

Verkamenn voru svo fjölmennir þá vegna þess að ekki voru komin til sögunnar hin fjölmörgu tæki og tól sem nú eru notuð við að grafa skurði, leggja vegi o. s. frv. Sem dæmi má nefna að víða varð að beita þeirri aðferð við að flytja til varning, t. d. í pakkhúsum, að verkamenn mynduðu röð og varningurinn var handlangaður manna á milli þá leið sem þurfti að flytja vöruna. Í svona röð afkastaði enginn maður meira en annar og því var eðlilegt að allir hefðu sama kaup.

Þegar skipað var upp t. d. sekkjavöru tóku tveir og tveir saman sekkina upp og settu þá upp á bretti. Báðir afköstuðu jafn miklu.

Á þessum árum var atvinnuleysi. Ég var stundum einn af þeim sem fór í biðröð niðri við höfn og beið eftir því hverja Jón Rögnvaldsson valdi til vinnu þann daginn.

Við slíkar aðstæður varð því ekki til launaskrið heldur mætti kalla það vinnuskrið. Þeir sátu eftir sem ekki fengu vinnu.  

Verkalýðsbaráttan varð því einfaldari en nú. Barist var fyrir launahækkun og þegar laun hækkuðu hækkuðu svo til allir jafnt. Verkamannafélagið Dagsbrún var einsleitt félag að þessu leyti og yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna vann á strípuðum töxtum. Og meirihlutinn hefur alltaf sterka stöðu innan hópsins, ekki satt?

Nú er þetta gjörbreytt. Í verkamannafélögunum er líkast til minnihluti sem vinnur einfalda verkamannavinnu með handverkfærum. Meirhlutinn hefur farið á námskeið, vinnur eftir bónuskerfi o. þ. h. og mun fleiri eiga möguleika á launaskriði en þegar afköstin fólust eingöngu í líkamlegu erfiði.

Afleiðingin er sú að þessi minnihluti hefur erfiða stöðu og ég held að það sé þess vegna sem svona illa gengur að hífa þá lægst launuðu upp í kjarabaráttunni. Af því að hver hugsar á endanum um sitt eigið veski siglir meirhlutinn aftur og aftur í burtu frá kjörum minnihlutans og skilur hann eftir með sárt ennið.

Hvers vegna skyldi meirihlutinn berjast fyrir kjörum minnihlutans? Og jafnvel þótt hann geri það í orði er alltaf hætta á að það verði ekki á borði.

Ég tek fram að ég hef ekki kynnst kjörum kvenna í verkalýðsstétt á sama hátt á okkar tímum og kjörum karla fyrr á árum og framangreindar vangaveltur eru því alls ekki vísindaleg greining heldur einungis tilraun til að leita skýringar á hluta þess vandamáls sem bág kjör hinna lægst launuðu er og stingur illilega í stúf við það meðaltal sem notað er þegar okkur er skipað efst á stall bestu þjóðfélaga heims.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek undir þetta. Það breytir engu þótt það sé kannski minnihluti í þjóðfélaginu sem verður undir því að tekjumunurinn verður meira himinhrópandi. Sagan sýnir að minnilhlutar eru oftast grátt leiknir, blökkumenn í Bandaríkjunum, gyðingar og sígaunar í Evrópu fyrir miðja síðustu öld o. s. frv.

Aldrei er meiri þörf á átaki en þegar meirihlutinn nýtir aflsmunar um of gagnvart minnihlutanum.

Ómar Ragnarsson, 29.11.2007 kl. 23:11

2 identicon

Vantar okkur gömlu jaxlana Guðmund Jaka og fleiri? Eða er það áhuginn sem horfinn, eða er það  kjarkurinn? Hvað er að fólki í dag,, það þarf að berjast fyrir öllu, ekkert kemur hlaupandi til okkar

Sigríður Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 23:25

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góður pistill Ómar og ágætis greining á þróun atvinnumála undanfarna áratugi. Ég er hins vegar algjörlega á móti því að reynt sé að ná jöfnuði í gegnum skattkerfið. Hvorki ríkissjóður né launþegar munu hagnast á því til langframa. Kjör þeirra lægst launuðu þarf vissulega að bæta en það er erfitt þegar ríkið sjálft er stærsti launagreiðandi láglaunahópanna með sína strípuðu taxta. Yfirborganir skekkja myndina og gera málið allt erfiðara. Það þarf einhvernveginn að vinda ofan af þessu, en ég held þó að það sé hægara sagt en gert.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2007 kl. 01:28

4 identicon

Annar höfuðtilgangur skatta er að jafna kjör fólks. Hinn er að afla tekna til samneyslunnar:

"Með tilliti til skatta þýðir jafnræði að þeir þegnar sem jafnt eru settir skuli greiða sama skatt og sanngirni felur í sér að þeir sem betur eru settir skuli greiða meira í skatt en þeir verr settu." Svo mælti Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattsstjóri. Sjá nánar á eftirfarandi slóð: http://inhauth.blog.is/blog/inhauth/entry/206789/

Indriði hefur sýnt fram á hvernig skattkerfið á Íslandi hefur verið sveigt til þess - í tíð Davíðs & Halldórs - að hygla þeim betur settu en níðast á þeim sem lakar standa. Um það má lesa á þessari slóð:

http://inhauth.blog.is/blog/inhauth/entry/205454/

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband