1.12.2007 | 15:34
ER 1. DESEMBER JAFNOKI 17. JÚNÍ ?
17. júní er þjóðhátíðardagur Íslendinga en ég held að 1. desember 1918 hafi í raun fært þjóðinni meiri breytingu á stöðu Íslands. Sumir halda því fram að 1. febrúar 1904 hafi fært Íslendingum meiri breytingar en hinu verður ekki neitað að það var fyrst 1. desember 1918 sem það var tryggt í lögum, Sambandslögunum, að Íslendingar gætu öðlast fullt sjálfstæði og slitið sambandinu við Dani 25 árum síðar ef þeir kysu svo.
Hin drungalega umgjörð dagsins hinn kalda vetur síðasta drepsóttarfaraldurs á Íslandi í kjölfar Kötlugoss hefur haft þau áhrif að minnka hann í samanburði við hina fjölmennu Lýðveldishátíð á Þingvöllum og tveggja daga hátíðahalda sumarið 1944.
Í mínu ungdæmi var 1. desember mun meiri hátíðisdagur en síðar varð og er það miður að mínum dómi. Eitt er þó gott við það. Dagurinn þykir ekki nógu merkilegur til þess að hægt sé að bjóða hann út á markaðnum, þ. e. selja umgjörð hans einhverju fyrirtæki sem leggur í púkkið við kostnaðinn við hátíðahöldin.
Síðast var það Og Vodafone sem varð fyrir valinu ef ég man rétt sem kostunaraðili og sáust merki þess víða. Hver hreppir hnossið næst? Coca-Cola eða Pepsi á Íslandi?
Ég leyfi mér að gagnrýna þetta og þessi gagnrýni beinist á engan hátt gegn þeim fyrirtækjum, sem leitað er til um kostun, heldur gegn okkur sjálfum. Mér finnst það verðfella mat okkar á þjóðhátíðardeginum að þetta eitt ríkasta þjóðfélag heims skuli ekki geta staðið óstutt að þessari einu hátíð á árinu sem þjóðin á til að helga sjálfri sér.
Það er ekki langt í það með sama áframhaldi að sungið verði á Austuvelli 17. júní:
Ó, Guð vors lands -
Og Vodafone. -
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn....
Mér finnst kaldhæðnislegt ef 1. desember verður vegna vanmats á gildi hans einn eftir sem eini hátíðisdagurinn sem þjóðin á fyrir sjálfa sig án þess að þurfa að setja hann á uppboð á markaði.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér að við hljótum að hafa efni á að halda upp á þjóðhátíðardaginn án "kosturnar" stórfyrirtækja.
Sérstaklega finnst mér það hallærislegt ef það kemur í hlut fyrirtækja með erlend nöfn.
Sérðu fyrir þér "Dag íslenskrar tungu" í boði "House Of Fraser"
Landfari, 2.12.2007 kl. 10:50
Ég sé fyrir mér "Dag íslenskrar tungu í boði Kentucky Fried Chicken."
Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.